

Hjúkrunarfræðingur á Landspítalanum hafði betur í dómsmáli, fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur, gegn spítalanum og ríkinu. Hafði hjúkrunarfræðingurinn, sem er kona, átt uppsafnaða umframtíma í skráningarkerfinu Vinnustund, með öðrum orðum vann hún yfirvinnu. Þessa yfirvinnutíma hafði hún ætlaði sér að taka umframtímana út í fríi en var meinað að gera það. Fór hjúkrunarfæðingurinn þá í mál og krafðist þess að fá umframtímana greidda í formi yfirvinnu. Spítalinn og ríkið sögðu hins vegar að þessir tímar væru hluti af samningsbundinni yfirvinnu sem væri föst og höfnuðu því að greiða hjúkrunarfræðingnum fyrir meira en hina föstu yfirvinnu.
Hjúkrunarfræðingurinn hefur starfað í um 25 ár á Landspítalanum en frá 2019 sem sérfræðingur á dag- og göngudeild blóð- og krabbameinslækninga.
Vísaði hjúkrunarfræðingurinn til þess í sinni stefnu að sérfræðingum í hjúkrun á Landspítalanum sé ekki greitt sérstaklega fyrir þá tíma sem þeir vinni umfram vinnuskyldu heldur safnist þeir upp í Vinnustund, tímaskráningarkerfi ríkisins. Vildi hjúkrunarfræðingurinn meina að það fyrirkomulag hefði tíðkast að þessi hópur starfsmanna spítalans hefði verið hvattur til að taka þessar yfirvinnustundir út í fríi. Þetta hafi tíðkast um árabil og hún sjálf nýtt sér það.
Ríkið og Landspítalinn andmæltu því hins vegar að slíkt hefði tíðkast á spítalanum. Samkvæmt kjarasamningum hjúkrunarfræðinga sé öll yfirvinna þeirra föst og umsamin óhað skráningu í Vinnustund.
Á síðasta ári fékk hjúkrunarfræðingurinn skilaboð frá spítalanum þar sem þetta var áréttað og að hinir uppsöfnuðu yfirvinnutímar ættu að telja inn í hina föstu og samningsbundnu yfirvinnu en ekki væri heimilt að nýta þá til frítöku. Hjúkrunarfræðingurinn sagði þetta hafa komið henni algerlega í opna skjöldu þar sem vikið væri frá fyrirkomulagi sem hefði tíðkast um árabil. Með þessu væri verið að hafa af henni uppsafnaða yfirvinnu sem fram að þessu hefði verið hægt að taka út í fríi. Spítalinn hafnaði því síðan í kjölfarið að greiða laun fyrir þessa yfirvinnutíma sem voru alls 152,69.
Höfðaði hjúkrunarfræðingurinn þá í kjölfarið mál og krafðist þess að fá greidd laun fyrir þessar yfirvinnustundir á yfirvinnutaxta. Sagði í stefnu hjúkrunarfræðingsins að fyrirkomulagið um töku frídaga hefði verið forsenda þess að hún hefði unnið yfirvinnuna. Hún sem og aðrir sérfræðingar í hjúkrun á spítalanum hafi verið hvattir af stjórnendum til þess að taka yfirvinnu út í fríi í stað þess að fá grett fyrir hana. Um væri að ræða munnlegan samning sem hefði sem lagagildi og skriflegur. Síðan hún hóf störf sem sérfræðingur hafi hún alls nýtt sér þetta fyrirkomulag í átta skipti og í hvert sinn með samþykki yfirmanns í skriflegu formi. Framvísaði hjúkrunarfræðingurinn gögnum um þessi tilvik.
Lagði hjúkrunarfræðingurinn áherslu á að eðli starfs hennar væri slíkt að oft væri nauðsynlegt væri fyrir hana að mæta bæði fyrr til starfa og vinna umfram hefðbundinn dagvinnutíma. Taldi hún um brot á stjórnsýslulögum að ræða og ekki síst þar sem henni hefði ekki fyrr verið leiðbeint um að ekki væri heimilt að taka yfirvinnutímana út í fríi. Hingað til hafi samningsbundinn föst yfirvinna, sem sé 20 tímar á mánuði, ekkert haft að segja um ráðstöfun yfirvinnutíma í Vinnustund.
Vildu spítalinn og ríkið hins vegar meina að hjúkrunarfræðingurinn hefði nú þegar fengið umrædda yfirvinnutíma greidda með föstum mánaðarlegum greiðslum fyrir yfirvinnu. Í ráðningarsamningi kæmi skýrt fram að hún fengi ekki greitt fyrir yfirvinnu umfram hina föstu yfirvinnutíma, 20 tíma á mánuði, enda ætti yfirvinnan að jafnaði ekki að vera meiri. Meiri yfirvinnu yrði að heimila sérstaklega og hennar næsti yfirmaður hafi ekki haft heimild til þess eða að heimila henni að taka yfirvinnuna út í frí. Hjúkrunarfræðingurinn hafi ekki framvísað neinum gögnum um að annað fyrirkomulag um hennar yfirvinnu en þetta ætti að gilda.
Í niðurstöðu héraðsdóms segir að samkvæmt framburði tveggja annarra starfsmanna í sams konar starfi og gögnum um samskipti hjúkrunarfræðingsins við deildarstjóra, hennar næsta yfirmann, sé ljóst að það sé rétt hjá hjúkrunarfræðingnum að það hafi tíðkast á hennar deild að taka uppsafnaða yfirvinnutíma út í fríi. Það sé hins vegar rétt hjá spítalanum og ríkinu að kjarasamningur og ráðningarsamningur geri ekki ráð fyrir þessu fyrirkomulagi.
Horfa verði til þess að launþegi eigi rétt á að fá greitt fyrir þá vinnu sem hann innir af hendi í þágu vinnuveitanda, í samræmi við samkomulag aðila, eins og legið hafi í reynd fyrir. Hjúkrunarfræðingurinn hafi mátt, þrátt fyrir ákvæði kjarasamninga og ráðningarsamninga, í ljósi fyrirliggjandi framkvæmdar og samskipta við sinn næsta yfirmann, mátt hafa réttmætar væntingar til þess að geta nýtt sér uppsafnaða vinnu sína umfram dagvinnu, til að taka út frí.
Hjúkrunarfræðingnum var því dæmt í vil og ber Landspítalanum og ríkinu að greiða henni fyrir hina uppsöfnuðu yfirvinnutíma, alls um 965.000 krónur auk dráttarvaxta.