

Það er ekki hægt að segja að það sé bjart yfir veðurkortunum fyrir komandi aðfangadagskvöld. Samkvæmt núgildandi veðurspá stefnir í rok og rigningu um nánast allt land en þó munu íbúar á norðurlandi eystra og austurlandi sleppa við rigninguna.
Miðað við spákort á vefsíðu Veðurstofunnar verður klukkan 18 á aðfangadagskvöld þegar jólin ganga í garð vindur víðast hvar um landið yfirleitt á bilinu 15-22 metrar á sekúndu og víða slagveðursrigning. Því gæti stefnt í að gul viðvörun verði gefin út. Á norðausturlandi og austurlandi er þó ekki spáð úrkomu en mismiklum vindi. Ein besta spáin er fyrir Akureyri en þar er spáð um 10 stiga hita og 5 metra vindi á sekúndu. Eftir því sem austar dregur hækkar vindaspáin en í helstu þéttbýlisstöðum er þó ekki spáð jafn miklum vindi og í öðrum landshlutum.
Í textaútgáfu spárinnar segir að á aðfangadag sé spáð sunnan og suðvestan hvassviðri eða stormi og rigningu, en úrkomulítið verði um landið norðaustanvert. Hlýtt verði í veðri.
Í hugleiðingum veðurfræðings segir enn fremur að það verður ríkjandi suðaustlæg átt og milt næstu daga með vætu einkum suðaustantil, en þurrt að kalla fyrir norðan. Yfirleitt kaldi eða strekkingur og lengst af hvassast við suðvesturströndina. Suðvestlæg átt með rigningu eða slyddu og kólni um tíma á Þorláksmessu, en síðan sé útlit fyrir stífa sunnanátt með talsverðri rigningu á aðfangadag jóla, en úrkomuminna norðaustantil. Líklega verði áfram vætusamt sunnanlands á jóladag, en úrkomuminna fyrir norðan. Það kólni síðan smám saman.
Einar Sveinbjörnsson veðurfræðingur skrifar á veðurvef sínum Blika að eftir helgi sé rísandi bylgju spáð hér á N-Atlanshafinu með hlýju lofti. Svo sé að sjá nú sem að Ísland verði í vesturjaðri hennar á aðfangadag og fram á jóladag. Eiginlega undir mikilli suðvestanstæðri vindröst í háloftunum. Með henni berist líka mikill raki langt að úr suðri.
Einar segir enn fremur:
„Í raun eru þetta allskörp skil og mun kaldara loft í vestri. Eins og þetta lítur út nú, er reiknað með hvassri sunnanátt á landinu (mögulega stormi?) og með slagveðursrigningu á aðfangadag um sunnan- og vestanvert landið.“