

Persónuvernd hefur komist að þeirri niðurstöðu að lögmenn hjá lögmannsstofunni Pacta lögmenn hafi ekki farið að persónuverndarlögum þegar þeir miðluðu bankaupplýsingum tiltekins einstaklings við fyrirtöku endurupptöku kyrrsetningarmáls sem lögmennirnir ráku gegn viðkomandi fyrir hönd umbjóðanda síns. Var umfangsmeiri upplýsingum en þörf var á vegna kyrrsetningarinnar miðlað. Snerist málið um fjárskipti vegna sambúðarslita.
Einstaklingurinn lagði fram kvörtun sína í nóvember 2022 en í úrskurði Persónuverndar kemur fram að þegar miðlunin á bankaupplýsingunum átti sér stað hafi Pacta verið hluti af fyrirtækinu Lögheimtan.
Fram kemur í úrskurðinum að tiltekin upphæð á bankareikningi þess sem kvartaði hafi verið kyrrsett með kyrrsetningargerð að kröfu ónefnds umbjóðanda Pacta. Lögmaður hjá Pacta krafðist þess við hinn ónefnda banka að lokað yrði fyrir úttektir af reikningnum. Fór lögmaðurinn fram á að fá senda stöðuna á reikningnum og reikningsyfirlit frá því að kyrrsetningargerðin fór fram. Bankinn svaraði með því að senda lögmanninum upplýsingar um heildarstöðu kvartandans hjá bankanum, ekki eingöngu um þennan eina reikning heldur yfirlit yfir stöðu innlánsreikninga, stöðu kreditkorts, öll útlán og hreyfingar á tilteknum bankareikningi kvartanda þrjá mánuði aftur í tímann. Kyrrsetningarbeiðnin var síðan endurupptekin hjá sýslumanni síðar í sama mánuði og lagði lögmaður Pacta þessi gögn, sem bankinn hafði látið honum í té um kvartandann, fram til tryggingar kröfu umbjóðanda lögmannsstofunnar á hendur kvartandanum ásamt því að upplýsa um hvernig gögnin höfðu borist honum.
Kvartandinn taldi framlagningu þessara bankaupplýsinga hans við þessa fyrirtöku kyrrsetningarbeiðni hjá sýslumanni hafa verið í heimildarleysi og því andstæð lögum um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga. Sagði hann lögmanninn hafa fengið þær sendar í trássi við ákvæði laga um fjármálafyritæki um þagnarskyldu. Hafi lögmanninum borið að virða þagnarskyldu um upplýsingarnar og eyða þeim.
Vildi kvartandinn meina að þessi framganga Pacta hafi ekki verið nauðsynleg til að hafa uppi kröfu um kyrrsetninguna því sýslumaður hafi þegar verið búinn að fallast á hana. Framlagning upplýsinganna við endurupptöku kyrrsetningargerðarinnar hafi því ekki verið í þeim tilgangi að benda á tiltekna eign eins og Pacta haldi fram. Endurrit úr gerðabók sýni fram á að lögmaður Pacta hafi lagt fram skjölin til að sýna fram á að kvartandinn hafi tekið fjármuni út af reikningum sem hafi átt að vera kyrrsettir. Í því samhengi mótmælti kvartandi staðhæfingum Pacta, þess efnis að engir bankareikningar hans hafi í reynd verið kyrrsettir eftir upphaflegu gerðina. Kvartandinn sagði bankann þvert á móti hafa kyrrsett alla bankareikninga hans og vísaði því til staðfestingar til tölvupósts frá lögmanni sínum.
Pacta vildi meina að þessi miðlun og vinnsla persónuupplýsinga kvartandans hafi verið nauðsynleg til að gæta lögmætra hagsmuna umbjóðanda lögmannsstofunnar. Miðlunin hafi verið í samræmi við persónuverndarlög og ekki gengið lengra en nauðsynlegt hafi verið.
Pacta sagði að tildrög málsins mætti rekja til fjárskipta vegna sambúðarslita kvartandans og umbjóðanda Pacta. Númer bankareiknings kvartandans hafi verið ranglega tilgreint í gerðabók sem hafi leitt til þess að endurupptaka hafi þurft kyrrsetningargerðina.
Beiðni lögmanns Pacta um bankaupplýsingar kvartandans hafi verið lögmæt og ekki falið í sér beiðni um allar upplýsingar um viðaskipti kvartandans við bankann. Lögmaðurinn hafi mátt treysta því að kvartandinn hafi aflétt kröfu um þagnarskyldu og bankinn hafi ekki komið neinni áminningu um þagnarskyldu á framfæri. Ekkert hafi gefið lögmanni Pacta tilefni til að ætla að honum væri ekki heimilt að nota upplýsingarnar í þeim takmarkaða og lögmæta tilgangi að kyrrsetja eignir til tryggingar fullnustu lögmætrar kröfu.
Í niðurstöðu Persónuverndar segir að það sé lögmannsstofan sjálf en ekki einstakir lögmenn sem beri hina formlegu ábyrgð á vinnslu persónuupplýsinga kvartandans.
Persónuvernd segir að fallast megi á að við kyrrsetningu innistæðu á bankareikningi gerðarþola geti lögmaður gerðarbeiðanda ekki komist hjá því að vinna með upplýsingar um fjárhag gerðarþola upp að einhverju marki, sem nauðsynlegar séu í þeim tilgangi. Ekki verði annað ráðið af gögnum málsins en að lögmenn Pacta hafi í umrætt sinn aflað gagna til að tryggja sönnun um tiltekið atriði í tengslum við einkaréttarlegan ágreining milli umbjóðanda þeirra og kvartanda, í samræmi við réttindi og skyldur lögmanna. Því hafi Pacta haft lögmæta hagsmuni af vinnslu þessara persónuupplýsinga kvartandans.
Hins vegar sé ekkert sem styðji þá staðhæfingu Pacta að nauðsynlegt hafi verið að leggja fram yfirlit yfir stöðu innlánsreikninga, stöðu kreditkorts og öll útlán og hreyfingar á tilteknum bankareikningi kvartanda þrjá mánuði aftur í tímann, í þeim tilgangi að benda á réttan bankareikning til að kyrrsetja. Lögmaður Pacta hafi getað komið leiðréttingu á framfæri við endurupptöku gerðarinnar, hvað ábendingu á réttan bankareikning varðað, án þess að leggja fram umrædd gögn. Ljóst sé að skilyrði kyrrsetningar hafi verið talin fyrir hendi við upphaflegu gerðina og ekki að sjá að breytingar hafi orðið á grundvelli kröfu gerðarbeiðanda á þeim sex dögum sem liðið hafi fram að endurupptöku gerðarinnar, þegar lögmaðurinn lagði fram umræddar bankaupplýsingar.
Pacta hafi ekki sýnt fram á að þessi vinnsla persónuupplýsinga um kvartandann hafi verið nauðsynleg í þágu þeirra lögmætu hagsmuna sem lögmannsstofan hafði af vinnslunni og að þeir hagsmunir gangi framar hagsmunum eða grundvallarréttindum og frelsi kvartandans.
Niðurstaðan er því sú að með því að leggja fram áðurnefndar bankaupplýsingar við endurupptöku kyrrsetningarbeiðninnar hafi Pacta lögmenn ekki farið að lögum um persónuvernd og persónuupplýsinga. Hins vegar þykir ekki vera nægilegt tilefni til að leggja stjórnvaldssekt á lögmannsstofuna.