

Álfheiður Eymarsdóttir, varaformaður bæjarráðs í Árborg, hefur sagt sig úr Pírötum. Hún segir aukna miðstýringu og stofnun embættis formanns á meðal ástæðnanna fyrir brotthvarfi sínu.
„Ég hef formlega sagt mig úr Pírötum. Ég er því óflokksbundin og óháð,“ segir Álfheiður sem situr í meirihluta sveitarfélagsins Árborgar með Sjálfstæðismönnum undir merkjum bæjarmálafélagsins Áfram Árborg. Álfheiður gekk inn í meirihlutann eftir að Fjóla Kristinsdóttir, fyrrverandi bæjarstjóri, sleit sig frá honum.
Álfheiður segist þakka samfylgdina og sakna fólksins. En einhvers staðar hafi flokkurinn villst af leið og vanrækt landsbyggðina.
„Komin of mikil miðstýring og alltof langt til vinstri fyrir minn smekk. Vinstribeygjan kom niður á áherslum á frelsi. Það sem fyllti mælinn hjá mér var að falla frá flötum strúktúr og fá okkur formann,“ segir Álfheiður að lokum. Hún mun halda áfram að starfa fyrir Áfram Árborg í meirihluta sveitarfélagsins.