

Trúfélagið Zuism hefur verið fellt af skrá yfir skráð trúfélög. Þetta kemur fram í auglýsingu í Lögbirtingablaðinu í dag. Félagið hefur reynst vægast sagt umdeilt síðan það var stofnað á síðasta áratug en það var framan af kynnt þannig að meðlimir myndu fá sóknargjöld, sem félagið fengi frá ríkinu, í eigin vasa. Lítið var þó um efndir og hlutu forsvarsmenn félagsins fangelsisdóma fyrir að nýta sóknargjöldin í eigin þágu.
Félagið var upphaflega stofnað 2013 en bræðurnir Ágúst Arnar Ágústsson og Einar Ágústsson tóku á endanum félagið yfir og tókst að safna um 3.000 meðlimum en líklegt má telja að væntingar þessa hóps hafi verið þær að sóknargjöld frá ríkinu yrðu greidd til meðlima. Á árunum 2017-2019 fékk félagið greiddar um 85 milljónir króna í sóknargjöld.
Félagið var hins vegar tekið til rannsóknar meðal annars á þeim grundvelli að engin starfsemi færi fram í því og skráðum meðlimum fór í kjölfarið hratt fækkandi. Greiðslu sóknargjalda var hætt og í kjölfar lögreglurannsóknar voru bræðurnir ákærðir fyrir fjársvik og peningaþvætti með því að nýta fé félagsins í eigin þágu meðal annars til kaupa á áfengi og í ferðalög.
Héraðsdómur sýknaði bræðurna á þeim grundvelli að þeir hefðu ekki beitt blekkingum til að afla fjárins þar sem að í stjórnsýslunni hefðu verið til staðar efasemdir um að Zuism hefði uppfyllt skilyrði laga um trúfélög.
Landsréttur sneri hins vegar dómnum við og sakfelldi bræðurna á þeim grundvelli að þeir hefðu hagnýtt sér ranga hugmynd stjórnvalda um að félagið uppfyllti skilyrði laganna. Ágúst hlaut tveggja ára fangelsisdóm en Einar 18 mánaða. Einnig var samhliða rekið mál á hendur hlutafélögum í eigu bræðranna en sannað þótti að þeir hefðu fært fé af reikningum trúfélagsins yfir á reikninga hlutafélaganna.
Vegna sýknu fyrir Héraðsdómi en sakfellingar fyrir Landsrétti samþykkti Hæstiréttur að taka málið fyrir.
Hæstiréttur staðfesti hins vegar dómana yfir bræðrunum í mars á þessu ári. Rétturinn lagði þó eilítið annan grundvöll en Landsréttur að sakfellingu bræðranna sem var að þeir hefðu styrkt og hagnýtt sér óljósa hugmynd starfsmanna ríkisins um starfsemi Zuism fremur en beinlínis ranga hugmynd þeirra. Ágúst og Einar hafi þannig sameiginlega markvisst hagnýtt sér þá óvissu sem hefði skapast um starfsemi félagsins og aflað því framlaga úr ríkissjóði sem það hafi í reynd átt engan rétt á.
Hæstiréttur staðfesti jafnframt dóm Landsréttar um upptöku fjármuna Zuism og áðurnefndra tveggja hlutafélaga bræðranna.
Í kjölfar þessa dóms og afskráningu Zuism blasir því ekki annað við en að hin stormasama og vafasama saga félagsins sé á enda.