

Ónefndur maður sendi erindi til dómsmálaráðuneytisins í janúar 2022 sem væri líklega ekki í frásögur færandi nema hvað að hann fékk ekki svar fyrr en nú í desember 2025. Næstum fjórum árum síðar. Hreyfing virðist ekki hafa komið á málið fyrr en maðurinn lagði fram kvörtun til umboðsmanns Alþingis.
Maðurinn lagði fram kvörtunina í júlí en í henni kom fram að dómsmálaráðuneytið hefði ekki enn brugðist við erindinu frá í janúar 2022 þrátt fyrir ítrekanir. Ritaði umboðsmaður dómsmálaráðuneytinu bréf vegna málsins þar sem þess var óskað að upplýst yrði hvort erindin hefðu borist og ef svo væri hvort þeim hefði verið svarað. Hefði þeim ekki verið svarað, var þess óskað að upplýst yrði hvers vegna. Þá var óskað upplýsinga um hvað liði meðferð og afgreiðslu erindisins frá janúar 2022.
Umboðsmaður þurfti einnig að bíða eftir svörum frá ráðuneytinu og þurfti að ítreka erindi sitt oftar en einu sinni en loks barst svar 3. desember síðastliðinn og þar kom fram að erindi mannsins hefði verið svarað þann 1. sama mánaðar auk þess sem velvirðingar var beðist á því að verulega hefði dregist að svara erindi umboðsmanns.
Í ljósi þessa taldi umboðsmaður ekki ástæðu til að aðhafast frekar í málinu og lauk því meðferð sinni á kvörtun mannsins.