fbpx
Sunnudagur 14.desember 2025
Fréttir

„Berklar eyddu vonum fólks, eyðilögðu tilhugalíf og ungar fjölskyldur syrgðu“

Ragna Gestsdóttir
Sunnudaginn 14. desember 2025 22:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Bókin Berklar á Íslandi eftir Erlu Dóris Halldórsdóttur er nýlega komin út hjá Bókaútgáfu Hólar.

Í bókinni er fjallað um einn lífshættulegasta smitsjúkdóm sem gengið hefur á Íslandi og nær sagan fram til ársins 1950. Þá fór bæði að draga úr smitum og dauðsföllum af völdum veikinnar. Berklaveiki var mikið mein í íslensku samfélagi í byrjun tuttugustu aldar og var dánartala berklasjúklinga á Íslandi ein sú hæsta í Evrópu. Í bókinni er að finna fjölmargar persónusögur, sumar enduðu illa, en aðrar vel.

„Það er erfitt að segja til um það því þetta orð eða sjúkdómsheiti „berklaveiki“ varð ekki til í íslensku tungumáli fyrr en árið 1895,“ segir Erla aðspurð um hvaðan og hvernig berklaveikin barst til Íslands.

„Það var Guðmundur Magnússon læknir í Reykjavík sem bjó til þetta sjúkdómsheiti, berklaveiki og þá töldu læknar hér á landi að berklaveiki væri nýr sjúkdómur í landinu. Það reyndist ekki rétt hjá þeim. Áður en þetta sjúkdómsheiti kom til sögunnar árið 1895 voru til mörg heiti yfir sjúkdóm sem gæti hafa verið berklaveiki. Þau orð sem notuð voru um þennan sjúkdóm voru brjóstveiki, brjóstsýki, lungnaveiki, tæring, tærandi veiki, blóðspýtingur og svo erlendu orðin phthisis, svindsot og tuberculose eða tuberkulose með k-i. Þessi sjúkdómsheiti ollu oft miklum ruglingi hjá læknum að greina hina eiginlegu berklaveiki. En með þessu eina orði, berklaveiki, einu sjúkdómsheiti, fengu læknar á Íslandi loks eitt lipurt og gott íslenskt heiti yfir sjúkdóm sem áður hafði gengið undir mörgum heitum. Undir þetta sjúkdómsheiti berklaveiki var sett langvarandi hósti, slímuppgangur, andþyngsli, nætursviti, fölleitur litarháttur því sjúklingar áttu það til að hósta upp blóði. Matarlyst minnkaði hjá þeim, þeir horuðust mikið og eiginlega vesluðust upp.

Svo kom annað sjúkdómsheiti yfir berklaveiki sem var hvíti dauðinn, menn urðu hvítir og dóu. Það var árið 1906 sem þetta sjúkdómsheiti, hvíti dauðinn kemur fyrst fyrir í heimildum og er frá Guðmundi Björnssyni landlækni komið. Það eru alveg dæmi um að sjúklingar hafi verið sagðir með hvíta dauðann og dáið úr hvíta dauðanum en þetta heiti var ekki mikið notað hér á landi.“

Hvernig lýsir berklaveiki sér?

„Langvarandi hósti, slappleiki, nætursviti, hitatoppar yfir daginn, minnkuð matarlyst og mikið þyngdartap.“

Skelfileg tegund berklaveiki, berklar í hryggarliðum gat valdið því að hryggurinn bognaði eins og þessi mynd sýnir af dreng frá 1908.

Hvar og hvert var fyrsta dauðsfallið á Íslandi sem rakið er til berklaveikinnar?

„Fyrsta dauðsfall á Íslandi sem má rekja til berklaveiki það er þar sem þetta sjúdómsheiti, berklaveiki er skráð sem dánarmein er frá árinu 1896. Það var þegar þegar sex ára stúlka, Kristjana Þorbjörg Zöega lést þann 29. febrúar árið 1896 (hlaupár) og var berklaveiki skráð fyrir aftan nafn hennar í prestsþjónustubók fyrir Reykjavík. Þetta er fyrsta skráning um berklaveiki sem dánarmein. Dánarvottorð koma síðan til sögunnar en ekki fyrr en árið 1910. Fyrir þann tíma þurftu læknar ekki að skrá dánarmein fólks sem lést hér á landi. Prestar áttu það til að skrá dánarmein í prestsþjónustubækur sínar áður en dánarvottorð koma til sögunnar eins og í tilfelli Kristjönu Þorbjargar.“

Þú nefnir í bókinni og styður það með tölfræði að konur veiktust frekar af berklum en karlar. Hvernig stendur á því?

„Konur á aldursbilinu 20–29 ára voru langstærsti hópur kvenna sem fengu berklaveiki og þá einkum lungnaberkla. Þær voru einnig í meirihluta sem dóu af völdum berklaveiki. Fyrstur til að vekja athygli á berklaveiki í konum var Sigurður Magnússon yfirlæknir á Heilsuhælinu á Vífilsstöðum árið 1924. Hann komst að þeirri niðurstöðu að karlar dveldu meira úti í fersku lofti en konur sem sáu um heimilisstörf innandyra. Karlarnir dvöldu í heilsusamlegra umhverfi við það að vinna úti. Konur unnu oft víða í dimmum og loftlausum eldhúsum og búrum. Sigurður brýndi fyrir fólki að alls staðar þar sem konur störfuðu þyrfti að vera gott loft og ljós. Hann taldi að léleg húsakynni kæmu harðast niður á konum en körlum því að þær dvöldu lengur inni í húsum en karlar. Það, sem kom honum mest á óvart, að flestar konur sem dóu af völdum lungnaberkla, bjuggu á Austurlandi en þar voru gömlu torfbæirnir, dimmir og loftlausir í miklum meirihluta. Fólk sem svæfi í lélegum húsum taldi hann að útiloft á daginn eyddi að mestu áhrifum loftleysis á nóttinni. Hann hvatti konur til að verja hverri frístund til útiveru og hvatti konur til skíða- og skautaferða.

Þegar rýnt er í dánarvottorð frá 1911–1950 sem varðveitt eru í Þjóðskjalasafni Íslands, samtals 3,621 talsins kemur í ljós að þau eru 62% af heildarfjölda þeirra sem létust af völdum berklaveiki. Það sem vekur athygli er hversu hátt hlutfall kvenna á aldrinum 15–30 ára lést af völdum berkla eða önnur hver kona sem dó á þessum aldri lést af völdum berkla. Flestir karlar á sama aldri, 15–30 ára, dóu einnig af völdum berkla, eða um 20%. Frekari rannsókna er þörf á muninum á berkladauða milli kvenna og karla á þessum aldri á árum 1911–1950.“

Höfundur bókarinnar Berklar á Íslandi, Erla Dóris Halldórsdóttir, er doktor í sagnfræði en einnig hjúkrunarfræðingur með sérmenntun í gjörgæsluhjúkrun. Hún hefur ritað mikið um heilbrigðismál og haldið víða um þau fyrirlestra. Bókin er sjötta bók Erlu Dórisar.

Vífilsstaðir, fyrsta berklahælið á Íslandi, á sér merka sögu. Hver var arktitekt að því merka húsi og tengdist það ekki dauðsfalli hans?

„Arkitektinn hét Rögnvaldur Ágúst Ólafsson fæddur 1874. Hann fór til Kaupmannahafnar árið 1901 til að læra að teikna hús. Námið tók nokkur ár og á meðan hann var í náminu starfaði hann hjá húsameistara Kaupmannahafnar, Ludvig Peter Fenger. Eitt af verkefnum Fenger var að teikna nýtt berklahæli í Danmörku, Boserup Sanatorium sem er fyrirmynd Heilsuhælisins á Vífilsstöðum. Því má segja að Heilsuhælið á Vífilsstöðum og Boserup Sanatorium séu tvífarar. Árið 1904 smitaðist Rögnvaldur af berklum og átti við veikindi að stríða þar til hann lést á Heilsuhælinu á Vífilsstöðum 14. febrúar árið 1917.

Ástæðan fyrir því að heilsuhælið var reist á Vífilsstöðum var vegna þess að þegar farið var í að undirbúa að reisa hæli fyrir berklaveiki árið 1906 töldu menn og þá sérstaklega læknar að á Vífilsstöðum væri mildari veðrátta en annars staðar á landinu, loftið þar hreint og þokur þar sjaldgæfar. Einnig að Vífilsstaðir voru mjög nálægt Reykjavík og þangað kæmist þorri manna með strandferðaskipum.“

Vífilsstaðir. Mynd: Wikipedia.

Hvernig var meðferðinni á Vífilsstöðum háttað?

„Fyrst og fremst var það útiloftlækning sem rekja má aftur til nítjándu aldar. Hún hófst á Englandi árið 1836 sem meðferð við brjóstveiki og átti útiloftslækning að verða aðallækning við berklaveiki um heim allan á nítjándu og tuttugustu öld. Reist voru sérstök heilsuhæli fyrir berklaveika þar sem þeir voru látnir dvelja úti og anda að sér fersku lofti. Við Heilsuhælið á Vífilsstöðum var sérstakur leguskáli við enda hælisins og þar voru settir legubekkir.

Tilgangur með útiloftslækningunni á Heilsuhælinu á Vífilsstöðum var að koma sjúklingum í andlegt og líkamlegt jafnvægi. Hvíldin við að að liggja í leguskálanum eða liggja í rúminu við opna glugga á sjúkrastofu hælisins var að draga úr öndunarhreyfingum og þar með þenslu á lungum. Þá vissu læknar að berklarnir mynduðu holur í lungum og við hvíldina átti hinn sýkta hola að eiga betri möguleika á að gróa og með því að sjúklingurinn andaði að sér hreinu útilofti. Þeir lágu á legubekkjum í leguskálanum á Heilsuhælinu á Vífilsstöðum og einnig í Kristnesi, fengu að klæðast fötum og lágu síðan í sérstökum hvílupokum nokkrar klukkustundir á dag. Þeir voru stundum pakkaðir inn í skinn og seglábreiða lögð yfir þá. Þeir máttu ekki tala í leguskálanum en máttu lesa en ekki bækur sem komu þeim í uppnám. Legan úti í leguskálanum átti að fara fram í algjörri þögn. Þeir sjúklingar sem gátu ekki legið úti í leguskála skyldu vegna veikinda og sótthita liggja í rúmum sínum á sjúkrastofunum við opin glugga. Engin dæmi eru um að sjúklingar hafi króknað úr kulda úti í leguskálanum.“

Fleiri meðferðir voru í boði

„Árið 1912 var farið að beita loftbrjóstaðgerðum eða blásningu hjá lungaberklasjúklingum á Heilsuhælinu á Vífilsstöðum. Notað var sérstakt loftbrjósttæki sem þrýsti með aðstoð vatnsþrýstings andrúmslofti úr glerhylki inn í brjósthol berklasjúklings. Nál var stungið í gegnum brjóstvegg berklasjúklings og lofti blásið inn. Við þetta þrýstist lungað saman og berklaholur sem voru hættulegar í hinu sýkta lunga, féllu saman. Við það gat skemmdin í lungum gróið og sjúklingurinn hætti að hósta og slímuppgangur hætti. Þá var hægt að útskrifa sjúklinginn en oft þurfti að framkvæma þessa blásningu aftur og aftur hjá sama sjúklingi.

Robert Koch þýski bakteríufræðingurinn sem fann berklabakteríuna í smásjá árið 1882 uppgötvaði einnig að sólarljós dræpi berklabakteríuna. Eftir það fann Niels R. Finsen upp ljóslækningar sem notað var við lupus vulgaris eða hörundsberklum. Á Heilsuhælinu á Vífilsstöðum var farið að nota ljóslækningar árið 1916 og í allt öðrum tilgangi en við hörundsberklum því ljóslækningar voru taldar styrkja og stæla hörundið og auka uppgufun óhollra efna sem berklabakterían var talin valda í líkama berklasjúklinga.

Lyfið Sanocrysin var farið að nota á Heilsuhælinu á Vífilsstöðum árið 1925. Lyfið var dönsk uppfinning og átti að hafa þau áhrif að skemmdir vefir vegna berklaveiki greru og því var lyfið talið geta stöðvað berklaveikina og gert sjúklinginn albata. En svo varð raunin ekki.

Höggning eða thoracoplastic var farið að framkvæma á Sjúkrahúsinu á Akureyri um 1946 en dæmi eru um að sjúklingar á Heilsuhælinu á Vífilsstöðum voru fluttir til Akureyrar í höggningu. Í aðgerðinni sem framkvæmd var í deyfingu voru numin á brott eitt eða fleiri rifbein til að minnka rými lungnanna og við það féll efsti hluti brjóstholsins saman ásamt hinu sýkta lunga og berklasár í lungum einnig. Eftir aðgerðina urðu sjúklingarnir með innfalinn brjóstkassa.

Á Heilsuhælinu á Vífilsstöðum var fyrst farið að nota sýklalyfið streptomycin árið 1947. Það er fyrsta sýklalyfið sem fundið var upp til að lækna berklaveiki.
Bóluefni fyrir berklum, BCG-bóluefnið var fundið upp og notað í fyrsta skiptið þegar nýfætt barn var bólusett gegn berklaveiki á sjúkrahúsinu í París árið 1921. Er það fyrsta bólusetning í heiminum gegn berklaveiki. Móðir barnsins hafði dáið af berklum strax eftir fæðingu barnsins og mikil hætta á að barnið myndi smitast af berklum. Barnið fékk ekki berkla og lifði. Læknum á Íslandi bauðst tækifæri að fá þetta nýja bóluefni hingað til lands árið 1930 en þeir treystu sér ekki til að hefja bólusetningar gegn berklaveiki á þeim tíma. Það var ekki fyrr en fimmtán árum síðar, árið 1945 að farið var að bólusetja gegn berklaveiki á Íslandi. Sama bóluefni gegn berklaveiki er notað enn þann dag í dag.“

Hvenær fór að daga úr smitum og dauðsföllum af völdum berklaveikinnar?

„Árið 1932 dóu 220 manns á Íslandi af völdum berklaveiki. Þá kom í ljós að þær ráðstafanir sem voru í gangi til að hefta útbreiðslu berkla virkuðu ekki sem skyldi. Það var til þess að árið 1935 ákváðu yfirvöld að ráða sérstakan berklayfirlækni yfir Íslandi. Hlutverk hans var meðal annars að framkvæma nýjar berklavarnir fyrir landið. Sá sem ráðinn var í þetta embætti var Sigurður Sigurðsson læknir. Fram til þessa tíma höfðu berklavarnir svo að segja eingöngu miðast við að koma smitandi berklasjúklingum á berklahæli eða sjúkrahús. Það voru mörg dæmi að berklasjúklingar sem fengu allgóðan bata eftir hælisvist, veiktist aftur af berklum vegna lélegs aðbúnaðar eftir að heim kom og smitaði aðra í kringum sig.

Sigurður berklayfirlæknir hóf strax árið 1935 að koma upp berklavarnarstöðvum um allt land og var tilgangur að leita uppi berklaveika, sem voru heilbrigðir en við röntgenskoðun eða gegnumlýsingu kom í ljós að þeir voru með virkt berklasmit án þess að þeir vissu um það. Var þetta fólk sett í einangrun heima hjá sér eða voru lagðir inn á Heilsuhælið á Vífilsstöðum eða Kristneshælið. Einnig voru sett ströng berklavarnarlög árið 1939 sem heimiluðu að beita valdi, ef svo bar undir, til að fá fólk rannsakað og lagt inn á sjúkrahús til einangrunar og lækninga ef upp kom berklaveiki. Þannig hafði það ekki verið áður. Þá komu einnig á svipuðum tíma virk sýklalyf til sögunnar og svo bólusetning gegn berklaveiki. Allt þetta leiddi til þess að draga fór bæði úr smitum svo og dauðsföllum af völdum berkla.“

Eymir eitthvað eftir af berklum enn þann dag í dag á Íslandi?

„Núna í maí síðastliðnum kom upp berklasmit meðal heimilislausra í Reykjavík og þá greindust tveir með virkt berklasmit og 18 einstaklingar með svokallaða dulda berkla það er þeir höfðu smitast af berklabakteríunni en voru ekki orðnir veikir af berklum. Í sama mánuði kom upp berklasmit á Fáskrúðsfirði. Berklar eru að greinast á Íslandi í nútímanum en nú eru til sýklalyf sem vinna á berklabakteríunni og meðferðin tekur nokkra mánuði.

Þú nefnir að berklarnir hafi verið einn lífshættulegasti sjúkdómurinn sem gengið hafi hér á landi. Hvað liggur á bak við þessa fullyrðingu?

„Berklaveiki var ólæknandi smitsjúkdómur áður en sýklalyf komu til sögunnar á fimmta áratug 20. aldar. Berklaveiki gekk alltaf, allan ársins hring. Aðrir smitsjúkdómar eins og mislingar gengu í faröldrum og hurfu svo í mörg ár en berklar höguðu sér ekki þannig heldur voru sífellt í gangi. En ýmsir smitsjúkdómar eins og mislingar gat gert fólk móttækilegri að smitast af berklum. Mjög líklega er það vegna þess að mótefnakerfi þeirra er veiklað af völdum annarra smitsjúkdóma.

Það var lífshættulegt að smitast af berklum fyrir tíma sýklalyfja og er það enn ef berklaveiki er ekki uppgötvuð þannig að hægt er að gefa sjúklingum sýklalyf. Það eru til nokkrar tegundir berklaveiki og hættulegust er svokallað berklafár þegar berklabakterían tekur upp á því að ferðast frá lungum um allan líkamann og þá getur hún deytt sjúklinginn á nokkrum dögum. Einnig er heilaberklabólga mjög lífshættuleg. Voru það einkum ung börn sem tóku þessa tegund berklaveiki og engin lífsvon þegar barn fékk heilaberklabólgu. Nokkur hundruð barna hér á landi fékk heilaberklabólgu og dóu þau á nokkrum dögum frá því fyrstu einkenni gerðu vart við sig hjá þeim.“

Að lokum eru hér tveir kaflar úr bókinni:

Tómarúm í sálinni

Berklar eyddu vonum fólks, eyðilögðu tilhugalíf og ungar fjölskyldur syrgðu. Þannig skemmdarverk gat berklaveikin unnið á einstaklingum sem og heilum fjölskyldum og eftir stóðu syrgjendur og jafnvel munaðarlaus ung börn. Enginn komst hjá því að bera ör eftir berklaveiki, þó að hann lifði, ekki aðeins á líkama heldur einnig á sál. Í ævisögu Jóhannesar Nordal, Lifað með öldinni, frá árinu 2022, kemur einmitt fram þessi nístandi sorgartilfinning sem fylgdi því að missa ættingja vegna berklaveiki. Jóhannes varð að lifa mikinn harm, aðeins þriggja ára gamall, þegar hann missti Beru, systur sína. Hún var aðeins fjögurra ára þegar hún veiktist hastarlega í október 1927, fékk tegund berklaveiki er kallast berklafár, sem dreifðist um allan líkamann, og hún lést eftir stutta legu þann 10. október sama ár. Svo mikill var söknuðurinn eftir fráfall systur hans og „ósegjanlegt tómarúm í sálarlífi hans“, sem hann segir að hafi ekki farið að hverfa fyrr en hann eignaðist sjálfur eigin fjölskyldu, mörgum árum eftir dauða Beru litlu.

„Í fjarlægð“

Karl Ottó Runólfsson (f. 1900) tónskáld missti eiginkonu sína, Margréti Kristjönu Sigurðardóttur (f. 1910) 23 ára, á Kristneshæli í Eyjafirði árið 1934. Þau voru nýgift og lífið blasti við þeim hjónum. Hún starfaði sem hárgreiðslukona á Akureyri og fékk berkla. Karl var eitt sinn á leið í heimsókn á Kristneshælið þar sem hún lá banaleguna í mars 1934. Hann hafði margsinnis komið á hælið í heimsókn til hennar og hafði stundum fiðluna sína með og spilaði fyrir sjúklingana. Í mars 1934 var von á Karli í heimsókn til Margrétar sinnar en vont veður hamlaði því að hann kæmist til hennar. Á hælinu var sjúklingur, Valdimar Hólm Hallstað ljóðskáld. Hann hafði dvalið á hælinu frá 1932. Margrét, eiginkona Karls, bað Valdimar Hólm að yrkja fyrir sig ljóð, hinstu kveðju til handa Karli Ottó, eiginmanni sínum. Hún vissi að hún væri að deyja og að Karl kæmist ekki í tæka tíð til sín vegna veðursins. Þegar Karl komst loks til Margrétar var hún dáin. Hún lést 27. mars 1934 og Karl fann bréfsnepil með ljóði á náttborðinu hennar. Hann vissi ekki hver hefði samið ljóðið „Í fjarlægð“ en Karl samdi lag við textann. Lík Margrétar var flutt til Reykjavíkur þar sem hún var jarðsett þann 13. apríl. Texti lagsins var talinn vera eftir „Cæsar“ en með tímanum komust menn að því að það hefði verið Valdimar Hólm Hallstað ljóðskáld sem var skáldið bak við textann „Í fjarlægð“. „Í fjarlægð“ var flutt við jarðarför Margrétar.

Þig, sem í fjarlægð fjöllin bak við dvelur
og fagrar vonir tengdir líf mitt við,
minn hugur þráir, hjartað ákaft saknar
er horfnum stundum ljúfum dvel ég hjá.

Heyrirðu ei, hvern hjartað kallar á,
heyrirðu ei storminn kveðju mína ber?
Þú fagra minning eftir skildir eina
sem aldrei gleymist meðan lífs ég er.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Segir ábendingahnapp hjá Borgarholtsskóla notaðan til að koma á framfæri nafnlausu níði um kennara

Segir ábendingahnapp hjá Borgarholtsskóla notaðan til að koma á framfæri nafnlausu níði um kennara
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Tölvuþrjótum tókst að afrita gögn – Hafa ekki birt þau eða hótað birtingu

Tölvuþrjótum tókst að afrita gögn – Hafa ekki birt þau eða hótað birtingu
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Fékk hroll þegar hún las bréf MAST um mál hundsins Úffa – „Stofnanir verða að sýna mannúð“

Fékk hroll þegar hún las bréf MAST um mál hundsins Úffa – „Stofnanir verða að sýna mannúð“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Margeir og Kitty til liðs við KAPP

Margeir og Kitty til liðs við KAPP
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Mohamad Kourani kominn á almennan gang á Hólmsheiði innan um tvo Alzheimer-sjúklinga

Mohamad Kourani kominn á almennan gang á Hólmsheiði innan um tvo Alzheimer-sjúklinga
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Bjóða fasteignaeigendum að fá heilt ár af leigutekjum greitt út strax

Bjóða fasteignaeigendum að fá heilt ár af leigutekjum greitt út strax