fbpx
Fimmtudagur 11.desember 2025
Fréttir

Andstæðingar sjókvíaeldis kærðu töf á vinnslu umsóknar um rekstrarleyfi

Jakob Snævar Ólafsson
Fimmtudaginn 11. desember 2025 08:00

Seyðisfjörður. Mynd/Wikipedia

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hefur vísað frá kæru félagasamtakanna VÁ en hafnað kröfu eigenda fjögurra sjávarjarða í Seyðisfirði sem lögðu eins og samtökin fram kæru vegna tafa sem orðið hafa á afgreiðslu Matvælastofnunar á umsókn fyrirtækisins Kaldvíkur hf. um rekstrarleyfi vegna sjókvíaeldis í firðinum en þessir aðilar eru á móti eldinu. Fyrirtækið var hins vegar ekki á þeim buxunum að kæra töfina en stofnunin útskýrir hana meðal annars með því að á annað hundrað athugasemdir hafi verið gerðar við auglýsingu fyrir rekstrarleyfið. Athugasemdirnar séu margháttaðar og margar vísi í atriði sem kanna þurfi betur.

Tillögur að rekstrarleyfum félagsins voru auglýstar á vefsíðu Matvælastofnunar 12. desember 2024. Kom þar fram að frestur til að skila inn athugasemdum væri til 20. janúar 2025. Samhliða var á vefsíðu Umhverfisstofnunar auglýst tillaga að starfsleyfi vegna áforma um sömu starfsemi. Hvorki hafa verið gefin út rekstrarleyfi samkvæmt lögum um fiskeldi né starfsleyfi samkvæmt lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir.

Það hefur því tekið rúmt ár fyrir Matvælastofnun og Umhverfisstofnun að vinna úr athugasemdum við auglýsingarnar.

Samtökin VÁ sem eru á móti sjókvíaeldinu kvörtuðu í júlí síðastliðnum til umboðsmanns Alþingis vegna tafanna á málsmeðferð umsóknarinnar um rekstrarleyfi en umboðsmaður vísaði málinu frá sér á þeim grundvelli að samtökin ættu ekki aðild að málinu hjá Matvælastofnun. Eigendur jarðanna leituðu einnig til umboðsmanns sem benti þeim á að þeir yrðu fyrst að kæra ákvörðun um rekstrarleyfi til úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála áður en þeir gætu leitað til sín.

Of lengi

Í kærum samtakanna og eigenda jarðanna var bent á að Matvælastofnun hefði samkvæmt lögum um fiskeldi fjórar vikur, eftir að frestur til að gera athugasemdir við tillögu að rekstrarleyfi rennur út, til að taka ákvörðun um útgáfu rekstrarleyfis. Því væri allt of langur tími liðinn og því væri réttast að synja umsókninni.

Matvælastofnun vildi að kærunni yrði vísað frá þar sem að kærendurnir ættu ekki lögmæta hagsmuni af úrlausn málsins. Kaldvík tók undir það og sagði að samkvæmt stjórnsýslulögum ætti það eitt rétt á að kæra töfina þar sem það væri aðili að umræddu stjórnsýslumáli.

Samtökin VÁ vildu hins vegar meina að þau ættu lögvarinna hagsmuna að gæta í málinu, enda með á sjöunda hundrað meðlimi og hafi verið stofnuð til þess að vernda Seyðisfjörð, með því að beita sér m.a. gegn ólögmætum leyfisveitingum. Eigendur sjávarjarðanna ættu einnig augljósra lögvarinna hagsmuna að gæta, sökum nálægðar eigna þeirra við fyrirhugað eldissvæði en auk þess myndi gæta sjónrænna áhrifa og röskun verða á umhverfi og lífríki. Eigendur jarðanna hafi aldrei fengið tilkynningu um að afgreiðsla myndi fara fram yfir undantekningarlausan fjögurra vikna frest sem mælt sé fyrir um í lögum um fiskeldi.

Kom fram í athugasemdum kærendanna að töfin á endanlegri afgreiðslu umsóknar um rekstrarleyfi væri vegna fjölda umsagna og vafaatriða sem m.a. hafi komið fram varðandi strandsvæðisskipulag Austfjarða, afmörkun netlaga og mat á ofanflóðahættu. Af því mætti ráða að tillögur að rekstrarleyfum hafi verið auglýstar án þess að skorið hafi verið úr um mikilvæg vafaatriði og stæðist það ekki rannsóknarreglu, auk þess að með því væri ónýttur réttur umsagnaraðila til andmæla á fyrsta stjórnsýslustigi.

Í viðbótarathugasemdum Matvælastofnunar kom fram að í febrúar 2025, hafi Kaldvík verið tilkynnt um það að stofnunin gæti ekki tekið ákvörðun um útgáfu leyfis innan lögbundins afgreiðslufrests. Mikill fjöldi athugasemda, alls 180 talsins, hafi borist vegna tillögu að rekstrarleyfunum. Álitaefni við undirbúning þeirra varði m.a. strandsvæðisskipulag, ofanflóðahættu og afmörkun netlaga. Þá hafi vantað og vanti enn uppfærða gæðahandbók og staðfestingu fyrirtækisins á stöðu eigin fjár. Tjáði stofnunin síðan nefndinni, vegna kærunnar, að vinnsla málsins væri á lokastigi en beðið væri eftir afdrifum umsóknar um starfsleyfi fyrir eldið hjá Umhverfis- og orkustofnun.

Frávísun

Í niðurstöðu úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála segir að umhverfisverndarsamtök eins og VÁ geti átt lögvarinna hagsmuna að gæta þegar kemur að kærum vegna ákvarðana um leyfisveitingar vegna framkvæmda en í þessu máli sé ekki deilt um slíka leyfisveitingu og því verði að vísa kæru þeirra frá.

Hvað varðar eigendur sjávarjarðanna í Seyðisfirði segir nefndin að þeir eigi sannarlega hagsmuna að gæta í málinu meðal annars vegna nálægðar jarða þeirra við fyrirhugað eldissvæði.

Nefndin segir að af málsgögnum megi ráða að unnið sé að undirbúningi leyfisveitingar vegna rekstrarleyfis fiskeldisins í Seyðisfirði og þar komi til skoðunar atriði sem gerðar hafi verið athugasemdir um við auglýsingu á tillögum að starfseminni, þ.e. um gildi strandsvæðis­skipulags, ofanflóðahættu og afmörkun netlaga. Matvælastofnun hafi auk þess bent á að fjöldi athugasemda við auglýsingu tillögu að rekstrarleyfi hafi verið fordæmalaus, sem kallað hafi á mikla vinnu. Þar að auki hafi Kaldvík ekki gert athugasemd við langan málsmeðferðartíma og megi ráða af gögnum að félagið vinni að breyttri afmörkun eldissvæða og líti svo á að rekstrar- og starfsleyfisumsóknir séu í virkri vinnslu hjá stjórnvöldum

Nefndin segir töfina á ákvörðun um veitingu rekstrarleyfis því vera málefnalegar og unnið sé að því að taka ákvörðun í málinu. Það sé vart hægt að fullyrða að um óhæfilegan drátt á málsmeðferð sé að ræða í skilningi stjórnsýslulaga þótt lögbundinn afgreiðslufrestur, samkvæmt lögum um fiskeldi, sé löngu liðinn. Kröfu landeigendanna um að kveðið yrði úr um að óhæfilegur dráttur hafi orðið á málsmeðferð Matvælastofnunar var því hafnað.

 

 

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 19 klukkutímum

„Þetta er alveg skelfilegur hræðsluáróður sem stenst enga skoðun“

„Þetta er alveg skelfilegur hræðsluáróður sem stenst enga skoðun“
Fréttir
Fyrir 19 klukkutímum

Tölvuárás á Grundarheimilin

Tölvuárás á Grundarheimilin
Fréttir
Fyrir 23 klukkutímum

Myndbandið sem hefur slegið í gegn á TikTok – „Endurspeglar þjóðarsálina“

Myndbandið sem hefur slegið í gegn á TikTok – „Endurspeglar þjóðarsálina“
Fréttir
Fyrir 23 klukkutímum

Gagnrýnir framgöngu Heimis Más í Silfrinu – „Það kemur aldrei vel út“

Gagnrýnir framgöngu Heimis Más í Silfrinu – „Það kemur aldrei vel út“
Fréttir
Í gær

Ungur maður á Akranesi handtekinn í nótt, grunaður um nauðgun – Sótti stúlku til Hafnarfjarðar

Ungur maður á Akranesi handtekinn í nótt, grunaður um nauðgun – Sótti stúlku til Hafnarfjarðar
Fréttir
Í gær

Ofurflensa herjar á Evrópu -Hvetja til grímunotkunar og Covid-hegðunar

Ofurflensa herjar á Evrópu -Hvetja til grímunotkunar og Covid-hegðunar
Fréttir
Í gær

Marko fékk þungan dóm

Marko fékk þungan dóm
Fréttir
Í gær

Guðný segir að til að forðast áreiti gefi sumar konur upp karlmannsnafn þegar þær panta mat á netinu

Guðný segir að til að forðast áreiti gefi sumar konur upp karlmannsnafn þegar þær panta mat á netinu