

Morgunblaðið segir frá því í dag að hinn látni hafi verið af portúgölskum uppruna, en í tilkynningu sem lögregla sendi frá sér í gær kom fram að maðurinn hefði verið um fertugt.
Þá segir í frétt Morgunblaðsins að tæknimenn frá lögreglu hafi verið enn á vettvangi í gær, en lítið er gefið upp um rannsókn málsins.
Vignir Örn Oddgeirsson hjá tæknideild lögreglu segir við Morgunblaðið að aðstæður geti verið misflóknar, einnig þótt ekkert saknæmt hafi átt sér stað. Hlutverk deildarinnar sé að meta hvort eitthvað brotlegt hafi átt sér stað í aðdraganda andlátsins.
Í tilkynningu lögreglu í gær kom fram að tilkynning hafi borist um 11 leytið á sunnudagsmorgun um meðvitundarlausan karlmann í heimahúsi í Kópavogi.
„Hún hélt rakleiðis á vettvang, en maðurinn, sem var um fertugt, reyndist látinn er að var komið. Ekki er ljóst með hvaða hætti andlátið bar að, en rannsókn málsins er í fullum gangi. Skýrslutökur stóðu yfir í gær og er framhaldið í dag, en enginn er í haldi vegna málsins. Ekki er unnt að veita frekari upplýsingar að svo stöddu.“