
Héraðssaksóknari hefur ákært 43 ára gamlan mann frá Króatíu, Marko Blazinic, fyrir stórfellt fíkniefnabrot. Marko er sakaður um að hafa staðið að innflutningi á hátt í 7 kg af kókaíni, eða 6.756,22 g, með styrkleika upp á 68-70%. Telst þetta vera mikið magn og getur nokkurra ára fangelsi legið við svo stóru fíkniefnabroti.
Meint brot var framið þann 4. september síðastiðinn. Fíkniefnin flutti Marko frá Svíþjóð til Danmerkur, falin í 11 pakkningum í varahjólbarða og tveimur pakkningum í poka á gólfi undir ökumannssæti bíls af gerðinni Volvo S8. Frá Danmörku flutti hann efnin með farþegaferjunni Norrænu til Seyðisfjarðar, en þar fundust þau við leit í bílnum.
Krafist er upptöku á fíknefnunum, bílnum og Samsung-síma í eigu hins ákærða.
Málið var þingfest við Héraðsdóm Reykjavíkur dag, 1. desember.