

Hin afbakaða ræða var sýnd í fréttaskýringaþættinum Panorama sem sýndur var viku fyrir forsetakosningarnar í sumar og í henni virtist Trump hvetja til árásarinnar á þinghúsið.
Telegraph greindi frá málinu í gær og má sjá stutt myndband hér að neðan sem varpar frekara ljósi á málið.
Í klippunni sem birt var í fréttaskýringaþættinum virðist Trump segja við mannfjöldann: „Við ætlum að ganga niður að þinghúsinu og ég mun vera með ykkur – og við berjumst. Við berjumst af hörku.“
Orðin voru hins vegar tekin úr tveimur mismunandi köflum ræðunnar með nærri klukkustundar millibili. Þá var sleppt þeim hluta þar sem Trump sagði að hann vildi að stuðningsmenn hans létu rödd sína heyrast „friðsamlega“ og með „föðurlandsást“.
Telegraph komst yfir minnisblað frá Michael Prescott, sem starfaði í þrjú ár sem sjálfstæður ráðgjafi hjá siðanefnd BBC (Editorial Guidelines and Standards Committee, EGSC). Hann lét af störfum í júní og sendi hann inn harðort minnisblað til stjórnar BBC í síðasta mánuði eftir að athugasemdir hans voru hunsaðar.
Í minnisblaðinu segir Prescott að BBC hefði í raun látið Trump segja hluti sem hann sagði aldrei í raun með því að klippa saman efni úr mismunandi hlutum ræðunnar.
Panorama-þátturinn sem um ræðir, Trump: A Second Chance? var sýndur í október 2024 skömmu áður en Bandaríkjamenn gengu að kjörborðinu.
Fleiri atriði voru nefnd í umræddu minnisblaði, til dæmis varðandi myndefni af mótmælendum sem virtust innblásnir eftir ræðu Trumps en umrætt myndefni var tekið upp áður en ræðan var flutt.
Í frétt Guardian kemur fram að Prescott hafi ekki enn tjáð sig opinberlega um málið. Talsmaður BBC segir að allar athugasemdir séu teknar alvarlega en stofnunin muni ekki tjá sig um umrætt minnisblað þar sem trúnaður á að ríkja um efni þess.
🔴 EXCLUSIVE: The BBC is accused of editing a Trump speech to make him seem to back the Capitol riot.
A whistleblower memo says Panorama “completely misled” viewers by cutting key lines
Watch @gordonrayner’s full breakdown ⬇️ pic.twitter.com/A6nngI44Ll
— The Telegraph (@Telegraph) November 3, 2025