fbpx
Þriðjudagur 04.nóvember 2025
Fréttir

Fullyrðir að slys á Vestfjörðum hafi verið sviðsett til að hylma yfir morð – „Með duttlungum skal land byggja“

Ritstjórn DV
Þriðjudaginn 4. nóvember 2025 19:30

Frá gamla Óshlíðarveginum. Mynd: Skjáskot/Já.is.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Snorri Konráðsson bifvélavirkjameistari ritaði í gær afar ítarlega grein í Morgunblaðið þar sem hann fullyrðir að umferðarslys sem átti sér stað á Óshlíðarvegi, veginum milli Hnífsdals og Bolungarvíkur, í september 1973 hafi í raun verið sviðsett til að hylma yfir morð á hinum nítján ára gamla Kristni Hauk Jóhannessyni. Niðurstaða lögreglurannsóknar er að um slys hafi verið að ræða og Kristinn Haukur hafi látist eftir að leigubíll hafi farið út af veginum og oltið niður hlíðina. Því hefur haldið fram á opinberum vettvangi að ummerki og gögn málsins bendi til að það geti varla staðist að um atvikið hafi orðið með þessum hætti. Sjaldan eða nokkurn tímann hefur þó verið tekið jafn sterkt til orða opinberlega og Snorri gerir nú.

Snorri hefur komið að rannsókn á málinu meðal annars í tengslum við gerð sjónvarpsþáttanna Íslensk sakamál en í einum þáttanna var fjallað um málið sem yfirleitt er kallað Óshlíðarmálið. Snorri hefur margra ára reynslu af rannsóknum á ökutækjum sem lent hafa í alvarlegum slysum og starfað að slíkum rannsóknum fyrir lögregluna og sem dómkvaddur matsmaður.

Margir angar

Grein Snorra er afar ítarleg og þar er farið yfir fjölmarga anga málsins og því er hér aðeins hægt að stikla á afar stóru.

Snorri segir meðal annars að ummerkin í hlíðinni og skemmdirnar á yfirbyggingu bílsins segi með mikilli nákvæmni til um atburðarásina þegar bíllinn hafi farið niður hlíðina en ekki síður hvernig hefði átt að fara fyrir fólkinu sem sagt er að hafi verið í bílnum án öryggisbelta.

Hafa ber þá í huga að um borð í bílnum voru að sögn auk Kristins Hauks karlkyns ökumaður og annar farþegi, kona. Segir Snorri ljóst að þegar bíllinn fór fram af veginum og miðað við ummerki á vettvangi hefðu ökumaðurinn og hinn farþeginn átt að kastast mikið til, í hvort annað og loks út úr bílnum.Hann segir að miðað við ummerki á vettvangi, skemmdir á bílnum og hvernig fara hafi átt fyrir ökumanninum og hinum farþeganum sé ljóst að þau hafi hvorugt verið um borð þegar bíllinn fór niður hlíðina. Hafi svo raunverulega verið hefðu þau stórslasast og raunar meiri líkur verið á andláti þeirra. Snorri tekur því næst afar skýrt til orða um hvað að hans mati hafi raunverulega átt sér stað:

„Niðurstaðan er óyggjandi sú að „slysið“ hafi verið sviðsett í þeim tilgangi að fela manndráp og villa um fyrir lögreglu.“

Rannsóknin

Snorri gagnrýnir því næst harðlega rannsókn lögreglu á málinu þó aðallega fyrri rannsóknina í kjölfar atviksins en ný rannsókn var gerð 2022 þegar jarðneskar leifar Kristins Hauks voru grafnar upp. Þeirri rannsókn var hætt á síðasta ári og hin opinbera niðurstaða er enn að um slys hafi verið að ræða.

Snorri segir að seinni rannsóknin á líkamsleifunum gefi til kynna að fyrri rannsóknin á líki hins látna hafi verið ófullnægjandi og að með réttu hafi réttarkrufning átt að fara fram sem ekki hafi verið raunin. Þar að auki hafi lögreglan engar ljósmyndir tekið á vettvangi, ljósmyndarar sem komu á staðinn gerðu það hins vegar, og skýrslutaka af ökumanninum og hinum farþeganum hafi farið fram tveimur og þremur mánuðum síðar.

Snorri segir blasa við að lögreglan hafi ekki rannsakað málið. Hann vitnar í orð lögreglustjórans á Vestfjörðum í áðurnefndum þætti um að það sé alvaregt mál að fara að spyrja fólk á gamalsaldri um málavexti og minnir á að Kristinn Haukur eigi fjölskyldu en hann lét meðal annars eftir sig son sem þá var eins árs:

„Með duttlungum skal land byggja og utan þeirra fellur að rannsaka morð af yfirlögðu ráði sem reynt var að fela með sviðsettu slysi í
Óshlíðinni 1973.“

Áskrifendur Morgunblaðsins geta nálgast grein Snorra í blaðinu frá 3. nóvember.

Fyrsta húsið

Páll Halldór Halldórsson er uppalinn í Hnífsdal og var 9 ára gamall þegar atvikið átti sér stað. Hann segist í viðtali við Bítið á Bylgjunni hafa fengið áhuga á málinu eftir að hafa séð sjónvarpsþáttinn og ýmsar spurningar hafi vaknað þegar hann hafi horft á þáttinn. Meðal annars að ökumaðurinn og farþeginn hafi ekki bankað upp á í fyrsta húsinu sem þau komu að í þorpinu eftir gönguna frá vettvangi.

Í þættinum kemur fram að samkvæmt skýrslu réttarmeinafræðingsins sem rannsakaði líkamsleifarnar eftir að þær voru grafnar upp 2022 geti áverkarnir sem Kristinn Haukur hlaut ekki hafa orðið eftir högg frá öðrum manni heldur af völdum umferðarslyss eða falls úr mikilli hæð.

Slagsmál

Páll bendir á móti á að ekkert blóð hafi verið í bílnum. Hann segir að maður sem kom á vettvang hafi haft samband við hann og greint honum frá því að ekkert blóð hafi verið sjáanlegt á Kristni Hauk og að enginn hemlaför verið sjáanleg. Við þennan mann hafi lögreglan aldrei talað og þetta hafi setið í manninum allar götur síðan. Hann bendir einnig á að frásögn ökumannsins hafi tekið breytingum og ósamræmi hafi verið í henni. Hann gruni ökumanninn þó ekki um morð. Páll segist hafa fengið símtöl þar sem fólk hafi tjáð honum að umrætt kvöld hafi slagsmál átt sér stað í Bolungarvík og hann hafi fengið ábendingu þar sem fullyrt sé að einstaklingur sem hafi tekið þátt í slagsmálunum hafi verið í maðurinn í bílnum.

Páll bendir á fleiri vafaatriði eins og t.d. að frásögn ökumannsins af hinum meintu bílveltum hafi verið furðulega ítarleg. Ökumaðurinn fullyrði að bíllinn hafi farið þrjár veltur niður hlíðina en það passi varla þar sem þá hefðu átt að vera mun meiri skemmdir á bílnum. Það sé ljóst að það sé eitthvað sem passi ekki, eitthvað sem vanti í frásögnina af atvikinu. Hann tekur undir að um að sviðsetningu hafi verið að ræða. Páll bendir einnig á að við seinni lögreglurannsóknina hafi ættingjar Kristins Hauks ekki fengið að koma ljósmyndum frá vettvangi í gögn málsins en þær höfðu borist þeim úr dánarbúi.

Hann segir að vitni sem hafi haft samband við hann hafi ekki haft samband við lögreglu. Miðað við frásagnir sem honum hafi borist telji hann líklegustu skýringuna að Kristinn Haukur hafi rotast eftir slagsmál en ekki vaknað og þá hafi atburðarás hafist sem endaði með því að bíllinn fór niður Óshlíð. Hvernig hún nákvæmlega var liggi ekki fyrir.

Páll segir að lokum að ættingjar Kristins Hauks vilji aðeins að sannleikurinn komi fram.

 

 

 

 

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 11 klukkutímum

Um 40 starfsmönnum Icelandair sagt upp

Um 40 starfsmönnum Icelandair sagt upp
Fréttir
Fyrir 11 klukkutímum

„Það svíður mig að ævistarf sé glæpavætt“

„Það svíður mig að ævistarf sé glæpavætt“
Fréttir
Í gær

„Þetta endar oft þannig að þegar barnið er orðið fullorðið þá er foreldrið orðið öryrki“

„Þetta endar oft þannig að þegar barnið er orðið fullorðið þá er foreldrið orðið öryrki“
Fréttir
Í gær

Sérsveitin send inn í ranga íbúð

Sérsveitin send inn í ranga íbúð