fbpx
Mánudagur 03.nóvember 2025
Fréttir

Var sá eini sem komst lífs af úr flugslysinu – Svona er staðan fimm mánuðum síðar

Ritstjórn DV
Mánudaginn 3. nóvember 2025 10:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Þann 12. júní varð eitt mannskæðasta flugslys síðari ára þegar Boeing 787-8 Dreamliner-flugvél Air India fórst. Vélin, sem var á leið til Lundúna, hrapaði skömmu eftir flugtak frá flugvellinum í Ahmedabad á Indlandi.

Eins skelfilegt og slysið var, þar sem 241 úr hópi farþega og áhafnar fórst, vakti það gríðarlega athygli þegar í ljós kom að einn farþeganna komst lífs af úr slysinu.

Viswashkumar Ramesh heitir maðurinn og gengur það kraftaverki næst að hann hafi gengið út úr flaki flugvélarinnar án lífshættulegra meiðsla. Ramesh veitti BBC viðtal sem birt var í morgun nú þegar tæpir fimm mánuðir eru liðnir frá slysinu.

„Burðarásinn í lífi mínu“

Í viðtalinu segir Ramesh að það sé vissulega „kraftaverk“ að hann hafi komst lífs af, en á sama tíma bendir hann á að hann hafi misst mikið í slysinu. Yngri bróðir hans, Ajay, sat aðeins örfáum sætum frá honum í vélinni og beið hann bana í hinu hræðilega slysi.

Sjá einnig: Kraftaverk í Indlandi:Breskur maður lifði flugslys Air India af og hlaut aðeins minniháttar skrámur

Ramesh er búsettur í Leicester á Englandi og kemur fram í viðtalinu að hann hafi glímt við áfallastreituröskun eftir slysið og hafi ekki treyst sér til að ræða við eiginkonu sína og fjögurra ára son.

„Ég trúi því ekki enn að ég hafi verið sá eini sem lifði slysið af. Ég missti bróður minn, burðarásinn í lífi mínu. Hann stóð alltaf þétt við bakið á mér,“ segir hann tárvotur. Hann lýsir því einnig að slysið hafi haft mikil áhrif á sálarlíf hans og líf fjölskyldu hans.

Í umfjöllun BBC kemur fram að þetta sé í fyrsta sinn sem Ramesh, sem er 39 ára, talar við fjölmiðla frá því hann sneri aftur til Bretlands. Tekið er fram í umfjöllun BBC að fréttamenn miðilsins hafi rætt ítarlega við ráðgjafa hans um að gæta að andlegri heilsu hans áður en viðtalið fór fram.

„Ég vil ekki tala við neinn“

Í bráðabirgðaniðurstöðum rannsóknarnefndar um slysið kemur fram að eldsneytisflæði til hreyfla vélarinnar stöðvaðist skömmu eftir flugtak. Vélin missti afl og hrapaði á íbúðabyggð í kjölfarið.

Þegar hann var spurður um minningar sínar frá slysdeginum sagðist hann ekki geta talað um það. Hann lýsti því að sorg og sársauki hefðu yfirtekið líf hans.

Sjá einnig: Sat í sæti 11A og var sá eini sem komst lífs af – Bróðir hans í sæti 11 J hvarf í eldhafið

„Eftir þetta slys hefur allt orðið mjög erfitt — bæði líkamlega og andlega. Mamma mín hefur síðustu fjóra mánuði setið við dyrnar á hverjum degi, þegjandi, án þess að tala við nokkurn.
Ég tala ekki við neinn. Ég vil ekki tala við neinn. Ég get ekki talað mikið. Ég hugsa alla nóttina. Ég þjáist andlega. Hver dagur er sársaukafullur fyrir alla fjölskylduna.“

Þó að Ramesh hafi ekki slasast lífshættulega glímir hann enn við líkamlegar afleiðingar slyssins, ekki síður en andlegar. Hann er verkjaður í fótum, öxl og baki og hefur ekki getað unnið eða ekið bíl síðan slysið varð.

Í umfjöllun BBC kemur fram að Ramesh hafi verið greindur með áfallastreituröskun á sjúkrahúsi í Indlandi en ekki enn fengið meðferð síðan hann kom heim, að sögn ráðgjafa hans.

Þeir lýsa honum sem „týndum og brotnum manni“ og löng og ströng endurhæfing sé fram undan. Ráðgjafar hans segjast hafa farið fram á fund með stjórnendum Air India þar sem þeir segja að illa hafi verið komið fram við hann af flugfélaginu eftir slysið.

Fékk 3,5 milljónir í bætur

Bent er á það að Air India hafi greitt honum bráðabirgðarbætur upp á 21.500 pund, 3,5 milljónir króna, sem hann hefur þegið, en ráðgjafar hans segja þá upphæð ekki nægja til að mæta brýnustu þörfum hans. Fjölskyldan rak fiskveiðifyrirtæki í Diu á Indlandi, sem hann stjórnaði ásamt bróður sínum, en það er nú farið í þrot.

Talsmaður fjölskyldunnar, Radd Seiger, segir að ráðgjafar hans hefðu þrisvar sinnum haft samband við Air India í þeirri von að fá fund, en ávallt verið hunsuð eða komið að lokuðum dyrum. Að koma fram opinberlega og ræða við fjölmiðla væri tilraun til að ítreka þessar beiðnir og ná þeim fram.

„Það er sorglegt að við þurfum að sjá hann ganga í gegnum þetta. Þeir sem ættu að sitja hér eru stjórnendur Air India – þeir sem bera ábyrgð á að leiðrétta þetta. Við biðjum þá um að koma og setjast niður með okkur svo við getum unnið að því saman að draga úr þessari þjáningu,“ segir Seiger.

Air India hafnar því í yfirlýsingu að hafa komið illa fram við Ramesh eða aðstandendur fórnarlamba slyssins. „Boð hefur verið sent til fulltrúa Ramesh um að skipuleggja fund og við vonumst til þess að fá jákvætt svar,“ sagði í yfirlýsingunni. Flugfélagið sagði við BBC að þetta boð hefði verið sent áður en viðtalið við Ramesh fór fram.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Báru kennsl á byssumanninn á frægri ljósmynd með gervigreind – Nokkuð óvænt kom í ljós

Báru kennsl á byssumanninn á frægri ljósmynd með gervigreind – Nokkuð óvænt kom í ljós
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Þrotabúið fer fram á nauðungarsölu á einbýlishúsi Brotaflshjóna

Þrotabúið fer fram á nauðungarsölu á einbýlishúsi Brotaflshjóna
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Lögreglumaður á vakt í Eyjum skipti sér af ágreiningi sem var ekki lögreglumál – Persónulega tengdur öðrum aðilanum

Lögreglumaður á vakt í Eyjum skipti sér af ágreiningi sem var ekki lögreglumál – Persónulega tengdur öðrum aðilanum
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Lögreglan leitar að þessu fólki

Lögreglan leitar að þessu fólki
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Illindi og hótanir vegna frestunar hrekkjavökugleði – „Þetta býður upp á svekkelsi og leið börn“

Illindi og hótanir vegna frestunar hrekkjavökugleði – „Þetta býður upp á svekkelsi og leið börn“
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Hafnarfjarðarmálið: Meintur gerandi hringdi stöðugt í móðurina í aðdraganda húsbrotsins – Sláandi lýsingar á ofbeldi gegn drengnum

Hafnarfjarðarmálið: Meintur gerandi hringdi stöðugt í móðurina í aðdraganda húsbrotsins – Sláandi lýsingar á ofbeldi gegn drengnum