
Birt hefur verið í Lögbirtingablaðinu ákæra á hendur karlmanni frá Georgíu. Er hann ákærður ásamt lettneskum karlmanni fyrir brot gegn lögum um útlendinga. Samkvæmt ákærunni gekk Georgíumaðurinn í hjónaband með lettneskri konu eingöngu í þeim tilgangi að fá dvalar- og atvinnuleyfi á Íslandi. Er lettneski karlmaðurinn ákærður fyrir að hafa milligöngu í málinu en konunni var samkvæmt ákærunni heitið því að hún fengi greitt fyrir að ganga í hjónabandið.
Georgíumaðurinn er nokkuð eldri en lettarnir. Hann er um fertugt en lettneski karlmaðurinn er á þrítugsaldri en konan er um tvítugt. Hafa ber í huga að sem borgarar EES-ríkis þurfa lettneskir ríkisborgarar ekki dvalarleyfi á Íslandi. Samkvæmt ákærunni er lettneski karlmaðurinn með íslenska kennitölu og skráður til heimilis hér á landi.
Samkvæmt ákærunni gengu Georgíumaðurinn og lettneska konan í hjónaband í Georgíu í mars 2024 eingöngu til þess að afla honum dvalarleyfis og atvinnuleyfis á Íslandi á grundvelli hjúskapar. Komu þau til Íslands tveimur dögum eftir giftinguna. Samkvæmt ákærunni lofaði hann konunni því að hún fengi greiðslu þegar hann fengi dvalarleyfi á Íslandi.
Lettneski karlmaðurinn er ákærður fyrir hlutdeild í broti Georgíumannsins með því að sannfæra konuna um að giftast manninum og að ferðast með hjónunum til Íslands eftir að giftingin hafði farið fram í Georgíu.
Er þess krafist að mennirnir tveir verði dæmdir til refsingar og greiðslu alls sakarkostnaðar. Líklega hefur Lettanum þegar verið birt ákæran þar sem í auglýsingunni í Lögbirtingablaðinu er eingöngu Georgíumaðurinn kvaddur til að mæta fyrir Héraðsdóm Reykjaness þegar málið verður tekið fyrir í næsta mánuði. Mæti hann ekki á meðan málið verður til meðferðar má búast við því að það verði metið sem ígildi játningar og að dómur verði lagður á málið að honum fjarstöddum.