fbpx
Mánudagur 24.nóvember 2025
Fréttir

Ekki gerð refsing fyrir að klæmast við unga stúlku í Strætó

Ritstjórn DV
Mánudaginn 24. nóvember 2025 16:00

Myndin er úr safni og tengist fréttinni ekki með beinum hætti.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur sakfellt karlmann fyrir brot á fíkniefnalögum og barnaverndarlögum. Viðhafði maðurinn kynferðislegt tal við 13 ára stúlku í strætisvagni en fram kemur að maðurinn hafi margoft talað við fólk með slíkum hætti. Geðlæknir segir manninn gera sér enga grein fyrir að svona athæfi sé ekki í lagi og þurfi sárlega á sérstakri meðferð að halda og aðstoða þurfi manninn við að halda óæskilegum einstaklingum frá honum.

Atvikið átti sér stað í október 2022 en samkvæmt ákæru viðhafði maðurinn kynferðislegt tal við stúlkuna, svo sem með því að segjast geta riðið henni í rassinn og þannig sýnt af sér ósiðlegt og lostugt athæfi sem var til þess fallið að særa blygðunarsemi hennar. Maðurinn var einnig ákærður fyrir að hafa 0,81 gramm af amfetamíni í vörslu sinni þegar atvikið átti sér stað.

Maðurinn játaði brot sín en hann hafði fjórum sinnum áður hlotið dóm, síðast 2022 en þá var honum ekki gerð refsing en maðurinn var þá enn á skilorði vegna dóms frá 2020.

Við meðferð málsins var geðlæknir fenginn til að meta ástand mannsins en hann er með greiningu en hver hún er hefur verið afmáð úr dómnum ásamt öllum öðrum nánari upplýsingum um heilsufar mannsins.

Geðlæknirinn taldi manninn ekki hafa verið ófæran um að stjórna gjörðum sínum í umrætt sinn en ljóst væri að refsing myndi ekki skila árangri.

Ítrekað

Geðlæknirinn sagði í sinni matsgerð að maðurinn hafi viðhaft óviðeigandi tal eða athæfi af svipuðu tagi í gegnum tíðina en þar hafi þolendur verið þjálfað starfsfólk. Maðurinn virtist gera þetta hömlulítið og án skilnings á því að tal eða athæfi sem þetta væri til þess fallið að særa blygðunarkennd fólks eða skapa hjá því ótta. Þá virtist hann ekki meðtaka að þetta væri ekki hvað síst truflandi fyrir ungan einstakling eins og þolandann í málinu. Ekki verði séð að tekið hafi verið á þessu nema að takmörkuðu leyti. Mikilvægt væri að tryggja manninum áframhaldandi búsetu með 24 klukkustunda þjónustu eins og hann hafi notið en þar bætist við frekari stuðningur við að halda frá óæskilegum einstaklingum sem lagst hafi upp á hann. Jafnframt sé brýnt að unnið verði að því að hemja með viðeigandi meðferð óviðeigandi kynferðislegt tal og eftir atvikum athæfi, svo atburður eins og í þessu máli endurtaki sig ekki.

Sagði geðlæknirinn fyrir dómi að maðurinn ætti sér sögu um mikla misnotkun á áfengi og sé markalaus. Hann hafi verið ölvaður þegar atvikið átti sér stað og taldi geðlæknirinn ólíklegt að maðurinn hefði gert þetta ef hann hefði ekki verið ölvaður og teljist hann því ekki alfarið ófær um að stjórna gjörðum sínum. Maðurinn hafi takmarkaðan skilning á eðli brotsins og átti sig ekki á orsök og afleiðingu. Hann hafi ekki áttað sig á að brotaþoli væri á barnsaldri eða að hegðun hans væri refsiverð. Refsing muni ekki draga úr líkum á því að svona atburður endurtæki sig. Maðurinn hafi margoft viðhaft kynferðislegt tal líkt og hann væri ákærður fyrir en ekki hafi verið unnið með þennan þátt hjá honum. Mikilvægt væri að tryggja honum stuðning og meðferð til að stöðva þessa hegðun. Hann þurfi viðtöl hjá sálfræðingi sem hafi þjálfun í að taka á svona vanda og atferlismeðferð. Starfsfólk sem sinni honum þurfi þjálfun í viðbrögðum til þess að geta stöðvað þessa hegðun. Verði ekki unnið með þennan þátt hjá manninum væri ekki ólíklegt að viðlíka atburður verði aftur.

Geðlæknirinn taldi ekki þörf á sérstökum öryggisráðstöfunum vegna mannsins þar sem þær gætu verið íþyngjandi fyrir hann og ekki til þess fallnar til að koma í veg fyrir endurtekin brot.

Skerðingar

Það er niðurstaða Héraðsdóms Reykjavíkur, með vísan til matsgerðar geðlæknisins, að refsing muni ekki bera árangur gagnvart manninum vegna þeirra skerðinga sem hann sé haldinn og því verði honum ekki gerð refsing. Hann njóti nú stuðnings teymis á vegum Reykjavíkurborgar sem veiti einstaklingum með fjölþættan vanda húsnæði og stuðning til að lifa sjálfstæðu og innihaldsríku lífi. Mikilvægt sé að maðurinn fái þá meðferð sem geðlæknirinn hafi lagt áherslu á að hann fái og að maðurinn fái stuðning til að halda óæskilegum einstaklingum frá sér. Í ljósi matsgerðar geðlæknisins þyki ekki tilefni til sérstakra ráðstafana.

Maðurinn er því sakfelldur fyrir að brjóta gegn stúlkunni en er ekki gerð refsing fyrir það. Var hann einnig dæmdur til að greiða henni 400.000 krónur í miskabætur, auk vaxta og dráttarvaxta.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 2 dögum

Bendir á dauðagildru í miðbænum – Nenni ekki að vera slysið sem veldur því að eitthvað verði gert“

Bendir á dauðagildru í miðbænum – Nenni ekki að vera slysið sem veldur því að eitthvað verði gert“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Mörgum Sandgerðingum misboðið vegna sölu á gamla Kaupfélagshúsinu – Frænka formanns bæjarráðs keypti

Mörgum Sandgerðingum misboðið vegna sölu á gamla Kaupfélagshúsinu – Frænka formanns bæjarráðs keypti
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Einn á móti öryggismyndavélum í húsinu – Hver tók alltaf útidyrahurðina úr lás?

Einn á móti öryggismyndavélum í húsinu – Hver tók alltaf útidyrahurðina úr lás?
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Síldarvinnslan hættir rekstri fiskmjölsverksmiðju á Seyðisfirði

Síldarvinnslan hættir rekstri fiskmjölsverksmiðju á Seyðisfirði
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Uggandi yfir flutningi Kaffistofu Samhjálpar á Grensásveg – „Fólk er hrætt og vill bara fara að selja“

Uggandi yfir flutningi Kaffistofu Samhjálpar á Grensásveg – „Fólk er hrætt og vill bara fara að selja“
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Ólafur og Anna skella í lás: „Þegar ríkið setti þennan skatt á þá hrundu bókanir“

Ólafur og Anna skella í lás: „Þegar ríkið setti þennan skatt á þá hrundu bókanir“