fbpx
Föstudagur 21.nóvember 2025
Fréttir

Breskur stjórnmálaleiðtogi dæmdur fyrir að þiggja mútur – Talaði máli rússneskra yfirvalda

Ritstjórn DV
Föstudaginn 21. nóvember 2025 16:30

Nathan Gill. Mynd: Skjáskot/Youtube.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Fyrrum leiðtogi hægri-popúlista flokksins Umbót (e. Reform) í Wales hefur hlotið tíu og hálfs árs fangelsisdóm fyrir að þiggja mútur en í staðinn fyrir þær talaði hann ítrekað opinberlega máli rússneskra yfirvalda og hélt málstað Rússlands á lofti.

Maðurinn heitir Nathan Gill og hefur játað brot sitt. Talaði hann máli Rússa bæði í fjölmiðlum og í ræðum á Evrópuþinginu þegar hann var þar þingmaður.

Fjallað er um málið í breskum fjölmiðlum í dag. Gill, sem er 52 ára, játaði að hafa þegið mútur alls átta sinnum á árabilinu 2018-2019.

Hann var á þessum tíma þingmaður á Evrópuþinginu fyrst fyrir Sjálfstæðisflokk Bretlands og svo Brexit-flokkinn. Með yfirlýsingum sínum tók hann undir málstað Rússa í deilum þeirra við Úkraínu.

Breska lögreglan segir að Gill hafi í hvert sinn þegið að lágmarki 40.000 pund í mútur (um 6,7 milljónir íslenskra króna) og boðist til að kynna þá sem greiddu honum múturnar fyrir öðrum Evrópuþingmönnum. Er talið að í sumum tilfellanna hafi honum verið mútað af einstaklingum með bein tengsl við Vladimir Pútín Rússlandsforseta.

Fram kom fyrir dómi að mútugreiðslurnar til Gill tengdust Oleg Voloshyn sem var embættismaður í Úkraínu en snerist á sveif með Rússum árið 2014 og var beittur viðskiptaþvingunum árið 2022 af breskum stjórnvöldum.

Upp komst um Gill þegar sími hans var skoðaður árið 2021 áður en hann sté um borð í flugvél á leið frá Manchester til Rússlands.

Skilaboð

Í síma Gill mátti sjá skilaboð á milli hans og Voloshyn þar sem sá síðarnefndi lagði fyrir Gill hvað hann ætti að segja um Rússland í skiptum fyrir múturnar. Í sumum tilfellanna flutti Gill ræður í Evrópuþinginu, þessa efnis, sem skrifaðar höfðu verið fyrir hann.

Í öðrum tilfellum flutti hann yfirlýsingar sínar í fjölmiðlum, ekki síst þeim sem styðja rússnesk stjórnvöld.

Við leit á heimili Gill í Wales fannst töluvert af reiðufé í bæði evrum og dollurum.

Auk þess að flytja ræður í Evrópuþinginu fól Voloshyn Gill að spyrja þar ákveðinna spurninga sem kæmu Rússum vel og einnig að eiga samskipti um málefni Rússa við háttsetta embættismenn framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins.

Lögreglan telur að Gill hafi fyrst og fremst tekið við mútunum vegna græðgi en þó sé hann hallur undir málstað Rússlands. Fleiri Evrópuþingmenn bæði núverandi og fyrrverandi eru sagðir vera til rannsóknar vegna svipaðra mála.

Farage

Gill var þingmaður á Evrópuþinginu frá 2014-2020. Hann var eins og áður segir fyrst þingmaður Sjálfstæðisflokks Bretlands en síðar Brexit-flokkinn sem var undir forystu Nigel Farage en síðarnefndi flokkurinn varð síðar að Umbót og enn er Farage þar við stjórnvölinn. Flokkurinn hefur undanfarið verið í forystu í skoðanakönnunum í Bretland og því yrði Farage líklega forsætisráðherra ef kosið yrði til breska þingsins í dag.

Farage var ekki til rannsóknar vegna mútugreiðslnanna til Gill en hefur verið hvattur til að láta fara fram rannsókn á vegum flokksins og verið sjálfur sakaður um að draga taum Rússlands en Farage hefur meðal annars verið gestur í rússneskum fjölmiðlum og lýst yfir aðdáun sinni á Vladimir Pútín.

Gill var eftir að málið kom upp rekinn úr flokknum sem í yfirlýsingum hefur fagnað dómnum.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 23 klukkutímum

Vilhjálmur gagnrýnir vörugjaldahækkanir á bílum – Kia Sportage hækkar um næstum 1,5 milljónir

Vilhjálmur gagnrýnir vörugjaldahækkanir á bílum – Kia Sportage hækkar um næstum 1,5 milljónir
Fréttir
Í gær

Hafnfirskir húseigendur verulega ósáttir – Segja lóð nágranna sinna hafa verið of háa í 30 ár

Hafnfirskir húseigendur verulega ósáttir – Segja lóð nágranna sinna hafa verið of háa í 30 ár
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Heiðra sálardrottninguna Arethu Franklin

Heiðra sálardrottninguna Arethu Franklin
Fréttir
Fyrir 2 dögum

„Ef ég væri dómarinn í þessu máli þá myndi ég án nokkurs vafa dæma gegn Evrópusambandinu“

„Ef ég væri dómarinn í þessu máli þá myndi ég án nokkurs vafa dæma gegn Evrópusambandinu“