

Eins og fram hefur komið í fréttum hefur Daði Már Kristórfersson fjármála- og efnahagsráðherra óskað eftir því við Héraðsdóm Reykjaness að dómkvaddir verði matsmenn til að meta kostnað ríkissjóðs af þeim aðgerðum sem ráðist var í til að draga úr eða koma í veg fyrir tjón í eldgosahrinu á Reykjanesskaga sem hófst í desember 2023. Er tilgangurinn með þessu ekki síst sá að meta hvort aðrir aðilar en ríkið eigi að bera hluta kostnaðarins. Stjórn Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum gagnrýnir Daða fyrir þetta og segir ljóst að ríkið beri ábyrgð á aðgerðum í þágu almannavarna. Biður stjórnin ráðherrann um að staldra við.
Ljóst er að í aðgerðunum fólst meðal annars að reisa varnargarða sem vörðu til að mynda mannvirki í eigu einkaaðila, til dæmis Bláa Lónið. Guðrún Hafsteinsdóttir formaður Sjálfstæðisflokksins gagnrýndi beiðni Daða á Alþingi í morgun og spurði ráðherrann hvort hann ætlaði að sér að rjúfa þjóðarsátt. Því neitaði Daði og sagði mikilvægt að láta á það reyna hvort að hluti kostnaðarins geti endurheimst og þá sá hluti sem kom til vegna mannvirkja sem ekki séu tryggð af Náttúruhamfaratrygginu Íslands heldur erlendum endurtryggingum beint.
Stjórn Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum ályktaði á síðasta fundi sínum um málið. Í ályktuninni er minnt á að aðgerðirnar fólust einkum í gerð varnargarða við Grindavík og Svartsengi, hraunkælingu og vörnum við hitaveitulagnir. Heildarkostnaður sé talinn vera um 11 milljarðar króna.
Stjórnin segir ljóst að ábyrgð á almannavörnum, þar með vernd mannslífa og mikilvægra innviða gegn náttúruvá, hvíli fyrst og fremst á ríkinu samkvæmt lögum. Aðgerðir við Grindavík og Svartsengi vegna varnargarða, hraunkælingar og verndar hitaveitulagna, hafi verið framkvæmdar til að verja mannslíf og heilsu, tryggja virkni grunninnviða fyrir fjölmenna byggð, alþjóðaflugvöll og stórt þjónustusvæði, sem sé ekki einungis á Suðurnesjum.
Stjórnin segist hafna þeirri nálgun að eðlilegt sé að líta á þessar aðgerðir fyrst og fremst sem fjárhagslegt hagsmunamál einstakra einkaaðila, sem síðan eigi að „endurgreiða“ ríkinu hluta kostnaðar.
Stjórnin hvetji fjármála- og efnahagsráðherra til að staldra við. Engin fordæmi séu fyrir því að sveitarfélög á Íslandi eða aðrir þurfi að greiða fyrir varnargarða í tengslum við vernd á t.d. aur- eða snjóflóðasvæðum.