

Eigendur íbúðarhúss í Hafnarfirði eru ósáttir við að byggingarfulltrúi bæjarins ætli ekki að bregðast við vegna hæðarlegu lóðar nágranna þeirra. Vilja eigendurnir meina að lóð nágrannanna sé of há miðað við deiliskipulag og samþykkta aðaluppdrætti en bæði húsin voru byggð á 10. áratug síðustu aldar og lóðarfrágangur enn sá sami og þá. Eigendurnir kærðu synjunina til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála sem tók ekki undir með þeim.
Bakhlið lóðar eigendanna liggur að hluta að mörkum baklóðar nágranna þeirra. Lóðirnar eru staðsettar í landhalla og standa húsin við götu nágrannans hærra en húsin við götu eigendanna. Húsin voru eins og áður segir bæði byggð á 10. áratug síðustu aldar.
Annar hinna ósáttu eigenda sneri sér árið 2023 til byggingarfulltrúa Hafnarfjarðar vegna hæðarlegu lóðar nágrannanna sem hann taldi ekki vera í samræmi við skipulag og samþykkta aðaluppdrætti. Í kjölfarið fór byggingarfulltrúinn á staðinn ásamt mælingamanni. Niðurstöður þeirrar mælingar voru að stöllun lóðar nágrannanna væri í samræmi við deiliskipulag. Þá benti byggingarfulltrúinn á að að lóðarfrágangurinn hefði verið með þessum hætti frá því að húsin voru byggð. Var um leið tilkynnt að ekkert frekar yrði aðhafst í málinu.
Eigandinn kærði þá niðurstöðu til nefndarinnar í nóvember 2024 en kærunni var vísað frá á þeim grundvelli að hún hefði borist eftir að kærufrestur var liðinn.
Í ágúst 2025 fóru eigendurnir aftur fram á að byggingarfulltrúi beitti sér fyrir því að hæðarlega lóðar nágrannanna yrði lagfærð. Var því synjað með vísan til þess að um væri að ræða uppdrætti sem hefðu verið samþykktir á árunum 1993–1997, en ekki hefðu verið gerðar athugasemdir við lóðarfrágang fyrr en nú. Væri af þeim sökum ekki hægt að krefjast aðgerða byggingarfulltrúa. Var sú ákvörðun kærð til nefndarinnar.
Eigendurnir töldu í kærunni ekki sjálfsagt að þeir hafi átt að gera sér grein fyrir því á sínum tíma að lóð nágrannanna hafi ekki verið í samræmi við teikningar og deiliskipulag. Jafnframt væri ekki sjálfsagt að þeir hafi átt að leiðrétta byggingarfulltrúa Hafnarfjarðar við útgáfu fokheldisvottorðs vegna frágangs lóðarinnar, enda hafi verið gengið út frá því að viðkomandi lóð væri í samræmi við samþykktar teikningar, byggingarreglugerð og deiliskipulag eftir úttekt byggingarfulltrúa. Þá hafi löggiltur hönnuður bent þeim á að frágangur umræddrar lóðar væri ekki í samræmi við teikningar eða byggingarreglugerð.
Engar samþykktar teikningar væru af lóð nágrannans eins og hún sé í dag og ekki hafi fundist gögn hjá byggingarfulltrúa um mælingu á lóðinni fyrir fokheldisvottorðið. Ákvörðun byggingarfulltrúa Hafnarfjarðar um að aðhafast ekki frekar vegna málsins væri byggð á því að eigendurnir hafi ekki aðhafst áður vegna málsins. Það breytti ekki þeirri staðreynd að frágangur væri ekki í samræmi við teikningar, byggingarreglugerð og deiliskipulag.
Í andsvörum Hafnarfjarðarbæjar kom fram að lóð tveggja næstu húsa í götu eigendanna hafi legið hærra í landi en lóð þeirra allt frá því að húsin hafi verið byggð. Eigendurnir hafi mátt gera sér grein fyrir þessum mikla landhalla á þeim tíma. Á flestum lóðum við götuna þeirra hafi landhallinn verið tekinn við lóðarmörk eins og í tilviki þeirra. Mæling hafi leitt í ljós að ef fylgja ætti lóðarblaði þyrftu eigendurnir að hækka sína lóð um 40–70 sentímetra ásamt því að nágrannar þeirra þyrftu að lækka lóð sína. Þar sem langt væri liðið síðan húsin hafi verið byggð og hæðarlega lóðanna ákveðin á þeim tíma hafi byggingarfulltrúi ákveðið að aðhafast ekkert frekar í málinu, en engin kvörtun hafi borist vegna lóðanna þar til nú.
Nágrannarnir fengu tækifæri til að koma sínum athugasemdum á framfæri og sögðu kæruna ekki svaraverða en bentu þó á að lóð hinna ósáttu eigenda væri ekki í samræmi við þá upphækkun sem sýnd væri á samþykktum teikningum auk þess sem hús þeirra væri út fyrir byggingarreit.
Eigendurnir svöruðu því með að þegar gengið hafi verið frá þeirra lóð hafi lóð nágranna þeirra verið ófrágengin. Nágrannar þeirra hafi ekki haft samráð við þá um við frágang á lóðarmörkum eða breytingum á lóð sinni út frá samþykktum teikningum. Lóð þeirra væri samkvæmt samþykktum teikningum en ekki lóð nágrannanna.
Í niðurstöðu úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála segir að í lögum um mannvirki segi að aðili sem veiti byggingarleyfi skuli krefjast úrbóta sé frágangur lóðar ekki í samræmi við samþykkta aðaluppdrætti. Ákvæðið kveði ekki á um tímamörk á því hversu lengi eftir að framkvæmd ljúki sé hægt að krefjast úrbóta, en þó verði eðli málsins samkvæmt að telja að á því séu einhver mörk. Sé byggingarfulltrúa af þeim sökum rétt að líta til tómlætissjónarmiða og væntinga fasteignareigenda um að þeir verði ekki beittir þvingunarúrræðum vegna framkvæmda sem séu löngu yfirstaðnar.
Sú ákvörðun byggingarfulltrúa Hafnarfjarðar að synja beiðni eigendanna um að beita sér fyrir því að hæðarlega lóðar nágranna þeirra yrði lagfærð hafi verið byggð á því að hæðarlegan hafi verið mótuð þegar húsið á lóðinni var reist á tíunda áratug síðustu aldar. Þar sem ekki hefðu verið gerðar athugasemdir við lóðarfrágang fyrr en nú væri ekki hægt að krefjast aðgerða byggingarfulltrúa.
Ákvörðun byggingarfulltrúans um að gera ekkert vegna lóðar sem, að sögn hinna ósáttu eigenda, hefur verið of há í um 30 ár var því staðfest.