fbpx
Þriðjudagur 18.nóvember 2025
Fréttir

Rekstur veitingastaðar Tamilu og Jónsa endaði með ósköpum – Ásakanir um þjófnað, fals, meiðyrði, hó

Ritstjórn DV
Þriðjudaginn 18. nóvember 2025 19:30

Héraðsdómur Reykjavíkur. Mynd: Maggi gnúsari.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur kveðið upp dóm í meiðyrðamáli konu að nafni Tamila Gámez Garcell gegn fyrrum viðskiptafélaga sínum, Jónsa Björnssyni. Höfðu þau rekið saman veitingastaðinn PK2, á Laugavegi, en upp úr samstarfinu slitnaði og í kjölfarið ásakaði Jónsi Tamilu um meðal annars þjófnað og að hafa falsað undirskrift hans og viðhafði ummæli sem Tamila túlkaði þannig að Jónsi hafi gefið í skyn að hún hefði haldið fram hjá eiginmanni sínum. Sakaði Jónsi aftur á móti Tamilu um að hóta eiginmanni hans.

Tamila stefndi Jónsa í fyrsta lagi fyrir tvenn ummæli sem hann viðhafði á Facebook árið 2023 en ummælin ritaði hann á spænsku en í fyrra skiptið ásakaði hann hana um að stela af honum og öðrum sem komu nálægt starfsemi staðarins en í það seinna sakaði hann hana um að hafa stolið af sér peningum og falsað undirskrift hans. Lét Jónsi ummælin falla í kjölfar þess að staðurinn var seldur og Tamila opnaði nýjan stað.

Einnig stefndi Tamila Jónsa fyrir þrenn ummæli á ensku sem hann lét falla í smáskilaboðum til eiginmanns hennar. Sagði hann við eiginmanninn að konan væri að ljúga að honum, hann myndi stefna henni fyrir svik og skattaundanskot og að eiginmaðurinn yrði að fá að vita um nokkur persónuleg málefni sem væru viðkvæm.

Krafðist Tamila að ummælin yrðu dæmd dauð og ómerk, Jónsi yrði dæmdur til að greiða henni bætur og að hann myndi hljóta refsingu.

Seldur

Tamila og Jónsi ráku veitingastaðinn fyrst ásamt annarri konu en hún fór út úr rekstrinum. Rekstri staðarins var hætt í maí 2023 og var innbú hans selt. Tamila skrifaði undir samninginn um söluna fyrir hönd rekstrarfélags staðarins en eiginmaður hennar og eiginmaður Jónsa skrifuðu undir samninginn sem vottar.

Tamila opnaði svo í kjölfarið annan veitingastað og ritaði þá Jónsi hin umdeildu ummæli á Facebook.

Hélt Tamila því meðal annars fram fyrir dómi að Jónsi hefði látið ummælin falla gegn betri vitund og í þeim fælust ósannar ásakanir um refsiverða háttsemi. Taldi Tamila að Jónsi hafi ætlað sér að eyðileggja reksturinn á hennar veitingastað. Með því að beina ummælunum sérstaklega að spænskumælandi fólki á Íslandi hafi hann verið að ráðast að baklandi hennar og stuðningshópi. Ummælin í smáskilaboðunum til eiginmanns hennar hafi enn fremur sýnt einbeittan brotavilja Jónsa og hann hafi í þeim ýjað að því að hún hefði verið manni sínum ótrú og þannig með svívirðilegum hætti rofið friðhelgi einkalífs hennar og grafið undan hjónabandinu, svo varðaði við hegningarlög.

Tjáningarfrelsið

Í málsvörn sinni vísaði Jónsi ekki síst til réttar síns til tjáningarfrelsis. Um hafi verið að ræða hans persónulegu upplifun. Hann hafi með ummælum sínum á Facebook verið að gagnrýna Tamilu fyrir hvernig hún hafi staðið að rekstri veitingastaðarins og hvernig hún hafi komið fram við starfsfólk. Ummælin hafi verið nauðsynleg ekki síst þar sem hann hefði verið samsamaður Tamilu í einu og öllu svo mjög að hann hafi verið bendlaður við opnun nýja staðarins hennar. Um væri að ræða gagnrýni á Tamilu sem hefði gefið sig út fyrir að hafa reynslu og vera best til þess fallin að stýra rekstri félagsins í einu og öllu. Ummælin gætu hvorki talist móðgandi né fela í sér ærumeiðandi aðdróttanir.

Sagði Jónsi að Tamila hafi alfarið séð um sölu á innbúi staðarins sem þau ráku saman og hafi hvorki greitt skuldir rekstrarfélagsins né vangoldin laun til starfsmanna. Hann neitaði því einnig að hafa sakað hana um að vera eiginmanni sínum ótrú. Sakaði Jónsi Tamilu um að hóta eiginmanni hans og hann hafi því í kjölfarið haft samband við eiginmann hennar til að upplýsa hann um stöðuna. Vísaði Jónsi því til sönnunar til hljóðskilaboða sem konan sendi eiginmanni hans. Hafi hann sett sig í samband við eiginmann hennar til að komast að því hvað þessari vinkonu hans til 20 ára gengi til.

Þýðing

Í niðurstöðu Héraðsdóms Reykjavíkur segir að óumdeilt sé að áður en Jónsi lét hin umdeildu ummæli falla hafi hann og Tamila átt í deilum um rekstur staðarins og sölu á honum. Deilan hafi meðal annars snúist um framlag þeirra hvors um sig til rekstrarins og endurgjald vegna þess og endurgjald vegna sölunnar. Hafi Jónsi talið Tamilu hafa hlunnfarið sig og aðra en fyrir dóm hafi komið fólk sem hafi borið að hafa verið hlunnfarið um laun fyrir vinnu á veitingastaðnum.

Hvað varðaði fyrri ummæli Jónsa á Facebook þar sem, samkvæmt íslenskri þýðingu, hann sakaði Tamilu um að stela frá þeim sem áður stóðu með henni hafi hann notað spænska orðið robado sem samkvæmt löggiltum skjalaþýðanda sé notað í víðtækum skilningi sem feli ekki í sér beinlínis neitt illt. Þá sé ljóst að það teljist ekki endilega vera staðhæfing um refsiverða háttsemi þótt einhver lýsi því að hann telji annan hafa svikið sig. Það  sé því ekki hægt að telja að með þessu hafi Jónsi haft uppi aðdróttanir um refsiverða háttsemi.

Það eigi einnig við um síðari ummælin á Facebook þegar kemur að fullyrðingum Jónsa um þjófnað á peningum. Hvað varðar ummælin um að Tamila hafi falsað undirskrift hans þá felist í þeim ásakanir um skjalafals sem sé refsiverð háttsemi. Jónsi hafi ekki getað bent á neitt tiltekið skjal heldur vísað til upplýsinga frá Tamilu um að lögmaður hefði undirritað skjöl vegna sölunnar á staðnum fyrir hönd aðila. Jónsa hafi borið að ganga úr skugga hvort það væri rétt að Tamila hefði sannarlega falsað undirskrift hans áður en hann lét þau ummæli falla á Facebook. Upplýsingar um að lögmaður hefði undirritað skjalið fyrir hans hönd sem hafi svo ekki reynst réttar réttlættu ekki þessa staðhæfingu. Því verði að dæma þessi ummæli dauð og ómerk.

Gildisdómur

Dómurinn segir enn fremur að ummæli Jónsa í smáskilaboðum til eiginmanns Tamilu feli í sér staðhæfingar um að hún hafi logið og það sé gildisdómur sem rúmist innan tjáningarfrelsis Jónsa. Ummæli í smáskilaboðunum um að hann ætlaði sér að stefna Tamilu fyrir skattaundanskot hefðu ekki falið í sér neina fullvissu en upplýsingar sem Jónsi hafi fengið um að sex launaseðlar hefðu verið gefnir út í hans nafni en hann ekki fengið greitt í samræmi við þá geri það að verkum að Jónsi hafi verið í góðri trú um um réttmæti ummælanna. Þau hafi þar að auki ekki verið látin falla opinberlega. Því væri ekki hægt að fallast á ómerkingu.

Hvað varðar ummælin í smáskilaboðunum um að eiginmaður Tamilu yrði að vita um viðkvæm persónuleg málefni þá kunni þau að hafa vakið grun um framhjáhald en þau hafi augljóslega ekki falið í sér neina staðhæfingu og því væri ekki hægt að fallast á ómerkingu þeirra.

Ummæli Jónsa um að Tamila hefði falsað undirskrift hans voru því dæmd dauð og ómerk og fyrir þau þarf hann að greiða henni 250.000 krónur í miskabætur auk vaxta. Þar sem ummælin byggðu á upplýsingum úr hljóðskilaboðum frá Tamilu þótti ekki sannað að um ásetning hafi verið að ræða og því var hann sýknaður af kröfum Tamilu um að honum yrði gerð refsing og sömuleiðis af öllum öðrum kröfum sem sneru ekki að þessum tilteknu ummælum.

Dóminn í heild er hægt að kynna sér hér.

 

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 12 klukkutímum

FÍF boðar til yfirvinnubanns

FÍF boðar til yfirvinnubanns
Fréttir
Fyrir 14 klukkutímum

Reknir úr snorklferð fyrir „ófullnægjandi sundkunnáttu“

Reknir úr snorklferð fyrir „ófullnægjandi sundkunnáttu“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Var áður einn helsti stuðningsmaður Trump en fær nú að kenna á fúkyrðaflaumi

Var áður einn helsti stuðningsmaður Trump en fær nú að kenna á fúkyrðaflaumi
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Hafði ekki erindi sem erfiði – Vildi ekki segja af hverju hún vildi koma sér upp hesthúsi

Hafði ekki erindi sem erfiði – Vildi ekki segja af hverju hún vildi koma sér upp hesthúsi