
Kærunefnd vöru- og þjónustukaupa hefur úrskurðað að ónefndu fyrirtæki beri að endurgreiða viðskiptavini sínum fyrir snorklferð sem hann ætlaði sér í ásamt samferðamanni. Fyrirtækið vísaði hins vegar tvímenningunum úr ferðinni á þeim grundvelli að þeir byggju ekki yfir nægilega góðri sundkunnáttu en því vísuðu þeir alfarið á bug.
Snorkl (e. snorkeling) er einnig kallað yfirborðsköfun en þá er við köfun andað með hjálp búnaðar sem nær upp úr vatninu.
Viðskiptavinurinn lagði fram kvörtun sína í apríl síðastliðnum og krafðist endurgreiðslu.
Samkvæmt úrskurði nefndarinnar bókaði viðskiptavinurinn snorklferð fyrir sig og samferðamann sinn hjá fyrirtækinu, sem var umsjónaraðili ferðarinnar, og greiddi fyrir hana alls 34.482 krónur. Í kvörtun viðskiptavinarins kom fram að þegar þeir mættu á svæðið hafi þeim verið meinuð þátttaka í ferðinni á þeim grundvelli að þeir uppfylltu ekki sundkröfur sem gerðar væru til þátttakenda. Viðskiptavinurinn fullyrti að þeir væru báðir syndir og hefðu fullnægjandi hæfni til að taka þátt í snorklferð.
Viðskiptavinurinn vísaði til þess að við bókun ferðarinnar hafi ekki verið gerðar strangari kröfur um sund- eða þolhæfni en að fyrirtækið hafi í kjölfar atviksins bætt við upplýsingum á heimasíðu sinni þess efnis að þátttakendur þyrftu að geta synt 500 metra og gengið 600 metra. Að sögn viðskiptavinarins hafi þessar kröfur ekki verið aðgengilegar þegar bókunin fór fram.
Í kvörtuninni vísaði viðskiptavinurinn einnig til þess að ekkert sérstakt mat hafi farið fram á sundhæfni tvímenninganna heldur hafi ákvörðun verið tekin út frá huglægu mati leiðsögumanns. Hann og samferðamaður sinn hafi uppfyllt þær kröfur sem gerðar voru til þátttakenda um að vera örugg í vatni. Hélt hann því sömuleiðis fram að fyrirtækið hafi veitt misvísandi skýringar á ástæðum þess að þeim hafi verið meinuð þátttaka í ferðinni.
Í andsvörum fyrirtækisins kom fram að skýrt væri tekið fram á vefsíðu, í tölvupósti sem sé sendur fyrir ferðina og í handbók vegna ferðarinnar að þátttakendur verði að vera öruggir í vatni og geta synt til að taka þátt í ferðinni. Leiðsögumaður á vegum fyrirtækisins hafi komist að þeirri niðurstöðu að hæfni tvímenninganna hafi ekki dugað til að uppfylla þær lágmarkskröfur sem gerðar væru.
Í niðurstöðu kærunefndar vöru- og þjónustukaupa segir að af framlögðum samskiptagögnum megi ráða að enskukunnátta annars tvímenninganna hafi meðal annars verið ástæða þess að þeim var synjað um þátttöku í ferðinni. Hvorugur málsaðila hafi borið því við fyrir kærunefndinni að annar tvímenninganna hafi ekki fullnægt kröfum um enskukunnáttu og greini aðila einkum á um hvort rétt hafi verið að meina þeim þátttöku á þeim grundvelli að þeir uppfylltu ekki sundkröfur.
Nefndin segir að á bókunarstaðfestingu vegna ferðarinnar komi fram að þátttakendur skuli lesa handbók um ferðina. Sömu
upplýsingar komi jafnframt fram á heimasíðu fyrirtækisins. Í handbókinni komi fram að þátttakendur þurfi að geta synt sjálfir og vera öruggir í vatni. Þá sé tekið fram að í síðari hluta ferðarinnar geti verið vægur straumur, þó ekki krefjandi, en að þátttakendur þurfi að geta synt. Á heimasíðu fyrirtækisins sé jafnframt tekið fram að þátttakendur þurfi að geta synt án björgunarvestis og vera öruggir í vatni.
Nefndin segir viðskiptavininn vísa til þess að hann og samferðamaður hans séu syndir, hafi lokið sundkennslu og séu færir um ólíkar tegundir sunds. Fyrirtækið hafi hins vegar borið því við að leiðsögumaður á hans vegum hafi, út frá sérþekkingu sinni, metið að þeir uppfylltu ekki þær lágmarkskröfur sem gerðar væru til þátttakenda. Hins vegar hafi fyrirtækið ekki veitt nefndinni frekari skýringar eða sýnt fram á að tvímenningarnir hafi ekki fullnægt þeim skilyrðum sem sannanlega séu gerð til þátttakenda í snorklferðum á þess vegum. Því verði ekki séð á hvaða forsendum fyrirtækið meinaði tvímenningunum þátttöku í ferðinni sem þeir höfðu þegar greitt fyrir.
Það er niðurstaða nefndarinnar að í ljósi alls þessa og að þjónusta sem greitt hafi verið fyrir hafi ekki verið veitt beri fyrirtækinu að endurgreiða viðskiptavininum fyrir ferðina sem hann og samferðamaður hans fengu ekki að fara í.