fbpx
Laugardagur 15.nóvember 2025
Fréttir

Hafði ekki erindi sem erfiði – Vildi ekki segja af hverju hún vildi koma sér upp hesthúsi

Jakob Snævar Ólafsson
Laugardaginn 15. nóvember 2025 19:00

Mynd/Valli

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Kærunefnd vöru- og þjónustukaupa hefur vísað frá kröfu konu um endurgreiðslu vegna kaupa hennar á svokölluðu límtréhúsi sem hún ætlaði að nota sem hesthús. Konan svaraði ekki beiðni nefndarinnar um nánari upplýsingar um tilganginn með kaupunum en konan mun vera skráð sem aðili í atvinnurekstri.

Fram kemur í úrskurðinum að konan hafi samið um kaupin við aðila, sem líklega er verktaki, en samið var um kaup konunnar fyrir byggingu hússins. Konan krafðist endurgreiðslu frá verktakanum, 1,5 milljónar króna og 10.400 evra (andvirði um 1,5 milljónar króna).

Haustið 2023 leitaði konan til verktakans og óskaði eftir tilboði í límtréshús sem hún hugðist nota sem hesthús. Áttu þau í nokkrum samskiptum í kjölfarið vegna útfærslu á húsinu. Samningur um kaupin, sem dagsettur er í nóvember 2023, var undirritaður af konunni í janúar 2024. Í samningum kemur fram að um sé að ræða kaup á límtréshúsi með samlokueiningum en staðsetja átti það á Suðurlandi. Samkvæmt samningnum á stærð hússins að vera 154 fermetrar og miðast við fyrirliggjandi drög að teikningum.

Í samningnum kom fram að áætlaður afhendingartími hússins yrði á vordögum 2024 sem yrði þó skýrður nánar þegar verkteikningar lægju fyrir. Var umsamið kaupverð hússins alls rétt undir 11,5 milljónum krónum, að meðtöldum virðisaukaskatti. Í janúar 2024 millifærði konan tvær innborganir inn á bankareikning verktakans, að fjárhæð 1.500.000 krónur og 10.400 evrur.

Framhaldið

Um samskiptin og um hvað var samið greindi hins vegar konuna og verktakann verulega á um.

Konan vildi meina að ein af forsendunum af hennar hálfu hafi verið að húsið yrði reist á púða með 80 sentímetra sökkulvegg ofanjarðar og hafi hún upplýst verktakann um það í aðdraganda samningsgerðar. Hafi hún sjálf ætlað að reisa þann vegg. Þegar hún hafi loks fengið teikningar af sökkulvegg hússins í lok júlí 2024 hafi hún hins vegar uppgötvað að gert væri ráð fyrir 175 sentímetra sökkulvegg undir húsið. Þá vísaði konan til þess að samkvæmt samningi hafi verktakinn átt að afhenda húsið vorið 2024. Hafi hún hins vegar komist að því í maí 2024 að ekki væri búið að panta efni í húsið frá útlöndum. Hafi verktakinn þannig vanefnt samning þeirra.

Sagðist konan hafa reynt að ná sáttum við verktakann en án árangurs og krefðist því endurgreiðslu og riftunar samningsins.

Drög

Í andsvörum verktakans kom fram að drög af teikningum hafi verið afhent hönnuði eftir nánari útfærslu í samráði við konuna. Teikningarnar hafi aðeins sýnt útlit hússins og byggingargerð en í þeim hafi hvorki verið vikið að burðarþoli né magntölum.

Alltaf hafi legið fyrir að hann myndi ekki hanna húsið og konunni hafi verið komið í samband við þann aðila. Af skriflegum samskiptum þeirra sé ljóst að konan hafi hins vegar óskað eftir ýmsum breytingum á meðan á teiknivinnunni stóð sem og verið sein til svara vegna tiltekinna atriða sem hönnuður hússins óskaði eftir afstöðu hennar til. Þá hafi óskir konunnar um lit og áferð á veggjum og þaki hússins ekki legið fyrir fyrr en í lok maí 2024. Hafi þetta m.a. leitt til tafa á því að unnt væri að koma af stað framleiðslu hússins.

Sökkull

Í júní 2024 hafi samþykki byggingaryfirvalda legið fyrir en í kjölfarið hafi konan óskað eftir frekari breytingu á húsinu sem hann hafi ekki fallist á að gera þar sem búið væri að samþykkja teikningar og hefja framleiðslu á húsinu.

Hafi konan síðan í ágúst 2024 gert athugasemdir við teikningarnar meðal annars að sökklar myndu ganga niður fyrir botnplötu hússins. Sagðist verktakinn hafa þá tjáð konunni að hann hefði aldrei samþykkt að húsið yrði reist án þess að sökklar yrðu undir því. Engir sem komið hefðu hefðu að málinu könnuðust heldur við slíkt.

Sagðist verktakinn hafa uppfyllt allar skyldur sínar samkvæmt samningnum. Hafi hann m.a. látið átölulaust allar þær breytingar sem konan hafi gert á teikningum hússins og hafi hann borið allan kostnað vegna þess. Þá taldi verktakinn fjarstæðukennt að konan hafi fyrst orðið þess vör í ágúst 2024 að teiknaðir hefðu verið sökklar undir húsið. Sýni framlagðar teikningar af húsinu það með réttu. Hafi konan fengið sent afrit af öllum teikningum sem unnar voru í teikniferlinu en hafi á engum tímapunkti gert athugasemdir við þær. Þá mótmælti verktakinn þeim fullyrðingum konunnar, sem komu fram í skriflegum samskiptum þeirra, að víða séu byggð hús án sökkuls, sem ósönnuðum.

Sagði verktakinn að efni og íhlutir í húsið hefðu verið pantaðir. Hafi hann umfram skyldu og í því skyni að leysa málið, boðið konunni endurgreiðslu á þeim fjármunum sem hún hafi greitt til hans að frádregnum kostnaði við hönnun og verkfræðiteikningar. Hafi hún ekki fallist á það.

Vildi ekki segja frá

Í niðurstöðu kærunefndar vöru- og þjónustukaupa segir að í ágúst 2025 hafi fyrir hönd nefndarinnar verið sendur tölvupóstur til konunnar þar sem óskað hafi verið eftir gögnum og ýmsum upplýsingum til stuðnings kröfum hennar í málinu. Beiðnin hafi verið ítrekuð með alls fjórum tölvupóstum til viðbótar, í september og október.

Konan hafi ekki orðið við beiðni nefndarinnar um að veita umbeðnar upplýsingar og gögn svo unnt væri að taka afstöðu til kröfunnar.

Meðal þeirra upplýsinga sem kærunefndin óskaði eftir voru þær hver tilgangur konunnar með kaupunum á umræddu húsi, sem átti að vera hesthús með 10 básum, væri. Nefndin segir að samkvæmt upplýsingum úr fyrirtækjaskrá sé konan skráð sem einstaklingur í atvinnurekstri. Í ljósi þess að tilgangur konunnar með kaupunum liggi ekki fyrir telji nefndin sér ekki fært að kveða upp úrskurð um kröfur konunnar á grundvelli þeirra upplýsinga sem liggi fyrir í málinu.

Kröfu hennar var því vísað frá en leggi konan fram gögn og upplýsingar getur hún farið fram á að nefndin taki málið til meðferðar að nýju.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 2 dögum

Faðir gagnrýnir borgina fyrir að kenna sólinni og fjárskorti um eftir að þrjú börn urðu fyrir bíl á sama stað – „Það er eitthvað mikið að“

Faðir gagnrýnir borgina fyrir að kenna sólinni og fjárskorti um eftir að þrjú börn urðu fyrir bíl á sama stað – „Það er eitthvað mikið að“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Foreldrar Sigurðar segja sorgina ólýsanlega – „Það eru tvær dagsetningar sem hafa markað líf okkar“

Foreldrar Sigurðar segja sorgina ólýsanlega – „Það eru tvær dagsetningar sem hafa markað líf okkar“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Segir ekki flókna ástæðu valda því að fólk drepi aðra sér til skemmtunar

Segir ekki flókna ástæðu valda því að fólk drepi aðra sér til skemmtunar
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Stjórnarmaður RÚV segir pólitíska slagsíðu hafa áhrif á fréttaflutning miðilsins – „Fáránleikinn náði hápunkti hér um árið“

Stjórnarmaður RÚV segir pólitíska slagsíðu hafa áhrif á fréttaflutning miðilsins – „Fáránleikinn náði hápunkti hér um árið“