fbpx
Fimmtudagur 13.nóvember 2025
Fréttir

Íslenskir öryrkjar erlendis verulega ósáttir við jólabónusarfrumvarp Ingu – „Virkilega ósanngjarnt og sárt“

Jakob Snævar Ólafsson
Fimmtudaginn 13. nóvember 2025 20:30

Inga Sæland

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Íslenskir örorkulífeyrisþegar sem hafa lögheimili erlendis hafa lýst yfir töluverðri óánægju með frumvarp Ingu Sæland, félags- og húsnæðismálaráðherra, til breytinga á almannatryggingalögum. Snýst það um að þau sem hafa fengið greiddan örorkulífeyri, hlutaörorkulífeyri eða ellilífeyri eða fengið sjúkra- og endurhæfingargreiðslur á árinu 2025 skulu fá eingreiðslu í desember. Er frumvarpið í daglegu tali nefnt jólabónusarfrumvarpið en í því er tekið fram að þennan rétt eigi þau sem skráð hafi verið með lögheimili hér á landi 1. nóvember 2025. Ljóst er að þó nokkur hópur íslenskra örorkulífeyrisþega er með lögheimili erlendis og fólk úr þessum hópi hefur lýst yfir óánægju með þetta ákvæði í frumvarpinu og sumir þeirra segja um hrein svik að ræða og mismunun. Viðbrögð og svör ráðherrans og hennar aðstoðarmanna við þessari gagnrýni liggja ekki fyrir en þegar hún mælti fyrir frumvarpinu svaraði Inga öðrum gagnrýnisröddum fullum hálsi.

Inga mælti fyrir frumvarpinu við 1. umræðu á þingfundi í gær. Gærdagurinn var annars mjög tíðindamikill fyrir hennar málaflokk á Alþingi. Þar bar hæst að Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks var lögfestur en Inga og aðrir ráðherrar og þingmenn fögnuðu því ákaft en niðurstöðunni hefur verið lýst sem einni mestu réttarbót fyrir fatlaða í Íslandssögunni. Frumvarp Ingu um breytingar á lögum um fjöleignarhús, þar sem krafa um samþykki annarra eigenda fyrir hunda- og kattahaldi var afnumið, var einnig samþykkt en því var mikið fagnað einnig en þó ekki síst af eigendum slíkra dýra.

Jólabónus

Eftir að þessi mál höfðu verið samþykkt mælti Inga fyrir jólabónusarfrumvarpinu. Það snýst um að tryggja þessum hópi lífeyrisþega jólabónus eins og venjan hefur verið undanfarin ár. Ljóst er þó að það fá ekki allir í þessum hópi bónusinn óskertan en samkvæmt frumvarpinu verður hann tekjutengdur en þó skattfrjáls og mun ekki skerða lífeyrisgreiðslurnar á móti.

Sagði Inga í framsöguræðunni að ætlunin væri að koma sérstaklega til móts við þá tekjulægstu og þá sem verst hefðu það í þessum hópi.

Í frumvarpinu eins og það lítur út núna segir um þá lífeyrisþega sem ætlað er að fái jólabónusinn:

„Enda hafi þeir verið með skráð lögheimili hér á landi 1. nóvember 2025.“

Ljóst er að þó nokkrir úr hópi íslenskra örorkulífeyrisþega eru með lögheimili erlendis, til að mynda á hinum Norðurlöndunum og Spáni. Ekki finnast upplýsingar í fljótu bragði um hversu stór hópur þetta er en fólk sem tilheyrir honum hefur einkum vísað til hás framfærslu- og húsnæðiskostnaðar þegar kemur að skýringum á brottflutningi viðkomandi úr landi.

Óánægja

DV hafa borist ábendingar um óánægju íslenskra örorkulífeyrisþega í útlöndum með þetta ákvæði í frumvarpinu en einnig þarf ekki að leita langt yfir skammt til að finna slíkar óánægjuraddir á samfélagsmiðlum.

Þessi hópur skilur ekki frumvarpið öðruvísi en þannig að honum muni ekki standa til boða neinn jólabónus í ár og ekki er sjá neitt í greinargerðinni sem mælir gegn þeim skilningi.

Eftir því sem DV kemst næst hefur þessum hópi örorkulífeyrisþega verið greiddur jólabónus undanfarin ár en ekkert kemur til að mynda fram um búsetuskilyrði í reglugerð um eingreiðslur til lífeyrisþega á árinu 2025 sem Bjarni Benediktsson undirritaði í desember í fyrra en hann var þá félags- og vinnumarkaðsráðherra.

Hörð ummæli

Í umræðuhópum öryrkja á Facebook er töluvert um harðorða gagnrýni á þetta ákvæði frumvarpsins um nauðsyn þess að hafa lögheimili á Íslandi:

„Þetta er náttúrulega til skammar að eingreiðslan sé bara fyrir þá sem eru með lögheimili á Íslandi, bara mismunun á öryrkjum.“

„Það sem mér finnst virkilega ósanngjarnt og sárt er að útiloka fólk sem hefur flúið úr landi til að geta lifað mannsæmandi tilveru frá því að fá þessa greiðslu.“

Sumir sem taka þátt í umræðunni andmæla þessu þó og óánægjan með tekjutenginguna virðist ekki mikið minni.

Enn meiri gagnrýni

Á þriðjudag var greint frá því á Facebook-síðu Flokks fólksins að Inga myndi mæla fyrir frumvarpinu á þingfundi daginn eftir. Yfir 200 athugasemdir voru ritaðar við færsluna. Í þeim er frumvarpið gagnrýnt fyrir meðal annars tekjutenginguna en einnig fyrir ákvæðið um búsetu á Íslandi:

„Af hverju er verið að mismuna okkur sem búum erlendis? Ég hef eingöngu tekjur frá TR og borga mína skatta á Íslandi.“

„Mæli með að Flokkur fólksins breyti tillögunni vegna þeirra sem búa erlendis þannig að miðað sé við búsetuhlutfall. Er það eina rétta að mínu mati.“

Sumir sem gagnrýna búsetuákvæðið segja beinlínis um svik í sinn garð að ræða.

Ein umsögn hefur borist Alþingi um frumvarpið, frá Jóni Frímanni Jónssyni sem segir ákvæðið umdeilda fela í sér brot á jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar og ákvæðum EES-samningsins um bann við mismunun yfir landamæri:

„Það er ekki forsvaranlegt og til háborinnar skammar að tekjur öryrkja skuli vera skertar eftir búsetu og nógu ef af taka þar í íslenskum lögum um almannatryggingar. Þetta er einnig sérstaklega slæmt þar sem þetta hefur ekki verið gert undanfarin ár þar síðan þessari eingreiðslu var komið á í desember sem hefur skapað það fordæmi að öllum öryrkjum skuli greidd þessi eingreiðsla, hvort sem þeir eru búsettir á Íslandi eða erlendis. Margir öryrkjar greiða fulla skatta til Íslands þó svo að búsetan sé erlendis.“

Halda áfram að berjast

Jón Frímann ritaði síðan grein á Vísi þar sem ekki er hægt að segja annað en að hann hafi verið afar harðorður í garð ráðherrans:

„Svona greinar rata ekki inn í lagafrumvörp fyrir slysni. Þetta er gert mjög viljandi af félags- og húsnæðismálaráðherra og hennar ráðuneyti. Ég veit ekki hvað hún hefur á móti öryrkjum sem eru búsettir erlendis og hver ástæðan er fyrir þessu er. Þetta er hins vegar ekki eitthvað sem öryrkjar ættu að sætta sig við.“

Þegar Inga mælti fyrir frumvarpinu í gær minntist hún á þetta ákvæði en ræddi það ekki frekar en eyddi hins vegar nokkrum hluta ræðunnar í að lýsa yfir óánægju með gagnrýni í hennar garð einkum frá ellilífeyrisþegum sem hún virðist hafa orðið nokkuð vör við og ítrekaði að þau tekjulægstu í þeim hópi myndu fá þennan jólabónus:

„Jafnvel þó við verðum svolítið fullorðin og svolítið gleymin þá er ég að verða svolítið mikið leið á því hvað við erum að verða of mikið gleymin. Ég ætla að leyfa mér að halda því fram að fullorðið fólk sé gegnumgangandi ekki það gleymið að það muni ekki fram fyrir tærnar á sér eða hvað gerðist í gær. Ég neita að trúa því. Ég vil frekar hafa ykkur með í liðinu þannig að við getum haldið áfram að berjast. Þannig að við getum haldið áfram að ná árangri.“

Máttur

Áfram hélt Inga við að viðra þessa óánægju sína:

„Það dregur úr manni allan mátt ef það er ekkert annað en neikvæðni og skammir sem maður fær fyrir þau góðu verk sem ríkisstjórnin ykkar er að vinna hér í dag. Við erum að biðja um að þið séuð með okkur í liði. Ég vil fá ykkur með í liðið. Það er það sem ég er að biðja um. Þannig náum við árangri fyrir okkur öll.“

Bætti Inga síðan við að fleiri ellilífeyrisþegar myndu fá jólabónus í ár en á síðasta ári en á móti kæmi að hann færi ekki upp allan tekjustigann.

Lagði Inga þunga áherslu á að jólabónusinn í ár væri hugsaður fyrir þá lífeyrisþega sem hefðu lægstu tekjurnar og hefðu það allra verst í samfélaginu. Fyrir þá allra verst settu hafi Flokkur fólksins verið stofnaður og hún væri svo sannarlega ekki búin að gleyma því og hélt áfram að svara gagnrýnisröddum fullum hálsi:

„Það skiptir í engu rauninni eins og verið er að gefa hér í skyn að þegar er búið að stinga einhverjum ráðherrastól undir rassinn á mér þá sé ég bara búinn að gleyma öllu því sem að ég áður boðaði. Það er ekki rétt. Mín hugsjón er enn jafn sterk. Hún er enn jafn stór.“

Ítrekaði Inga að ríkisstjórnin stefndi fullum fetum að því að halda áfram að bæta kjör hinna verst settu. Sagðist hún hafa haft 2 milljarða króna til að ráðstafa í jólabónus fyrir lífeyrisþega og lagt það í hendur sérfræðinga ráðuneytisins að útfæra það á sem sanngjarnastan hátt og þetta væri niðurstaðan og las aftur upp upphafsorð frumvarpsins meðal annars skilyrði um lögheimili á Íslandi án þess þó að ræða það ákvæði nánar

Svarar ekki beint

Ingibjörg Isaksen þingmaður Framsóknarflokksins var sú eina fyrir utan Ingu sem tók til máls við þessa fyrstu umræðu um frumvarpið. Ingibjörg spurði Ingu meðal annars hvers vegna jólabónusinn ætti bara að gilda fyrir þá sem væru með lögheimili á Íslandi og hvers vegna hún hefði gagnrýnt síðustu ríkisstjórn fyrir sams konar ákvæði.

Inga svaraði því ekki beint hvers vegna þetta ákvæði væri í frumvarpinu en minnti Ingibjörgu hins vegar á að hún hefði verið að mótmæla áformum síðustu ríkisstjórnar um að öryrkjar búsettir erlendis myndu ekki fá persónuafslátt en Inga mótmælti því af nokkrum krafti og ekkert varð á endanum af því.

Upp úr klukkan þrjú í gær þegar Inga var upptekin við störf sín á Alþingi sendi DV skriflega fyrirspurn til aðstoðarmanna hennar um þessa óánægju íslenskra örorkulífeyrisþega erlendis um að þeir muni samkvæmt frumvarpinu ekki fá jólabónus í ár. Spurt var til að taka af öll tvímæli hvort það væri rétt að örorkulífeyrisþegar með lögheimili erlendis fái engan jólabónus í ár og ef svo væri hver sé ástæðan fyrir þessu? Spurt var einnig hver væri munurinn á þessu og því þegar fyrri ríkisstjórn ætlaði að afnema persónuafslátt öryrkja erlendis sem ráðherrann barðist kröftuglega gegn þegar hún var í stjórnarandstöðu. Loks var leitað viðbragða við óánægjuröddum öryrkja erlendis og ummælum eins og t.d. að um svik og mismunun væri að ræða.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 11 klukkutímum

Stjórnarmaður RÚV segir pólitíska slagsíðu hafa áhrif á fréttaflutning miðilsins – „Fáránleikinn náði hápunkti hér um árið“

Stjórnarmaður RÚV segir pólitíska slagsíðu hafa áhrif á fréttaflutning miðilsins – „Fáránleikinn náði hápunkti hér um árið“
Fréttir
Fyrir 12 klukkutímum

Segir hugmyndir um sameiningu Grindavíkur og Garðabæjar hafa fengið hljómgrunn síðustu mánuði

Segir hugmyndir um sameiningu Grindavíkur og Garðabæjar hafa fengið hljómgrunn síðustu mánuði
Fréttir
Í gær

Múlaborgarmálið: Braut Hannes gegn fleiri börnum?

Múlaborgarmálið: Braut Hannes gegn fleiri börnum?
Fréttir
Í gær

Hafnarstjórar landsins segja mikla óvissu framundan

Hafnarstjórar landsins segja mikla óvissu framundan