

Hæstiréttur hefur staðfest dóm Landsréttar yfir tveimur mönnum Ásbirni Þórarni Sigurðssyni og Bessa Karlssyni fyrir nauðgun á ungri konu í Hafnarfirði árið 2020. Höfðu þeir aftur á móti verið sýknaðir í héraðsdómi og fengu þar af leiðandi leyfi til að áfrýja dómnum til Hæstaréttar.
Ásbjörn og Bessi sakfelldir fyrir nauðgun á 18 ára stúlku – Landsréttur sneri við dómi
Ásbjörn og Bessi voru ákærðir fyrir nauðgun með því að hafa í félagi og með ofbeldi og ólögmætri nauðung haft önnur kynferðismök en samræði við konuna án hennar samþykkis með því að Ásbjörn hefði haldið höndum hennar föstum, rifið endurtekið í hár hennar og tekið hana hálstaki og slegið nokkrum sinnum í andlitið en Ásbjörn og Bessi hafi síðan skipst á að stinga fingrum sínum í munn hennar, sett getnaðarlimi sína í munn hennar og þvingað hana til að hafa munnmök við þá báða. Samkvæmt ákærunni þukluðu þeir einnig á brjóstum hennar innanklæða og kynfærum hennar utanklæða og eftir að þeir létu af þessari háttsemi sinni hafi þeir þvingað hana til að taka inn kókaín.
Atvikið átti sér stað eftir samkvæmi á þáverandi heimili Ásbjarnar í Hafnarfirði.
Segir í dómi Hæstaréttar að Ásbjörn og Bessi hafi haldið því fram að sú staðreynd að þolandinn hafi gefið skýrslu fyrir Landsrétti í gegnum fjarfundarbúnað, þar sem hún var stödd erlendis, hafi brotið gegn rétti þeirra til réttlátrar málsmeðferðar og væri ekki í samræmi við lög um meðferð sakamála. Hæstiréttur tók ekki undir það og hafnaði því að ómerkja dóm Landsréttar á þessari forsendu.
Einnig var krafist ómerkingar dóms Landsréttar á þeim forsendum að ekki hefði verið tekin afstaða til allra varna Ásbjarnar og Bessa. Hæstiréttur tók undir að sá annmarki væri á dómi Landsréttar að ekki væri vikið að vörnum þeirra sem lutu að niðurstöðum greiningar á DNA-sniði í stroksýnum sem tekin voru af getnaðarlimum þeirra þar sem ekkert DNA-snið sem svaraði til brotaþola fannst.
Hæstiréttur komst hins vegar að þeirri niðurstöðu að ekki væri um að ræða slíkt atriði við sönnunarmatið að það leiddi þegar til þeirrar niðurstöðu að sök Ásbjarnar og Bessa væri ósönnuð. Taldi rétturinn ekki um slíkan annmarka á rökstuðningi dómsins að ræða að varðað gæti ómerkingu hans. Þá var ekki talið að aðrir annmarkar væru á dómi Landsréttar sem leitt gætu til ómerkingar hans.
Hæstiréttur tekur fram að niðurstaða Landsréttar um sakfellingu sé reist á heildstæðu mati á öllum sönnunargögnum og þá einkum sönnunargildi munnlegs framburðar fyrir dómi sem ekki verði endurmetið af Hæstarétti.
Sakfelling og þriggja ára fangelsisdómur yfir bæði Bessa og Ásbirni stendur því óhaggaður.
Dóm Hæstaréttar í heild er hægt að nálgast hér.