fbpx
Fimmtudagur 06.nóvember 2025
Fréttir

Catalina hafði ekki erindi sem erfiði – Taldi Happdrætti Háskólans snuða sig

Jakob Snævar Ólafsson
Fimmtudaginn 6. nóvember 2025 17:33

Mynd: Skjáskot/Já.is

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur sýknað Happdrætti Háskóla Íslands af kröfum fyrirtækisins Catalina sem rekur samnefndan veitinga- og skemmtistað í Kópavogi. Taldi fyrirtækið Happdrættið hafa mismunað sér við greiðslu samningsbundins endurgjalds vegna rekstrar happdrættisvéla á staðnum og krafðist um 47 milljóna króna ásamt vöxtum.

Vélarnar ganga undir heitunum Gullnáman og Gullregn og eru í eigu Happdrættis Háskólans. Samningur málsaðila er frá því í febrúar 2018 og þar kemur fram að Happdrættið skuli greiða Catalinu þóknun fyrir umsjón og rekstur vélanna. Þóknunin nemi 1,6 prósent af reiknaðri brúttóveltu. Deilan milli aðila snerist einna helst um hvort þóknunin ætti í reynd að vera hærri og nema 2 prósent af brúttóveltu, þar sem samið hafi verið um það hlutfall við aðra rekstraraðila happdrættisvélanna.

Samningur var gerður milli fyrirtækisins og Happdrættisins um rekstur vélanna fyrst árið 1997 en árið 2018 tóku nýir aðilar við rekstri Catalinu. Í þeim samningi var samið um 2 prósent þóknun af brúttóveltu.

Í kjölfarið sagði Happdrættið samningnum upp þar sem vilji var til þess að semja beint við nýju rekstraraðilana og í kjölfarið var gerður nýr samningur þar sem samið var um að þóknun Catalinu yrði 1,6 prósent af brúttóveltu.

Fram kemur í dómnum að alls séu í gildi 22 samningar milli Happdrættis Háskólans og mismunandi aðila um rekstur á happdrættisvélum. Í 20 af þeim sé þóknun rekstraraðila 1,6 prósent af brúttóveltu en í tveimur þeirra sé hún 2 prósent þessir tveir samningar eru frá 2006 og 2010.

Jafnræði

Fram kemur í dómnum að árið 2020 hafi Catalina leitað skýringa á því hvers vegna þóknun fyrirtækisins væri lægri en í öðrum sambærilegum samningum. Happdrættið neitaði að afhenda þá samninga en sendi bréf með almennum skýringum á því hvers vegna mismikil þóknun væri ti staðar. Boðin hafi verið hærri þóknun á sínum tíma m.a. vegna óvissu um framhald reksturs vélanna. Þegar vissan hafi orðið meiri hafi verið leitast við að lækka þóknun rekstraraðila og samræma hana.

Árið 2022 krafðist Catalina afhendingar allra samninganna. Happdrættið hafnaði því en var gert af úrskurðarnefnd um upplýsingamál að afhenda þá. Á síðasta ári krafðist fyrirtækið bóta vegna þess að það hefði fengið lægri þóknun en aðrir rekstraraðilar vélanna. Þeirri kröfu hafnaði Happdrættið og höfðaði þá Catalina mál.

Í sínum rökstuðningi vísaði Catalina meðal annars til þess að Happdrætti Háskólans sé með einkaleyfi til rekstrar á happdrættisvélum og sé því í yfirburðastöðu á þeim markaði. Fyrirtækið hafi því í raun verið knúið til að semja við Happdrættið vildi það hafa slíkar vélar á staðnum. Vísaði fyrirtækið einnig til jafnræðisreglu stjórnsýslulaga og stjórnarskrárinnar.

Engin þvingun

Í sínum andsvörum benti Happdrætti Háskólans á að rekstraraðilar Catalinu hafi gert umræddan samning af fúsum og frjálsum vilja og sé hann uppsegjanlegur. Að því leyti sem talið verði að almennar reglur stjórnsýsluréttar taki til samningsgerðar opinberra aðila nái þær ekki til ákvörðunar um verð í einstökum samningum um þjónustu eða kaup sem veitt séu á frjálsum markaði. Það er mat Happdrættisins að ekki séu viðskiptalegar forsendur til þess að greiða hærri þóknun til Catalinu en sem nemi 1,6 prósent af brúttóveltu, enda geti það við núverandi markaðsaðstæður fengið sömu eða sambærilega þjónustu hjá öðrum fyrir þá þóknun.

Vildi Happdrættið þó meina að það væri ekki stjórnvald og því ætti jafnræðisregla stjórnsýsluréttar ekki við um það. Vildi það einnig meina að það væri ekkert óeðlilegt að þóknun rekstraraðila væri mismunandi. Það sé skylda þess að ná sem hagstæðustum samningum og þar með sé því fyllilega heimilt að greiða mismunandi þóknanir til rekstraraðila happdrættisvéla. Um hafi verið að ræða einkaréttarlegan samning án þvingunar og á viðskiptalegum forsendum.

Í niðurstöðu Héraðsdóms Reykjavíkur segir meðal annars að samkvæmt lögum og reglugerðum um Happdrætti Háskóla Íslands sé hlutverk þess eingöngu að reka happdrætti og ágóði þess renni til skólans. Það hafi því ekkert að gera með ákvarðanir um réttindi og skyldur fólks í krafti opinbers valds. Það sé heldur ekki rekið fyrir opinbert fé heldur eingöngu með eigin tekjum. Það sé því eðlisólíkt flestum aðilum sem teljist til stjórnvalda en sé formlega séð stjórnvald þar sem stofnað hafi verið til þess með lögum og reglugerðum.

Einka

Dómurinn segir ljóst að einkaréttarlegir samningar falli ekki undir stjórnsýslulög. Samningur málsaðila sé þess eðlis og jafnræðisregla stjórnsýslulaga eigi ekki við um slíka samninga. Þó hafi happdrættið verið bundið við gerð samningsins af meginreglum stjórnsýsluréttar um meðal annars jafnræði. Dómurinn vill hins vegar meina að þar sem allir samningar happdrættisins við rekstraraðila vélanna kveði á um 1,6 prósent þóknun nema tveir, frá 2006 og 2010, þar sem þóknunin sé 2 prósent sé ekki hægt að fallast að á að Happdrættið hafi brotið gegn jafnræðisreglu með umræddum samningi við Catalinu.

Játa verði einnig stjórnvöldum nokkurt svigrúm við töku ákvarðana sem snúi að einkaréttarlegum málefnum er lúti að starfsemi þeirra. Málefnaleg sjónarmið hafi búið að baki því að happdrættið hefði frá árinu 2011 samið við 20 mismunandi aðila um 1,6 prósent þóknun af brúttóveltu.

Happdrætti Háskóla Íslands var því sýknað af kröfu Catalinu.

Dóminn í heild er hægt að nálgast hér.

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 15 klukkutímum

Starfsmaður ríkissaksóknara sakaður um húsbrot, eignaspjöll og þjófnað

Starfsmaður ríkissaksóknara sakaður um húsbrot, eignaspjöll og þjófnað
Fréttir
Í gær

„Við sigldum í burtu, en fórum aldrei frá Flateyri“

„Við sigldum í burtu, en fórum aldrei frá Flateyri“
Fréttir
Í gær

Sesselja varar sterklega við hugsanlegum breytingum – Það væri synd og skömm að fella niður jafn mikilvæga starfsstétt“

Sesselja varar sterklega við hugsanlegum breytingum – Það væri synd og skömm að fella niður jafn mikilvæga starfsstétt“
Fréttir
Í gær

Eltihrellir Lilju endaði á að drepa ættingja sinn: „Að fá það í fangið var mikið sjokk“

Eltihrellir Lilju endaði á að drepa ættingja sinn: „Að fá það í fangið var mikið sjokk“