fbpx
Fimmtudagur 09.október 2025
Fréttir

Keypti hund dýrum dómum en á að fá hann endurgreiddan – Reyndist vera „gallaður“

Jakob Snævar Ólafsson
Fimmtudaginn 9. október 2025 17:00

Myndin er úr safni og tengist fréttinni ekki beint.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Kærunefnd vöru- og þjónustukaupa hefur samþykkt kröfu ónefndrar konu, sem borgaði ónefndum hundaræktendum á fjórða hundrað þúsund krónur, fyrir hund. Vildi konan meina að hundurinn hefði verið haldin galla sem fólst aðallega í því hann var ekki húsvanur eins og hundaræktendurnir sem seldu henni hundinn hefðu haldið fram. Sagði konan einnig að hundurinn hefði verið taugaveiklaður og mannýgur.

Auk endurgreiðslu krafðist konan dráttarvaxta.

Ekki kemur fram í úrskurði nefndarinnar af hvaða tegund hundurinn er. Konan greiddi 380.000 krónur fyrir hundinn en hún fékk hann afhentan í október 2023. Hafði konan áður átt hund af sömu tegund en misst hann. Ræktendur buðu henni eins árs gamlan hund en konan sagði þá hafa fullyrt að hundurinn væri húsvanur. Fljótlega hafi þó komið í ljós að svo væri ekki. Hundurinn hafi sýnt merki um mikla taugaveiklun en konan fullyrti að hún hefði veitt honum næga útivist, athygli og umhyggju, en hundurinn hafi engu að síður sýnt árásarhegðun, verið mjög taugaveiklaður og gelt mikið.

Vika

Um viku eftir að hún fékk hundinn afhentan óskaði konan eftir því að fá að skila honum á þeim grundvelli að hann væri haldinn galla. Hefði hún leitað til hundaþjálfara sem hefði ekki talið mögulegt að ráða bót á vanda hundsins. Mánuður leið og ítrekaði konan kröfu sína og vildi fá annan hund af sömu tegund í staðinn eða endurgreitt. Hún setti sömu kröfu fram tvisvar í viðbót en í febrúar 2024 sótti maður á vegum hundaræktendanna hundinn en enginn endurgreiðsla barst. Sagði konan að áður en að þessu kom hefði hundurinn ítrekað bitið eiginmann hennar. Að tveimur mánuðum liðnum hafi síðan hundaræktendurnir auglýst hunda af þessari sömu tegund til sölu en hafi áður tjáð henni að ekkert got væri fyrirsjáanlegt á næstunni.

Konan taldi að ákvæði í kaupsamningi um að hvolpi mætti skila til ræktenda án endurgjalds ætti ekki við í þessu tilviki, þar sem það ákvæði tæki til óviðráðanlegra aðstæðna hjá kaupanda. Hér hafi hins vegar verið um að ræða galla á hundinum sjálfum. Sóknaraðili sagði að ef ræktendurnir hefðu upplýst um hegðun hundsins hefði hún ekki keypt hann, enda hafi meginástæðan fyrir kaupunum verið að hundurinn væri húsvanur.

Skjáskot

Í niðurstöðu kærunefndar vöru- og þjónustukaupa kemur fram að konan hafi leitað til hundaþjálfarans að tillögu hundaræktendanna en þjálfarinn talið litla von um að hundurinn myndi aðlagast að heimilinu. Tjáði konan þá ræktendunum að hundurinn væri hræddur, sýndi árásarhegðun og hefði neikvæð áhrif á heimilislífið. Hún taldi hundinum fyrir bestu að vera ekki áfram á heimilinu og óskaði eftir að fá að skila honum og fá í staðinn hvolp úr næsta goti eða endurgreiðslu kaupverðs. Hundurinn var loks sóttur og þá fullyrtu ræktendur að ekkert got væri fyrirsjáanlegt. Konan lagði hins vegar skjáskot fyrir nefndina frá því mánuði eftir að þessi samskipti áttu sér stað en á skjáskotinu mátti sjá auglýsingu á hvolpi úr goti ræktendanna.

Nefndin bendir á að engin skrifleg samskipti liggi fyrir í málinu og engin lýsing sé á hundinum í kaupsamningi. Konan fullyrði hins vegar að ræktendurnir hafi fullvissað sig um að hundurinn væri húsvanur og hún í trausti þess keypt hundinn, en hann hafi svo ekki reynst vera það. Ræktendurnir hafi ekki komið neinum andmælum á framfæri og því verði að byggja niðurstöðuna á fullyrðingum konunnar. Þá verði einnig að líta til þess að hundurinn hafi verið eins árs við kaupin og að leitað hafi verið til hundaþjálfara. Nefndin telur því að hundurinn hafi ekki verið gæddur þeim eiginleikum sem konan hafi mátt vænta miðað við aldur hans og fullyrðingar hundaræktendanna.

Endurgreiðsla

Segir nefndin að með því að taka aftur við hundinum hafi hundaræktendurnir viðurkennt að konan hefði rétt á að skila honum og rifta kaupunum. Ákvæði í kaupsamningnum um að ræktendur megi taka aftur við hundinum án þess að endurgreiða hann eigi ekki við í þessu tilviki þar sem um sé að ræða vandamál tengd hundinum en ekki persónulegum aðstæðum konunnar. Nefndin segir því að hundaræktendunum beri skylda til að endurgreiða konunni þær 380.000 krónur sem hún greiddi fyrir hundinn, auk dráttarvaxta.

Hundaræktendurnir þurfa því að endurgreiða konunni, með dráttarvöxtum, en þeir hafa hins vegar heimild til að tilkynna nefndinni innan 30 daga, frá tilkynningu til þeirra um úrskurðinn, að þeir muni ekki una niðurstöðunni. Geri þeir það ekki verður úrskurðurinn bindandi og aðfararhæfur, sendi þeir hins vegar slíka tilkynningu verða nöfn þeirra birt á þar til gerðri skrá á heimasíðu nefndarinnar um þá seljendur sem una ekki úrskurðum hennar. Aðilar málsins geta einnig skotið því til dómstóla.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 2 dögum

Stjórnarandstaðan gríðarlega óvinsæl hjá flestum hópum – Ríkisstjórnin nýtur aukinna vinsælda

Stjórnarandstaðan gríðarlega óvinsæl hjá flestum hópum – Ríkisstjórnin nýtur aukinna vinsælda
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Aðalheiður kærði ofbeldi leigubílstjóra hjá Hreyfli – Fyrirtækið aðhafðist ekkert í 834 daga og þolendum fjölgaði

Aðalheiður kærði ofbeldi leigubílstjóra hjá Hreyfli – Fyrirtækið aðhafðist ekkert í 834 daga og þolendum fjölgaði