fbpx
Þriðjudagur 07.október 2025
Fréttir

Læknir sleppur við áminningu – Kona átti að fá lyf sem hún er með ofnæmi fyrir

Jakob Snævar Ólafsson
Þriðjudaginn 7. október 2025 13:00

Heilbrigðisráðuneytið

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Heilbrigðisráðuneytið hefur orðið við kröfu læknis um að fella niður áminningu, embættis landlæknis, á hendur honum. Læknirinn hafði afhent konu sem hann gerði aðgerð á lyf sem hún er með ofnæmi fyrir, áður en aðgerðin var gerð. Árverkni konunnar var til þess að hún fékk annað lyf. Eftir aðgerðina var konunni hins vegar tilkynnt að fyrrnefnda lyfinu hefði verið ávísað á hana, þrátt fyrir að hún hefði þegar upplýst um ofnæmið. Ráðuneytið segir lækninn hafa vanrækt skyldur sínar en málið sé ekki nógu alvarlegt til að hann verðskuldi áminningu.

Aðgerðin var gerð í september 2021 en konan lagði í maí 2022 fram kvörtun til embættis landlæknis. Í kvörtuninni kom fram að í viðtali fyrir aðgerðina og skömmu fyrir hana hefði konan tilkynnt lækninum og hjúkrunarfræðingi að hún væri með kódeinofnæmi og gæti því ekki fengið slíkum lyfjum ávísað. Eftir aðgerðina hefði henni verið tjáð að hún ætti lyf í lyfjagátt Heilsuveru. Hún hefði sem betur fer átt verkjastillandi lyf heima þar sem í ljós kom að henni hefði verið ávísað Parkódíni, sem fellur undir ofnæmið, og hafi ávísunina enn verið að finna í lyfjagátt þegar kvörtunin barst landlækni.

Í desember 2024 kom embættið að þeirri niðurstöðu að læknirinn hafi gert mistök. Í fyrsta lagi hafi konunni fyrir aðgerðina verið afhent Parkódín til inntöku þrátt fyrir að hún hefði upplýst um ofnæmið. Fékk hún þá annað lyf. Aftur hafi lækninum orðið á mistök þegar hann hefði ávísað Parkódíni á konuna og ekki afturkallað ávísunina þegar konan áréttaði við hann að vegna ofnæmisins gæti hún ekki tekið inn Parkódín.

Seint

Landlæknir gerði einnig alvarlega athugasemd við hversu seint læknirninn svaraði embættinu. Loks fékk læknirinn formlega áminningu í mars á þessu ári en það var niðurstaða landlæknis að hann hefði brotið gegn þremur mismundandi lögum í málinu.

Læknirinn kærði áminninguna til ráðuneytisins. Vísaði hann til þess að Landlæknir hefði ekki kallað til óháðan sérfræðing eins og krafa hefði verið gerð um af hálfu ráðuneytisins í sambærilegum málum.

Vísaði læknirinn sömuleiðis til yfirlýsingar hjúkrunarfræðings sem aðstoðaði hann við aðgerðina en yfirlýsingin rynni stoðum undir framburð hans en að landlæknir hafi ekki tekið mark á henni þar sem hún hefði verið of seint fram komin. Hann sagði ennig að brotið hefði verið gegn andmælarétti hans.

Vildi læknirinn einnig meina að það væri ekki rétt hjá landlækni að sú málsástæða hans að ekki væri hægt að afturkalla lyfjaávísanir í lyfjagátt væri haldlaus. Samkvæmt þeim upplýsingum sem hann hefði aflað sér hefði möguleikinn á því að afturkalla rafræna lyfseðla ekki verið til staðar þegar lyfjagáttin var fyrst tekin í notkun. Slík afturköllun hafi ekki verið möguleg fyrr en árið 2020, en landlæknir hafi ekki lagt fram nein gögn sem sýni fram á það með hvaða hætti embættið kom þeim möguleika á framfæri við notendur kerfisins. Sagði læknirinn loks að málið uppfyllti ekki skilyrði laga um áminningar frá landlækni. Hann hafi ekki gert mistök með útgáfu lyfseðilsins og að landlæknir hefði ekkert gert til að kanna fullyrðingar konunnar um að hún væri með ofnæmi fyrir Parkódíni.

Vissu nóg

Landlæknisembættið taldi í sínum andsvörum sér ekki skylt að leita álits óháðs sérfræðings í málinu. Vildi það einnig meina að læknirinn hefði sjálfur átt að fylgjast með breytingum á lyfjagáttinni enda sé heilbrigðisstarfsfólki skylt samkvæmt lögum að viðhalda þekkingu sinni og tileinka sér nýjungar. Taldi embættið enga ástæðu til að efast um ofnæmi konunnar og minnti einnig á að áminning læknisins næði líka til hirðuleysis hans við skráningu og andvaraleysis í samskiptum við embættið.

Í niðurstöðu heilbrigðisráðuneytisins er tekið undir að embætti landlæknis beri ekki fortakslaus skylda til að afla álits óháðs sérfræðings í öllum málum. Ráðuneytið tekur einnig undir að lækninum hafi borið skylda til að kynna sér nýjungar í lyfjagáttinni. Í leiðbeiningum á Ísland.is komi fram að hægt sé að ógilda lyfseðla í gáttinni og þetta hafi læknirinn átt að kynna sér. Í gögnum málsins sé einnig svar læknisins til embættis landlæknis, frá því í janúar 2023, þar sem fram komi að honum hafi verið ljóst að konan væri með ofnæmi fyrir Parkódíni en hann hafi skrifað út ávísun fyrir lyfinu samkvæmt venju. Með því að ávísa lyfinu hafi hann ekki sinnt skyldu sinni gagnvart öryggi sjúklings síns samkvæmt lyfjalögum.

Ráðuneytið tekur einnig undir með landlækni að yfirlýsingin frá hjúkrunarfræðingnum varpi ekki nýju ljósi á málið og hefði að auki verið dagsett þremur og hálfu ári eftir aðgerðina og því minna marktæk. Þá hafi andmælaréttur læknisins verið virtur enda hafi hann ekki sinnt fjölmörgum tækifærum sem honum hafi verið veitt til að koma andmælum á framfæri.

Aðfinnsluverð

Ráðuneytið segir ljóst að háttsemi læknisins við undirbúning aðgerðarinnar hafi verið aðfinnsluverð og hið sama eigi við um gerð lyfjaávísunar í kjölfar hennar. Honum hafi til að mynda verið skylt að skrá það sem fór úrskeiðis við undirbúning aðgerðarinnar og við ávísun lyfsins enda hefði það getað valdið sjúklingi hans tjóni. Læknirinn hafi sömuleiðis ekki sinnt beiðnum embættis landlæknis um upplýsingar um gögn sem sé einnig aðfinnsluvert. Hann hafi vanrækt starfsskyldur sínar og í ljósi alls þessa hafi verið fullt tilefni til aðgerða gegn honum.

Ráðuneytið telur þó að um sé að ræða háttsemi sem sé þess eðlis að hægt sé að bæta ráð sitt enda kveði lög á um að heimild til að gefa heilbrigðisstarfsmanni tækifæri til þess áður en til áminningar kemur. Þar sem vægari úrræði séu til staðar hafi verið í samræmi við meðalhófsreglu stjórnsýslulaga að beina þeim tilmælum til læknisins að vanda betur til verka við gerð lyfjaávísana og samskipti við landlækni. Málið nái ekki þröskuldi þess að læknirinn verðskuldi áminningu og hún er því felld úr gildi en lagt fyrir embætti landlæknis að beina tilmælum til læknisins um úrbætur.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Úkraínumaður á Íslandi sagður hafa tekið þátt í að svindla á íslenskri konu

Úkraínumaður á Íslandi sagður hafa tekið þátt í að svindla á íslenskri konu
Fréttir
Í gær

Guðmundur saknar verðmæts gítars sem stolið var af heimilinu – „Fór fram og stend þá andspænis þjófnum“

Guðmundur saknar verðmæts gítars sem stolið var af heimilinu – „Fór fram og stend þá andspænis þjófnum“
Fréttir
Í gær

Meghan sökuð um „yfirgengilegt smekkleysi“ nærri staðnum þar sem Díana prinsessa lést

Meghan sökuð um „yfirgengilegt smekkleysi“ nærri staðnum þar sem Díana prinsessa lést
Fréttir
Í gær

Mannýgur íkorni hefur sent tvær konur á spítala og ráðist á aðra þrjá – „Þetta er ekki brandari“

Mannýgur íkorni hefur sent tvær konur á spítala og ráðist á aðra þrjá – „Þetta er ekki brandari“