
Meðal ákvarðana nefndar um eftirlit með lögreglu sem birtar voru nýlega er mál sem snýr að kvörtun sem snýr að lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu. Snerist kvörtunin um húsleit án heimildar og óhóflega valdbeitingu. Héraðssaksóknari komst að þeirri niðurstöðu að það væri rétt hjá þeim sem kvartaði að lögreglan hefði leitað á heimili viðkomandi án heimildar og sú framganga hafi verið ámælisverð en embættið hafnaði því hins vegar að fara með málið fyrir dóm. Nefndin tekur undir með héraðssaksóknara en segir einnig að mjög líklegt sé að í málinu hafi lögreglan ekki beitt valdi sínu og vopnum í samræmi við reglur.
Ákvörðun nefndarinnar í málinu var tekin í ágúst síðastliðnum en ekki birt opinberlega fyrr en nú í þessum mánuði.
Nefndinni barst í nóvember 2024 erindi frá lögmanni þess sem kvartaði. Samkvæmt kvörtuninni var framkvæmd húsleit á heimili hans í september 2024 af lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu. Fram kom í erindinu að húsleitin hefði farið fram án hans samþykkis. Útidyrahurð að heimilinu hafi verið brotin upp af lögreglumönnum sem borið hafi skammbyssur og viðkomandi hafi verið settur umsvifalaust í handjárn á meðan lögreglumennirnir hafi vaðið um íbúðina og rifið allt sundur og saman.
Einnig kom fram í kvörtuninni að lögreglumennirnir hafi að lokum viðurkennt að hafa engan dómsúrskurð eða leitarheimild og að kvartandinn hafi verið fórnarlamb misskilnings. Hafi þeir beðið hann afsökunar á framferði sínu en upplýst jafnframt um að hann mætti eiga von á sekt fyrir fíkniefnalagabrot þar sem örlítið magn af kannabis til einkaneyslu hafi fundist við húsleitina.
Þá voru í kvörtuninni einnig gerðar athugasemdir við að lögreglan hafi ekki borið búkmyndavélar við aðgerðina en samkvæmt svörum embættisins til lögmannsins komi fram að engar upptökur væru til í málinu. Það segir hins vegar í ákvörðun nefndarinnar að síðar hafi þó komið í ljós að um ranga upplýsingagjöf til kvartanda hafi verið að ræða og að upptökur úr búkmyndavélum væru til og hafi þær borist nefndinni.
Nefndin sendi embætti lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu erindi vegna málsins. Því var svarað í janúar síðastliðnum og þar kom fram að málið hefði verið sent til meðferðar hjá héraðssaksóknara. Síðar í sama mánuði sendi embætti héraðssaksóknara nefndinni tilkynningu þar sem fram kom að borist hefði kæra og rannsókn stæði yfir vegna ábendingar um hugsanlega refsiverða háttsemi tveggja lögreglumanna hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu við handtöku og húsleit, í tengslum við málið.
Meðfylgjandi voru skjalleg gögn málsins ásamt upptökum úr búkmyndavélum lögreglumanna á vettvangi. Nefndinni barst síðan tilkynning um lok máls frá héraðssaksóknara í apríl 2025 þar sem fram kom að málið hafi verið fellt niður.
Segir síðan í ákvörðun nefndarinnar að með tölvupósti sama dag hafi embætti héraðssaksóknara vakið athygli hennar á vinnubrögðum lögreglumanna í umrætt sinn og að þrátt fyrir að háttsemin hafi ekki verið líkleg til sakfellis, hafi ákvörðunartaka varðstjóra um innför á heimilið virst byggja á mjög takmörkuðum upplýsingum og óvissu eða misskilnings virst gæta hjá lögreglumönnunum um heimildir til leitar án samþykkis eða dómsúrskurðar.
Lögmaður kvartandans óskaði eftir rökstuðningi fyrir niðurfellingu málsins en þar kom fram , samkvæmt ákvörðun nefndarinnar, að héraðssaksóknari telji það ámælisvert að lögreglumenn hafi í umrætt sinn ekki leitað eftir ótvíræðu samþykki umbjóðanda hans með undirritun á þar til gert eyðublað áður en leit þeirra hófst.
Niðurfelling málsins var kærð til ríkissaksóknara sem staðfesti niðurstöðu héraðssaksóknara.
Nefnd um eftirlit með lögreglu segir í sinni niðurstöðu að með hliðsjón af lýsingu á málsatvikum í kvörtuninni og þeim gögnum sem nefndin hafi undir höndum, telji hún að uppi séu vísbendingar um mögulega ámælisverða háttsemi starfsmanna lögreglu þar sem farið hafi verið í húsleit án þess að ótvírætt samþykki umráðamanns fasteignarinnar lægi fyrir.
Nefndin segist einnig telja, á grundvelli fyrirliggjandi gagna, að skilyrði laga um húsleit án dómsúrskurðar hafi ekki verið uppfyllt í málinu. Þá telji nefndin verulegan vafa leika á um hvort skilyrði reglna um valdbeitingu lögreglumanna og meðferð og notkun valdbeitingartækja og vopna hafi verið uppfyllt.
Er það ákvörðun nefndarinnar að senda málið til þóknanlegrar meðferðar hjá lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu.