

Auðug kona keyrði niður mann á fyrsta stefnumóti – Kenndi rándýrum hælaskónum um
Rík kona í Texas hefur verið ákærð fyrir manndráp af gáleysi fyrir að keyra niður mann sem var á fyrsta stefnumóti. Hún kennir hins vegar dýrum hælaskóm sínum um slysið.
Tímaritið People greinir frá þessu.
Kristina Chambers, 34 ára gömul kona frá Texas, er sökuð um að hafa keyrt niður hinn 33 ára Joseph McMullin þegar hann var á leið út af kleinuhringjastað í Houston borg ásamt dömu þann 19. apríl árið 2023. Parið var á sínu fyrsta stefnumóti.
Í lögregluskýrslu kemur fram að Chambers, sem var á bláum Porsche 911 Carrera, hafi verið á 113 km/klst hraða á leið vestur fram hjá kleinuhringjabúðinni Voodoo Doughnut þegar hún hafi keyrt upp á kant og misst stjórn á bifreiðinni.
Endaði bíllinn upp á gangstéttinni þar sem hinn óheppni McMullin stóð, og var hann keyrður niður áður en bíllinn endaði á götuljósi.
McMullin kastaðist um tíu metra í burtu. Þegar sjúkralið kom á staðinn var hann látinn. „Hann var góður gaur sem var tekinn allt of snemma,“ sagði Briana Iturrino, daman sem McMullin var með á stefnumótinu, við sjónvarpsstöðina Fox.
Chambers og tveir farþegar í bílnum hennar voru fluttir á sjúkrahús með áverka. Bíllinn sjálfur fór í mask og varð fyrir altjóni.

Chambers var mæld og í ljós kom að hún var með talsvert magn af áfengi í blóðinu. Var hún því handtekin og ákærð fyrir manndráp af gáleysi. Hún neitaði hins vegar sök í málinu.
Réttarhöldin yfir Chambers hófust þann 16. október. Í málinu kom fram að auk áfengisins hafi fundist pokar með kókaíni í bílnum og í veski hennar.
Saksóknarinn, Andrew Figliuzzi, sagði að Chambers hefði borðað á veitingastað í Houston og svo farið á þrjá bari áður en hún olli ákeyrslunni á McMullin. Hafi hún drukkið að minnsta kosti sex drykki og notað kókaín þetta kvöld. Áfengismagnið í blóðinu hafi verið 0,301, það er fjórum sinnum leyfilegt magn. En Chambers var mæld um klukkustund eftir slysið.
Þá hafi hún einnig verið að monta sig af nýja Porsche bílnum sínum við farþega sína. Hún hafi gefið í til að sína hvað hann kæmist hratt.
Verjandi Chambers, Mark Thiessen, sagði hins vegar að um ótrúlegt og stórfurðulegt slys hafi verið að ræða. Ekki gáleysi.
Sagði Thiessen að Chambers hefði fest hælinn á rándýrum hælaskóm sínum, af gerðinni Christian Louboutin, í bensíngjöf bílsins og því hafi hún ekki geta hægt á sér.
Þá hafi aðstæðurnar á svæðinu einnig verið mjög varhugaverðar. „Þetta er ein af hættulegustu beygjum Houston borgar,“ sagði Thiessen.
Verði Chambers fundin sek gæti hún átt 2 til 20 ára fangelsisdóm yfir höfði sér. Þar að auki hefur fjölskylda McMullin gert einkaréttarkröfu upp á 1 milljón dollara, eða 122 milljónir íslenskra króna, á hendur henni.