fbpx
Fimmtudagur 23.október 2025
Fréttir

Fjaðrafok út af heimsókn Kristins til Norður-Kóreu: „Þetta er nú meiri dellan“

Ritstjórn DV
Fimmtudaginn 23. október 2025 16:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Fréttir af heimsókn Kristins Hannessonar, frambjóðanda Sósíalistaflokksins í Alþingiskosningunum á síðasta ári, til Norður-Kóreu á dögunum hafa vakið talsverða athygli.

Mbl.is sagði frá því í gær að Kristinn, sem er varaformaður vináttufélags Íslands og Norður-Kóreu, hefði heimsótt landið á dögunum í tilefni af 80 ára afmæli Verkamannaflokksins þar í landi. Hann skipaði fimmta sætið á framboðslista Sósíalistaflokksins í Norðausturkjördæmi fyrir síðustu kosningar. Norður-Kórea er eitt einangraðasta ríki heims, þar ríkir einræði og hefur sama fjölskyldan farið með völd þar frá stofnun árið 1948.

Mannréttindasamtök á borð við Amnesty International og Human Rights Watch hafa ítrekað bent á slæma stöðu mannréttinda í landinu.

Formaðurinn öfundssjúkur

Í frétt mbl.is kom fram að samflokksmenn Kristins í Sósíalistaflokknum hefðu fagnað heimsókn hans. „Holy Hafnarfjörður. Til hamingju! Ég er mjög öfundsjúkur,“ sagði til dæmis Sæþór Benjamín Randalsson sem tók við sem formaður framkvæmdastjórnar hjá Sósíalistaflokknum í sumar.

Egill Helgason, fjölmiðlamaður og samfélagsrýnir, gerði frétt mbl.is að umtalsefni á Facebook-síðu sinni og klóraði sér í kollinum.

„Þetta er nú meiri dellan. Heimsókn til Norður-Kóreu og flokksfélagar eru hrifnir. Norður-Kórea er raun einvaldsríki þar sem sama fjölskyldan ríkir mann fram af manni og hefur völd yfir lífi og limum allra landsmanna. Eitt tækið til að halda völdum er að einangra þjóðina alveg frá umheiminum. Í þeim skilningi er Norður-Kórea mjög „fullvalda“.”

Fleiri tóku í svipaðan streng: „Ótrúlegt alveg,“ sagði Illugi Jökulsson.

„Mikil lífsgæðaaukning“ í Norður-Kóreu

Jökull Sólberg Auðunsson, félagi í Sósíalistaflokknum og frambjóðandi í síðustu þingkosningum, segir að Sósíalistar ætli ekki að einangra Ísland frá umheiminum. „Þvert á móti efla samskipti við önnur ríki þar sem er mesta nýsköpunin og lífsgæðaaukningin er í dag,“ segir Jökull sem tekur svo fram á öðrum stað undir færslunni að „mikil lífsgæðaaukning“ eigi sér stað í Norður-Kóreu.

Karl Héðinn Kristjánsson, fyrrverandi formaður unglingahreyfingar Sósíalistaflokksins, blandar sér einnig í umræðuna við færslu Egils og segir ekkert vera að því að heimsækja Norður-Kóreu.

Kristinn hafi ekki verið á vegum flokksins og hafi ferðafrelsi eins og hver annar Íslendingur. „Nær væri fyrir okkur að hneykslast á meðvirkni stjórnvalda með síónistunum og Bandaríkjamönnum,“ segir hann en tekur fram að auðvitað sé Norður-Kórea ekki fyrirmyndarríki.

Gunnar Smári með skot

Gunnar Smári Egilsson, fyrrverandi formaður framkvæmdastjórnar Sósíalistaflokksins, sá sér leik á borði og gerði frétt mbl.is að umtalsefni í Facebook-hópnum Rauði þráðurinn, umræðuvettvangi um sósíalisma. „Þetta eru tíðindin sem berast frá Sósíalistaflokknum frá aðalfundi, í bland við annað jafn hlægilegt og enn hryggilegra.”

Þá sagði Sveinn Waage, markaðsstjóri og fyrrverandi fyndnasti maður Íslands, á sinni Facebook-síðu: „Nei sko!! Er ultra-vinstrið á Íslandi að taka fram úr ultra-hægrinu í forheimskunni? Stappar nærri sturlun much? Sameining í kortunum?“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt