Enn var deilt á fundi bæjarstjórnar Hafnarfjarðar í gær um húsnæðismál Félags eldri borgara í bænum. Leigusamningi vegna húsnæðis við Flatahraun sem félagið hefur haft til afnota í um aldarfjórðung hefur verið sagt upp. Bæjarstjóri ræddi það hins vegar á fundinum að ákveðið hefði verið að einblína á að félagið verði enn um sinn á sama stað en lögfræðingar bæjarins vilji meina að uppsagnarfrestur samningsins eigi að vera mun lengri en áður var talið.
DV hefur fjallað nokkuð um málið en það snýst í megin atriðum um að fyrir um ári voru bæjaryfirvöld upplýst um að til stæði af hálfu eiganda húsnæðisins, Verkalýðsfélagsins Hlífar, að segja leigusamningnum upp en bærinn hefur haft húsnæðið á leigu fyrir Félag eldri borgara. Stjórn félagsins var þó ekki upplýst um áformin fyrr en í upphafi nýliðins sumars. Þegar minnihluti bæjarstjórnar gagnrýndi það þá svaraði meirhlutinn því þannig að Verkalýðsfélagið Hlíf hafi ekki sagt samningnum formlega upp fyrr en nú í september síðastliðnum.
Uppnám í Hafnarfirði – Félagi eldri borgara úthýst um næstu áramót
Skipaður var starfshópur bæjarins, Félags eldri borgara og Öldungaráðs sem ætlað var að finna nýtt húsnæði fyrir félagið. Eitthvað hefur verið rætt um að félagið myndi flytja inn í húsnæði við Strandgötu sem nú hýsir bókasafn Hafnarfjarðar en það á að flytja yfir í verslunarmiðstöðina Fjörð. Húsnæðið er þó til sölu og meirihlutinn hafnaði tillögu minnihlutans um að taka það af söluskrá á meðan kannað væri til hlítar hvort það hentaði fyrir starfsemi Félags eldri borgara. Meirihlutinn sakaði einnig Hlíf um að eiga í einhvers konar samsæri með Guðmundi Árna Stefánsson oddvita Samfylkingarinnar, sem er í minnihluta, um að nýta málið til að koma höggi á meirihlutann. Því vísðu báðir aðilar alfarið á bug.
Þegar Guðmundur Árni spurði út í stöðu málsins á bæjarstjórnarfundi í gær sagði Valdimar Víðisson bæjarstjóri og oddviti Framsóknarflokksins meðal annars að nú lægi fyrir lögfræðiálit frá Hafnarfjarðarbæ sem fylgt hefði opinberri fundargerð en greindi þó ekki frá um hvaða nefnd eða ráð væri að ræða. Í því áliti kæmi fram að uppsögn samningsins ætti ekki að taka gildi fyrr en 31. janúar árið 2028 en þegar málið var fyrst rætt í bæjarstjórn í síðasta mánuði kom fram að uppsögnin ætti að taka gildi um næstu áramót. Sagði Valdimar að samningnum þyrfti að segja upp fyrir júlí 2027. Sagði hann að samskipti hefðu átt sér stað á þessum forsendum við Hlíf. Vilji forsvarsmanna Félags eldri borgara stæði til þess að á þetta yrði látið reyna. Starfshópurinn hefði ákveðið að horfa til þess að félagið yrði áfram í húsnæðinu við Flatahraun.
Einnig virðist hafa verið nefnt að uppsögnin eigi að taka í fyrsta lagi gildi í júlí 2026 en Guðmundur Árni sagði að hvort sem það væri rétt eða samningurinn ætti að gilda til 2028 að þá yrði eftir sem áður að finna lausn til lengri framtíðar en það.
Valdimar kom síðan aftur í ræðustól og ítrekaði að starfshópurinn væri að einblína á að félagið yrði áfram í Flatahrauni og engir aðrir kostir væru til skoðunar. Það væri góð lending sem tryggði öryggi í félagsstarfinu.
Stefán Már Gunnlaugsson bæjarfulltrúi Samfylkingarinnar vildi meina að greinilega væri hér um lögfræðilegt álitaefni að ræða en hvernig sem það færi væri staðan sú að leigusamningnum hefði verið sagt upp.
Vildi Valdimar meina að samkvæmt lögfræðingum bæjarins væri uppsagnarfresturinn tvö ár. Segja hefði átt samningnum upp fyrir júlí á þessu ári en þar sem uppsögnin hefði ekki borist fyrr en í september hefði samningurinn framlengst sjálfkrafa um tvö ár. Það væri því hægt að segja samningnum í fyrsta lagi upp í júlí 2027 og þá væri uppsagnarfrestur sex mánuðir.
Stefán spurði þá Valdimar hvort Verkalýðsfélagið Hlíf liti þetta sömu augum. Því svaraði Valdimar ekki og gerði Guðmundur Árni athugasemd við það og sagði að ef túlkun bæjarins væri rétt væri þetta samt ekki varanleg lausn. Best væri að leysa málið áður en farið væri í hart.
Árni Rúnar Þorvaldsson flokksfélagi Guðmundar Árna tók undir það og sagði að væntanlega muni Hlíf andmæla lagatúlkun bæjarins. Spurði hann Valdimar hvort að ekki yrði fundin lausn á húsnæðismálum Félags eldri borgara til lengri tíma en næstu tveggja ára. Bæjarstjórinn vísaði til áætlana um húsnæðisuppbyggingu í bænum meðal annars fyrir eldri borgara og þá yrði skoðað hvort húsnæðismál félagsins yrðu hluti af því. Líklega yrði farin sú leið að félaginu yrði komið fyrir á fleiri stöðum en bara einum, enda færi eldri borgurum fjölgandi. Þegar niðurstaða væri fengin um hvort húsnæðið í Flatahrauni yrði tryggt til næstu tveggja ára myndi starfshópurinn ræða lausnir til lengri framtíðar. Árni sagði orð bæjarstjórans of óljós en Valdimar vísaði þá til þess að húsnæði væri í byggingu í Hamranesi sem yrði líklega nýtt fyrir félagsstarf eldri borgara þegar það yrði tekið í notkun 2027 og frekari uppbygging væri í skoðun.
Loks flutti meirihlutinn bókun þar sem lögð var áhersla á að Félag eldri borgara yrði áfram í húsnæðinu að Flatahrauni en unnið yrði með félaginu að lausn til framtíðar. Var það svar við bókun Samfylkingarinnar sem lýsti yfir vonbrigðum með það sem bæjarfulltrúarnir sögðu úrræðaleysi meirihlutans.
Það virðist því óljóst hvort að Hlíf muni samþykkja þá lagatúlkun bæjarins að það geti ekki sagt leigusamningnum upp fyrr en í júlí 2027. Málið virðist því enn í hnút eftir þessar nýjustu vendingar.