Tvö ný afbrigði veirunnar, sem fengið hafa viðurnefnin Stratus og Nimbus, hafa látið á sér kræla á Bretlandseyjum það sem af er hausti og hefur fjöldi smita tvöfaldast síðan í ágúst.
Bresk heilbrigðisyfirvöld hafa í ljósi þessa sett af bólusetningarátak fyrir veturinn og hafa milljónir landsmanna verið hvattir til að mæta í COVID- og inflúensusprautur þar sem innlögum á spítala er farið að fjölga.
Breska sóttvarnarstofnunin (UKHSA) segir að jákvæðum prófum hefði fjölgað úr 7,6 prósentum í 8,4% á einni viku á meðan innlögum fjölgaði úr 2,0 í 2,73 á hverja 100 þúsund íbúa á sama tíma.
Nýju afbrigðin virðast bera með sér nokkuð dæmigerð einkenni en líka ódæmigerð einkenni eins og Dr. Aaron Glatt, bandarískur sérfræðingur í smitsjúkdómum, lýsti í samtali við Today.com.
„Sjúklingar hafa kvartað undan mjög miklum sársauka í hálsinum – eins og hálsinn væri þakinn rakvélablöðum,“ segir hann. „Þó þetta sé ekki eitt af dæmigerðum einkennum Covid-19 hefur þessi lýsing verið notuð af sumum þeirra sem smitast hafa af nýjustu afbrigðunum,“ segir hann.
Nýju afbrigðin hafa einnig valdið kunnuglegri Covid-einkennum eins og hita, höfuðverk, hósta og nefrennsli.
Sérfræðingar leggja þó áherslu á að afbrigðin sé á engan hátt hættulegri en fyrri afbrigði. Veiran hafi tekið breytingum í gegnum árin og eigi auðveldara með að dreifa sér á milli fólks.