fbpx
Fimmtudagur 02.október 2025
Fréttir

Lýsa yfir miklum áhyggjum af styttingu tímabils atvinnuleysisbóta – Muni bitna harkalega á sveitarfélögunum

Jakob Snævar Ólafsson
Fimmtudaginn 2. október 2025 18:30

Inga Sæland félags- og húsnæðismálaráðherra ætlar að stytta hámarkslengd þess tímabils sem hægt er að fá greiddar atvinnuleysisbætur.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Allir fulltrúar í velferðarráði Reykjavíkur lýsa yfir töluverðum áhyggjum af áformum Ingu Sæland félags- og húsnæðismálaráðherra um að leggja fram á Alþingi frumvarp til breytinga á lögum um atvinnuleysistryggingar en fram hefur komið að stefnt sé að því að frumvarpið feli í sér að hámarkslengd tímabils sem atvinnuleysistryggingar eru greiddar verði stytt úr 30 mánuðum í 18. Borgarfulltrúarnir segja ljóst að verði áformin að veruleika muni fjárhagur sveitarfélaganna í landinu óhjákvæmilega verða fyrir höggi og við þessu þurfi að bregðast.

Málið var rætt á fundi velferðarráðs í gær og allir fulltrúar í ráðinu lögðu fram sameiginlega bókun þar sem lýst var yfir áhyggjum af þessum fyrirhuguðu breytingum. Óskar ráðið eftir því að fulltrúar félags- og húsnæðismálaráðuneytisins komi inn á fund velferðarráðs og kynni ráðinu fyrirhugaðar breytingar og þau virkni- og endurhæfingarúrræði sem setja á á laggirnar samhliða þessum breytingum. Tekið hefur verið  fram að samhliða styttingu hámarkslengdar tímabils atvinnuleysisbóta eigi að efla slík úrræði til handa þeim sem glíma við langtímaatvinnuleysi.

Fulltrúar meiri- og minnihlutans í ráðinu lögðu síðan hvorir fram sína bókun.

Stuðningur og mat

Í bókun fulltrúa Samfylkingarinnar, Pírata og Sósíalista segir að mikilvægt sé að styðja við þau sem séu án atvinnu og tryggja að viðeigandi stuðningur sé til staðar. Hvað varði fyrirhugaðar breytingar á lögum um atvinnuleysistryggingar þá telji Reykjavíkurborg ljóst að áformin muni fyrirsjáanlega hafa fjárhagsleg áhrif á sveitarfélög og er þá vísað í umsögn borgarinnar um áformin. Segir enn fremur í bókuninni að  stytting bótatímabils og breytingar á skilyrðum séu líkleg til að leiða til þess að fleiri leiti stuðnings sveitarfélaga í formi fjárhagsaðstoðar. Ráðherra sé skylt samkvæmt sveitarstjórnarlögum að hlutast til um að fjárhagslegt mat á áformunum fari fram. Leiði slíkt mat í ljós kostnaðarauka fyrir sveitarfélögin þurfi að tryggja sveitarfélögunum aukna tekjustofna til þess að standa undir honum. Það þurfi að koma fram með skýrari hætti hvernig eigi að grípa fólk fyrr sem þurfi á stuðningi á að halda.

Í bókun fulltrúa minnihlutans, úr Sjálfstæðisflokknum og Framsóknarflokknum, segir að þessi fyrirhugaða stytting tímabils greiðslu atvinnuleysisbóta sé til þess fallin að skerða fjárhagslega hagsmuni sveitarfélaga, þar á meðal Reykjavíkurborgar. Mikilvægt sé að borgin sinni hagsmunagæslu í þessu máli af fullum þunga. Það sama eigi Samband íslenskra sveitarfélaga að gera. Þegar drög að lagafrumvarpi um þetta efni liggi fyrir þurfi að virkja samtakamátt sveitarfélaga og tryggja að ríkið sé ekki enn og aftur að velta kostnaði yfir á sveitarfélögin án þess að fé fylgi.

Með fundargerðinni fylgir umsögn borgarinnar um áformin en hún er tekin saman af Rannveigu Einarsdóttur sviðsstjóra Velferðarsviðs. Í umsögninni kemur meðal annars fram að mögulegur kostnaðarauki borgarinnar vegna þeirra sem detti út af atvinnuleysisbótum eftir 18 mánuði fari eftir hlutfalli þeirra, af þessum hópi, sem uppfylli skilyrði fjárhagsaðstoðar. Nái það hlutfall 60 prósent gæti kostnaðurinn borgarinnar vegna fjárhagsaðstoðar hækkað um 450 milljónir króna en verði hlutfallið hærra hækki kostnaðurinn enn meira.

Fleiri liðir

Segir einnig í umsögninni að annar hluti áformanna sem kynntur hafi verið, um að herða lágmarksskilyrði réttar til atvinnuleysisbóta í að viðkomandi þurfi að hafa verið starfandi á vinnumarkaði að lágmarki í 12 mánuði muni fyrirsjáanlega hækka kostnað borgarinnar vegna fjárhagsaðstoðar um allt að einn milljarð en það fari eftir hlutfalli þeirra úr hópnum sem uppfylli skilyrði fjárhagsaðstoðar. Bent er á í umsögninni að á síðustu 12 mánuðum hafi 1.980 manns í Reykjavík, sem uppfylli ekki þessi hertu skilyrði, sótt um atvinnuleysisbætur.

Segir í umsögninni að þó sé það ljóst að mikil óvissa ríki um þann fjölda sem muni þurfa á fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg að halda með þessu breytta fyrirkomulagi á atvinnuleysistryggingakerfinu. Einnig liggi fyrir að sá fjöldi einstaklinga sem var á atvinnuleysisbótum en gæti öðlast rétt á fjárhagsaðstoð gæti einnig öðlast rétt á sérstökum húsnæðisstuðningi sem muni einnig hækka kostnað Reykjavíkurborgar. Þá muni einnig aukast álag hjá borginni við að sinna ráðgjöf og virkni þeirra sem fái ekki þjónustu frá Vinnumálastofnun þar sem bótaréttur sé ekki til staðar, en hefði verið það áður.

Að lokum er í umsögninni lýst yfir verulegum áhyggjum af því að komi til þess að virkniúrræði ríkisins, í samspili við fyrirhugaðar breytingar, fækki ekki verulega þeim fjölda sem þurfi á fjárhagsaðstoð að halda muni breytingarnar fela í sér hreinan flutning á kostnaði frá ríki yfir til sveitarfélaga.

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Stefnir í samdrátt í Vestmannaeyjum vegna gjaldtöku á skemmtiferðaskip

Stefnir í samdrátt í Vestmannaeyjum vegna gjaldtöku á skemmtiferðaskip
Fréttir
Í gær

Bandarískir Costco viðskiptavinir öfundsjúkir út í þá íslensku út af þessu – „Þetta lítur út fyrir að vera ljúffengt“

Bandarískir Costco viðskiptavinir öfundsjúkir út í þá íslensku út af þessu – „Þetta lítur út fyrir að vera ljúffengt“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Gufunesmálið: Hvers vegna fengu Stefán og Lúkas 17 ára fangelsisdóm?

Gufunesmálið: Hvers vegna fengu Stefán og Lúkas 17 ára fangelsisdóm?
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Eldri kona óttast að hafa misst vini til 40 ára á Íslandi – Hafa ekki talað við hana eftir covid smit

Eldri kona óttast að hafa misst vini til 40 ára á Íslandi – Hafa ekki talað við hana eftir covid smit