Borgarráð Reykjavíkur hefur samþykkt að setja hús í eigu borgarinnar á sölu. Húsið er 131,6 fermetri og stendur við Bergþórugötu 20 í miðborginni. Húsinu fylgir hins vegar leigusamningur en það hefur verið í útleigu til samtakanna Andrými frá 2019 en óhætt er að segja að leigan sé mjög hagstæð fyrir samtökin miðað við stærð og staðsetningu hússins í dýrasta hverfi borgarinnar. Minnihluti borgarráðs gagnrýnir að leigusamningnum hafi ekki verið sagt upp áður en húsið var sett á sölu og telur ljóst að þetta verði til þess að lægra verð fáist fyrir húsið.
Húsið er samkvæmt umhverfis- og skipulagssviði borgarinnar skráð sem fjölbýlishús með fjórum íbúðum.
Fasteignamat hússins er 123,3 milljónir króna en það var byggt árið 1919 en samkvæmt gögnum sem fylgja fundargerð borgarráðs eignaðist borgin það árið 2003.
Leigusamningur var gerður við Andrými árið 2019 en húsaleigan var þá 100.000 krónur á mánuði en átti samkvæmt samningnum að taka breytingum í hverjum mánuði miðað við vísitölu neysluverðs til verðtryggingar. Samingurinn tók gildi 1. mars 2019 en miðað við hækkun vísitölunnar síðan þá ætti leigan í upphafi þessa mánaðar að hafa verið 142.338 krónur.
Til samanburðar má nefna að auglýst er til leigu 93 fermetra íbúð á Hverfisgötu, sem er ekki langt frá Bergþórugötu, á 346.000 krónur á mánuði. Ljóst er því að miðað við það sem gengur og gerist á húsnæðismarkaði að þá er húsaleigan sem Andrými greiðir afar hagstæð.
Samkvæmt leigusamningnum getur borgin sagt honum upp með sex mánaða fyrirvara en samningum var ekki sagt upp áður en salan var samþykkt og því blasir ekki annað við en að kaupandinn þurfi að yfirtaka samninginn og verði að leigja húsið áfram til Andrýmis, á áðurnefndu verði, í að minnsta kosti sex mánuði.
Samkvæmt samningnum má Andrými aðeins nota húsið til reksturs félagsrýmis en eins og áður segir er húsið skráð sem íbúðarhús.
Á heimasíðu Andrýmis segir að í húsinu sé rekið róttækt félagsrými sem hafi fyrst og fremst það hlutverk að útvega aðstöðu fyrir grasrótarhópa og einstaklinga til að hittast og skipuleggja baráttu sína fyrir auknu jafnrétti og frelsi. Þar sé að finna aðstöðu á við eldhús, þvottavél, prentun, internet, bókasafn, fríbúð, hjóla- og tréverkstæði og fundaraðstöðu. Allt þetta sé frjálst til afnota endurgjaldslaust.
Tekjur Andrýmis virðast einkum byggja á frjálsum framlögum.
Minnihluti borgarráðs gagnrýnir í bókunum að leigusamningnum við Andrými hafi ekki fyrst verið sagt upp áður en húsið var sett á sölu.
Fulltrúar meirihlutans, sem samþykktu að setja húsið á sölu, sögðu í sinni bókun að Andrými sinni mikilvægri starfsemi og eðlilegt og sanngjarnt væri að gefa félaginu svigrúm og aðstoð við að finna nýtt húsnæði.
Fulltrúar Framsóknarflokksins og Sjálftsæðiflokksins sátu hjá en sögðust í sínum bókunum styðja söluna en að það skyti skökku við að selja húsið með þessum leigusamningi sem væri óhagstæður. Sagði fulltrúi Framsóknarflokksins það hafa áhrif á söluverð hússins að kaupandi þurfi að taka yfir leigusamning þar sem leigan sé líklega undir 150 þúsund krónum á mánuði, sem eins og fram hefur komið hér er rétt, vegna styrks borgarinnar til félagasamtakanna Andrýmis. Uppsagnarákvæði leigusamningsins kveði á um sex mánaða uppsagnarfrest og því sé ljóst að kaupandi yrði af leigutekjum í hálft ár. Kauptilboð muni eðli máls samkvæmt taka mið af því tekjutapi og Reykjavíkurborg fá lægra verð fyrir húsið.
Óljóst er þó af hverju nýr eigandi ætti að verða af leigutekjum. Yfirtaki hann samninginn ætti leigan að vera sú sama og hægt að segja honum upp með sex mánaða fyrirvara en fá greidda leigu á þeim tíma. Sé leigan greidd með styrk frá borginni er ekkert minnst á það í leigusamningnum eða öðrum gögnum sem fylgja fundargerðinni. Samkvæmt samningnum getur Andrými sagt honum upp með eins mánaðar fyrirvara og finni samtökin nýtt húsnæði, áður en sala gengur í gegn, gæti því verið að kaupandi að Bergþórugötu 20 þurfi eftir allt saman ekki að taka við leigusamningnum í að minnsta kosti hálft ár.