Ástralskur kappakstursmaður, hinn 29 ára gamli Joey Mawson, er grunaður um að hafa nauðgað hjúkrunarkonu sem sá um umönnun heimsmeistarans fyrrverandi Michael Schumacher. Árásin er talin hafa átt sér stað á heimili Schumacher.
Eins og margir muna lenti hinn þýski Schumacher í alvarlegu skíðaslysi árið 2013 í frönsku Ölpunum, lenti í dái um langa hríð og lamaðist. Fjölskylda hans er mjög þagmælt um ástand hans og reynt er að halda honum utan við fjölmiðlana en vitað er að líkamlegt ástand hans er mjög bágborið og hann þarf mikla aðstoð.
Blaðið The Daily Star greinir frá því að Mawson hafi verið ákærður og sé grunaður um að hafa nauðgað hjúkrunarkonu á heimili Schumacher í bænum Gland í Sviss.
Mawson, var á sínum tíma talinn vera upprennandi stjarna í kappakstursheiminum, en komst aldrei í Formúlu 1 og hefur þess í stað verið að keppa í smærri mótum í heimalandinu Ástralíu. Mawson er góðvinur Mick Schumacher, sonar heimsmeistarans fyrrverandi.
Sagt er að árásin hafi átt sér stað árið 2019. Mawson er sakaður um að hafa nauðgað hjúkrunarkonunni tvisvar eftir að hún varð meðvitundarlaus eftir kokteiladrykkju.
Mawson segir hins vegar að hún hafi verið viljug að stunda kynlíf með honum. Einnig að þau hefðu fyrst kysst á næturklúbbi í Genf.
Málið hefur verið dómtekið í Sviss en Mawson mætti ekki í þinghald í gær.