Óhætt er að segja að Flosi Þorgeirsson tónlistarmaður og annar stjórnenda hins vinsæla hlaðvarps Draugar fortíðar sé afar svartsýnn á framtíð íslenska heilbrigðiskerfisins. Segist hann hafa þurft nýlega að leita til göngudeildar geðdeildar Landspítalans en þar hafi tekið á móti honum læknir sem hafi ekki kunnað íslensku en ekki haft sérstaklega góð tök á ensku heldur. Flosi segist hins vegar hafa verið í þannig stöðu þegar hann hitti lækninn að þetta á hafi endanum ekki komið að sök en velti því alvarlega fyrir sér hvernig fari fyrir fólki sem fái þjónustu af þessu tagi á geðdeildinni og sé ekki jafn sterkt á svellinu og hann. Flosi veltir því einnig fyrir sér hvernig farið hefði í umrætt sinn ef veikindi hans þennan dag hefðu verið verri.
Flosi hefur verið afar opinskár um geðræn veikindi sín og rætt þau hispurslaust. Hann segir í pistli á Facebook að ljóst sé að heilbrigðiskerfið og fleiri innviðir hér á landi séu að hruni komnir en kerfið hafi verið mun betra og áreiðanlegra á hans yngri árum en Flosi er á sextugsaldri. Segist Flosi telja að lausnin á vandanum felist hvorki í óheftari kapítalisma, sem eyðileggi allt sem á vegi hans verður, né meiri sósíalisma sem kominn sé með óorð á sig. Eini isminn sem geti hjálpað sé húmanisminn.
Flosi segist hafa sannfærst enn frekar um hið slæma ástand heilbrigðiskerfisins þegar hann leitaði nýlega vegna veikinda sinna á göngudeild geðdeildar Landspítalans. Samtalið við lækninn sem honum var vísað til hafi ekki byrjað vel og Flosi, sem átti að vera sjúklingurinn og ekki stýra samtalinu, segist hafa þá neyðst til að taka stjórnina:
„Geðþekkur maður og eflaust hinn fínasti læknir. Hins vegar fannst mér skjóta skökku við að hann var erlendur og bað mig að tala ensku. Ég les og tala reiprennandi ensku svo ég varð við því. Fljótlega kom í ljós að læknirinn var reyndar mun verri en ég í ensku svo samtalið varð fljótt þvingað. Þá tók ég stjórnina og setti þetta meira upp sem já og nei samtal fyrir hann.“
Flosi segir að hefði hann verið verr staddur hafi samtalið vel getað farið á verri veg:
„Ef ég hefði verið virkilega veikur, þunglyndið svo slæmt að ég væri með endalausar dauðahugsanir og niðurrifsraddir í höfðinu? Hvað ef ég hefði jafnvel ekki getað talað ensku? Sá maður hefði gengið aftur út án hjálpar. Gleymum ekki að þetta er göngudeild geðdeildar. Geðsjúkdómar drepa ansi marga á hverju ári. Af öllum sem látast á hverju ári á heimsvísu er talið að rekja megi um 15% til andlegra sjúkdóma.“
Flosi segir að lokum að hann sé sem betur fer í þannig stöðu að hann búi yfir sjálfsöryggi og virðingu fyrir sjálfum sé. Hann hafi mikla þekkingu á veikindum sínum og reynslu af því að takast á við þau. Hann hafi því vitað vel hvað amaði að en hann hafi samt viljað ræða það við fagaðila. Hann sé hins vegar vel meðvitaður um að það séu ekki allir sem glími við geðræn veikindi í jafn góðri stöðu og það sé alls ekki hjálplegt fyrir slíka einstaklinga að fá svona þjónustu á geðdeild Landspítalans:
„Langflest sem leita aðstoðar eru það ekki. Það er fólk sem er gjörsamlega að niðurlotum komið. Að mæta lækni sem það getur ekki einu sinni rætt við getur haft gífurleg neikvæð áhrif.“