Samtök evrópskra sjónvarpsstöðva, EBU, sem skipuleggur Eurovision keppnina hefur ákveðið að hætta við atkvæðagreiðslu um þátttöku Ísraels eins og til stóð. Ástæðan eru breyttar aðstæður í stríðinu á Gaza.
Breska blaðið Mirror greinir frá þessu.
Eins og greint hefur verið frá stóð til að láta allar aðildarþjóðir greiða atkvæði um hvort Ísraelsmenn fengju að taka þátt í Eurovision í Vínarborg í vor. Atkvæðagreiðslan átti að fara fram á fjarfundi um miðjan nóvembermánuð.
Lokafrestur til að tilkynna þátttöku í Eurovision er í desember en eins og flestir vita þá höfðu nokkur ríki hótað sniðgöngu ef Ísrael yrði með. Það er út af stríðinu og þjóðarmorðinu á Gaza. Þetta eru Ísland, Spánn, Írland, Holland og Slóvenía. En Spánverjar eru ein af „stóru fimm“ þjóðunum í keppninni, sem borga mest og þurfa ekki að taka þátt í undankeppninni.
Þá höfðu nokkur önnur ríki hótað sniðgöngu ef Ísraelum yrði meinuð þátttaka. Það er Þjóðverjar, sem eru einnig partur af „stóru fimm“ og Austurríkismenn, sem hótuðu jafn framt að hætta við að halda keppnina.
EBU hefur tekið atkvæðagreiðsluna af dagskrá og ekki hefur borist nein tilkynning um að hún fari fram síðar. Ástæðan sem er gefin eru „nýlegar vendingar í Miðausturlöndum.“ Er þá væntanlega átt við vopnahléið á milli Ísraels og Hamas sem var samþykkt fyrir skemmstu. Ísraelsher hefur hörfað af svæðum á Gaza og gíslum hefur verið sleppt frá báðum aðilum.
En þýðir þetta að Ísrael fái að taka þátt í Eurovision? Ekki endilega. Að sögn EBU mun fara fram fundur í desember, ekki fjarfundur, þar sem þátttaka Ísraels verður rædd. Ekkert hefur komið fram um atkvæðagreiðslu á þeim fundi.
„Í ljósi nýlegra vendinga í Miðausturlöndum hefur framkvæmdastjórn EBU (á fundi þann 13. október) ákveðið að það sé þörf á því að skipuleggja opinn staðarfund með meðlimum sínum til að ræða þátttöku í Eurovision keppninni árið 2026,“ segir í tilkynningu EBU. „Þá samþykkti stjórnin að setja málið á dagskrá vanabundins aðalfundar, sem fer fram í desember, í stað þess að skipuleggja aukafund fyrir þann tíma.“
ORF, ríkisútvarp Austurríkis sem heldur keppnina, hefur fagnað ákvörðun EBU. Ekki hafa borist viðbrögð frá öðrum ríkjum. Til að mynda þeim sem hótuðu sniðgöngu ef Ísraelar fengju að taka þátt.