fbpx
Sunnudagur 12.október 2025
Fréttir

Villi Birgis eys Kristján Loftsson lofi – „Það eru fleiri svona menn sem vantar í íslenskt samfélag“

Ritstjórn DV
Sunnudaginn 12. október 2025 11:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Vilhjálmur Birgisson formaður Verkalýðsfélags Akraness og Starfsgreinasambandsins lofar Kristján Loftsson, forstjóra Hvals hf., í hástert. Vilhjálmur segir það engu breyta í þessu tilliti þótt Kristján hafi lítið viljað með hann hafa.

Þetta er meðal þess sem Vilhjálmur ræðir í nýjasta þætti hlaðvarps Sjómannadagsráðs, Sjókastið. Vilhjálmur hefur aldrei farið leynt með stuðning sinn við hvalveiðar fyrirtækis Kristjáns enda hafa félagsmönnum þess fyrrnefnda staðið til boða vel launuð störf við veiðarnar.

Vilhjálmur rifjar upp í þættinum kröftug andmæli sín frá 2023 við ákvörðun þáverandi matvælaráðherra, Svandísar Svavarsdóttur, um tímabundið bann við hvalveiðum. Svandís dró þó á endanum bannið til baka en ekkert varð af hvalveiðum það sumarið.

Ekkert varð heldur af veiðum Hvals í nú sumar en Vilhjálmur segist vonast til að veiðarnar fari aftur af stað. Hann segist hafa verið sakaður um að ganga erinda Kristjáns en neitar því:

„Kristján Loftsson hefur eiginlega ekki talað við mig í mörg ár eftir að ég stefndi honum fyrir dómstóla og vann 200 milljóna króna mál.“

Málið snerist um deilur um túlkun á ráðningarsamningum. Vilhjálmur segir að Kristján hafi verið verulega ósáttur við að tapa málinu og að fyrirtæki hans þyrfti að greiða þessa upphæð til starfsmanna, félagsmanna í félaginu sem Vilhjálmur stýrir:

„Hann hefur lítið viljað við mig tala síðan.“

Virðing

Vilhjálmur segist þó ekki erfa þetta við Kristján og beri þvert á móti ómælda virðingu fyrir honum:

„Þetta er maður sem að … Það eru fleiri svona menn sem vantar í íslenskt samfélag, sem að bara segja hlutina algerlega umbúðalaust og standa við það sem þeir standa fyrir. Kristján hefur verið að skaffa þarna 200 manns atvinnu ( við hvalveiðar, innsk. DV). Tekjurnar mjög góðar. Eðli málsins samkvæmt því að þetta er bara hardcore vertíðarstemning sem að þarna myndast. Unnið alllan sólarhringinn og mikið uppgrip. Upp undir tvær milljónir á mánuði fyrir verkafólkið. Tekjur sem fólk gengur ekkert að en mikið vinnuframlag ég ætla ekki að gera lítið úr því, en hjálpar fólki gríðarlega.“

Aðspurður um þá gagnrýni sem beinst hefur að hvalveiðum fyrirtækis Kristjáns að þær standi ekki undir sér þar sem ekkert gangi að selja afurðirnar segir Vilhjálmur:

„Þetta er svo mikið blaður og bull og þvæla sem að vellur út úr sumu fólki. Eigum við að loka öllum fyrirtækjum sem að ekki skila hagnaði? Er það sem fólk er að tala um? Kristján hefur fjármagnað þetta sjálfur.“

Segir Vilhjálmur að sama fólkið sem gagnrýni það að Kristjáni takist ekki að selja hvalaafurðirnar reyni síðan að koma í veg fyrir sölu þeirra þegar það takist að finna kaupendur.

Áttatíu prósent

Þegar kemur að öðru atriði sem gagnrýnt hefur verið við hvalveiðar Hvals, að þær samræmist ekki reglum um dýravelferð, þá fullyrðir Vilhjálmur að allir sem vinni við veiðarnar reyni að vanda vel til verka. Hann segir að 80 prósent allra hvalanna sem nást séu drepnir í fyrsta skoti. Vilhjálmur vísar þó ekki í hvaðan hann hefur þá tölu en hann viðurkennir þó að frávik verði frá þessu og að það sé ömurlegt. Hann segir Hval hafa unnið að því að þróa búnað sinn svo hægt sé að hækka þetta hlutfall en staðið hafi verið í vegi fyrir prófunum. Hann segist alveg viss um að sjómennirnir sjálfir vilji hækka hlutfallið upp í 100 prósent.

Aðspurður um mótmæli bandarískra kvikmyndastjarna gegn hvalveiðum á Íslandi þá vísar Vilhjálmur í tíð dauðsföll af völdum skotvopna vestanhafs og telur að stjörnurnar ættu fremur að beina sjónum sínum að því en veiðum á 120 langreyðum á Íslandi:

„Þetta er náttúrulega svo ofboðsleg hræsni að mínum dómi.“

Stefna Hval

Bætir Vilhjálmur því við að Hafrannsóknarstofnun hafi gefið það út að langreyðastofninn hér við land sé það stór að veiðarnar séu langt frá því að ógna tilveru hans. Vilhjálmur segir að honum sé ekki fyllilega kunnugt um af hverju engar hvalveiðar voru nú í sumar en voni að þær verði á næsta ári.

Þegar kemur að afleiðingum banns Svandísar við hvalveiðum 2023 þá minnir Vilhjálmur á að þá hafi verið búið að manna allar vaktir hjá Hval áður en bannið var sett á. Verkalýðsfélag Akraness hafi, fyrir hönd félagsmanna sem urðu af þessum sökum af tekjum, stefnt Hval til greiðslu skaðabóta þar sem ráðningarsamband félagsmannanna hafi verið við fyrirtækið. Þetta hafi þó verið gert í samráði við Hval og vinni Verkalýðsfélag Akraness málið muni krafa fyrirtækisins á hendur ríkinu einfaldlega hækka enda hafi fyrirtækið orðið fyrir miklu tjóni vegna bannsins. Telur Vilhjálmur líklegt að tapi ríkið dómsmáli gegn Hval muni fyrirtækið eiga von á því að fá um 2-3 milljarða króna í skaðabætur.

Segir Vilhjálmur Sjálfstæðisflokkinn hafa algjörlega gefið eftir gagnvart Svandísi vegna bannsins og ekki staðið vörð um atvinnufrelsi. Viljinn til að hafa Vinsti græna góða í þáverandi stjórnarsamstarfi hafi skipt Sjálfstæðismenn meira máli:

„Svona finnst mér íslensk pólitík vera. Ég skil hana ekki.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Diane Keaton er látin

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 2 dögum

Keypti hund dýrum dómum en á að fá hann endurgreiddan – Reyndist vera „gallaður“

Keypti hund dýrum dómum en á að fá hann endurgreiddan – Reyndist vera „gallaður“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Segja gæludýrafrumvarp Ingu ólýðræðislegt

Segja gæludýrafrumvarp Ingu ólýðræðislegt