Kærunefnd vöru- og þjónustukaupa hefur hafnað kröfu konu sem krafðist þess að ónefndu fyrirtæki yrði gert að efna samning þeirra á milli. Konan hafði keypt uppþvottavél, í vefverslun fyrirtækisins, á um 10.000 krónur. Fyrirtækið vildi ekki standa við söluna og vísaði til þess að mistök hefðu verið gerð við skráningu verðsins á uppþvottavélinni og það hefði átt að vera konunni augljóst. Bauð það konunni aðra uppþvottavél með afslætti en hún hafnaði boðinu og krafðist þess að fá uppþvottavélina sem hún keypti og á því verði sem hún greiddi fyrir hana.
Konan keypti uppþvottavélina í mars á þessu ári og greiddi fyrir hana 9.950 krónur. Daginn eftir hafði fyrirtækið samband við hana og upplýsti að verðlagning uppþvottavélarinnar hefði verið röng í vefversluninni vegna mannlegra mistaka við uppfærslu á vörulista. Var konunni boðin önnur og dýrari uppþvottavél á 44 prósent afslætti eða að kaupverði tæplega 60.000 krónur. Konan hafnaði því og krafðist
þess að kaupin yrðu efnd af hálfu fyrirtækisins. Hækkaði fyrirtækið afsláttinn í 50 prósent en konan féllst heldur ekki á það boð. Fyrirtækið endurgreiddi þá konunni kaupverðið og hún sneri sér til nefndarinnar.
Konan sagði meðal annars í sinni kæru að hún hefði verið í góðri trú þegar hún keypti vélina. Tilboðsdagar hafi verið í vefverslunnni og uppþvottavélin auglýst á 90 prósent afslætti og verðið tilgreint sem 9.950 krónur. Sagði konan að þegar starfsmaður fyrirtækisins hafi haft samband við hana hafi hann fullyrt að það hefði átt að vera henni augljóst að um mistök væri að ræða.
Konan mótmælti því að það hafi átt að blasa við henni að fyrirtækið hefði gert mistök.
Fyrirtækið sagði í sínum andsvörum að mistök hefðu verið gerð við uppfærslu á verðum í vörulista fyrir vefverslunina. Hafi uppþvottavélin átt að vera auglýst á svokölluðu „föstu lágu verði“ að fjárhæð 99.950 krónur. Vegna innsláttarvillu starfsmanns í excel skjali sem síðar hafi verið lesið inn á vörusíðu vefverslunarinnar hafi kaupverð vélarinnar verið ranglega fært inn sem 9.950 krónur. Vefverslunarkerfi fyrirtækisins reikni sjálfkrafa út afslátt frá excel skjalinu og hafi því birt vélina á tilboði til kaups á 90 prósent afslætti sem nemi 1/10 hluta af réttu kaupverði hennar.
Fyrirtækið sagði að vissulega hefði í umrætt sinn staðið yfir tilboðsdagar en engin önnur vara verið auglýst á jafn háum afslætti og uppvottavélin. Hafi konunni átt að vera það ljóst að um mistök væri að ræða þar sem varan hafi verið auglýst í vefversluninni á „föstu lágu verði“. Bersýnilegt væri að 9.950 krónur gætu með engu móti verið fast lágt verð fyrir uppþvottavél.
Vildi fyrirtækið meina að fengi salan að standa myndi það hafa í för með sér fjárhagslegt tjón sem næmi tugum þúsundum króna. Hefðu mistökin ekki uppgötvast eins fljótt og raunin hafi verið hefði þessi ranga verðmerking fljótt getað valdið rekstrinum alvarlegum skakkaföllum fengju þau að standa. Sagði fyrirtækið að ef vara sé auglýst á óraunhæfu lágu verði, langt undir eðlilegum markaðsverðum, verði að telja að almennur neytandi myndi átta sig á að um mistök hafi verið að ræða. Að krefjast þess að verslanir selji vörur með verulegu tapi vegna
slíkra mistaka muni skapa afar ósanngjarna byrði á rekstur þeirra.
Í niðurstöðu kærunefndar vöru- og þjónustukaupa segir meðal annars að þær upplýsingar sem veittar séu af hálfu seljanda, um verð á vöru samkvæmt verðmerkingum, eigi almennt að skapa væntingar hjá neytanda um raunverulegt söluverð vörunnar og þar með um efni samnings um kaup á vörunni þegar kaup hafi farið fram.
Nefndin segir hins vegar að í þessu máli verði að leggja til grundvallar að mistök hafi verið gerð. Áðurnefndar skýringar fyrirtækisins á því hvernig mistökin áttu sér stað séu trúverðugar. Nefndin vill meina að það sé ekki hægt að ganga út frá því að konunni hafi átt vera augljóst að um mistök hafi verið að ræða enda hefði fyrirtækið á þeim tíma sem kaupin voru gerð auglýst heimilistæki á stórlækkuðu verði. Ekkert liggi fyrir um að konan hafi einhverja sérstaka þekkingu á verðlagningu uppþvottavéla og það sé ekki hægt að gera þá kröfu til neytenda að þeim beri að efast um framsetningu tilboða fyrirtækja. Jafnvel þó að um verulega verðlækkun sé að ræða.
Þrátt fyrir þetta vill nefndin hins vegar meina að konan hefði átt að vita að um mjög lága verðlagningu væri að ræða og því hafi henni ekki átt að koma á óvart að mistök hefðu verið gerð. Hún hafi þó vissulega keypt uppþvottavélina í góðri trú. Fyrirtækið hafi tilkynnt henni um mistökin daginn eftir kaupin. Uppþvottavélin hafi þá enn ekki verið afhent og konan ekki gert neinar ráðstafanir vegna samningsins. Það liggi ekkert fyrir um að konan verði fyrir fjárhagslegu tjóni verði fyrirtækinu ekki gert að standa við kaupin. Kaupverðið hafi verið aðeins 10 prósent af raunvirði vélarinnar og því liggi fyrir að fyrirtækið verði fyrir fjárhagstjóni.
Vill nefndin meina að í ljósi atvika málsins verði að telja hagsmuni fyrirtækisins af því að kaupin verði ekki látin standa ríkari en hagsmuni konunnar af hinu gagnstæða. Vegi þyngst hinn mikli munur á kaup- og raunverði uppþvottavélarinnar og að mistökin hafi verið leiðrétt svo skömmu eftir kaupin. Þótt ekki sé hægt að efast um að konan hafi ekki keypt vélina á þessu verði í góðri trú hafi hún að minnsta kosti átt að hafa hugboð um að eitthvað passaði ekki meðal annars þar sem aðrar uppþvottavélar sem voru á tilboði, hjá fyrirtækinu, í umrætt sinn hafi verið í mesta lagi á 29 prósent afslætti.
Nefndin fellst því ekki á þá kröfu konunnar að fyrirtækinu beri að standa við viðskiptin og afhenda henni uppþvottavélina á umræddu verði sem vart er hægt að kalla annað en kostakjör.