fbpx
Miðvikudagur 08.október 2025
Fréttir

„Loksins er verið að segja upphátt það sem margir hafa vitað lengi“

Ritstjórn DV
Miðvikudaginn 8. október 2025 11:30

Vilhjálmur Birgisson

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Það er virkilega gleðilegt að heyra þessi orð koma beint úr ranni fjármálakerfisins sjálfs — loksins er verið að segja upphátt það sem margir hafa vitað lengi: verðtryggingin er galin og hún er ein helsta ástæðan fyrir háu vaxtastigi hér á landi.”

Þetta segir Vilhjálmur Birgisson, formaður Starfsgreinasambandsins, í færslu á Facebook-síðu sinni.

Þar fagnar Vilhjálmur orðum Benedikts Gíslasonar, bankastjóra Arion banka, sem sagði í aðsendri grein á Vísi í gær að tímabært væri að ræða með opnum hug hvort rétt væri að draga úr vægi verðtryggingar hér á landi. Sagði Benedikt að verðtryggingin hefði mikil áhrif á vaxtastig hér á landi.

Í grein sinni rakti Benedikt kosti og galla verðtryggingarinnar og sagði að yngri kynslóðir – þær sem eru að koma yfir sig þaki – séu að greiða hærri vexti af íbúðalánum sínum en ella sökum víðtækrar notkunar verðtryggingar.

Vilhjálmur hefur lengi barist fyrir afnámi verðtryggingarinnar og sat hann meðal annars í sérfræðingahópi um afnám hennar. Rifjar hann upp að hann hafi skilað séráliti í janúar 2014 þar sem nánast allt sem bankastjóri Arion banka bendir nú á kom fram.

Segir Vilhjálmur gleðilegt að heyra þessi orð koma beint frá fjármálakerfinu sjálfu.

„Ég er með standandi lófaklapp yfir þessari grein frá Benedikt Gíslasyni. Nú er komið að Alþingi að hlusta — ekki á sérhagsmuni, heldur á heimilin og almenning í þessu landi. Tími pólitískrar aðgerðar er runninn upp,“ segir hann.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt