Stefán Einar segir frá þessu á Facebook-síðu sinni og er tilefnið löng grein sem Andri Snær skrifaði í Morgunblaðið í dag þar sem hann svaraði meðal annars fyrir fréttaskrif Stefáns Einars um síðustu helgi.
Í grein Stefáns var var fjallað um þá rithöfunda sem hafa samanlagt borið mest úr býtum hvað varðar starfslaun síðustu 25 ár.
Byggðist umfjöllunin á gögnum frá Samtökum skattgreiðenda sem birta fjölda greiddra mánaða starfslauna hjá hverjum og einum höfundi, heildarritlaun yfir allt tímabilið, fjölda bóka og blaðsíðna og starfslaun á hverja útgefna blaðsíðu. Kom meðal annars fram að Andri Snær hefði fengið 137,8 milljónir króna á 25 árum fyrir „fimm bækur“, eða 106.957 krónur á hverja blaðsíðu.
Í svargrein sinni í Morgunblaðinu í dag taldi Andri Snær þau verkefni sem hann hefur komið að á undanförnum árum og áratugum og er óhætt að segja að þau séu mörg. Benti hann á að hann væri ekki bara bókahöfundur og hefði komið að fjölmörgum leikritum og heimildarmyndum í starfi sínu.
Stefán Einar segir á Facebook-síðu sinni að grein Andra Snæs sé athyglisverð en hann fari vissulega nokkuð hörðum orðum um vinnubrögð hans.
„Hún er hressandi og upplýsandi. Umræðan um þetta tiltekna framlag skattgreiðenda til listsköpunar á Íslandi heldur áfram. Ég hef nú boðið Andra Snæ í Spursmál á föstudag til þess að ræða það, eðli launanna og mikilvægi. Nú er bara að vona að allir leggi sín lóð á vogarskálarnar, upplýstri og áhugaverðri umræðu til framdráttar,“ segir Stefán Einar en engum sögum fer af því hvort Andri Snær hafi eða muni þiggja boðið.
Svargrein Andra Snæs hefur vakið athygli víða og tjáir tónlistarmaðurinn Bubbi Morthens sig til dæmis um hana.
„Andri Snær Magnason tuktar til Stefán Einar Stefánsson í Mogganum í dag. Menning í hvaða formi sem er verður ekki metin til fjár,” segir Bubbi í færslu sinni og merkir Stefán Einar. Stefán Einar var ekki lengi að bregðast við og skrifaði eftirfarandi til Bubba:
„Áfram heldur málefnaleg umræða. Hýenurnar vakna snemma. Grein Andra Snæs er fínt innlegg, en því miður verður annað sagt um framlag þitt til umræðunnar, kæri Bubbi Morthens. Hvort er það, hefur þú ekki burði til þess, eða hefur þú ekki áhuga á því?“
Þessu svaraði Bubbi svona:
„Elsku vinur, hvað var það sem meiddi þig? Þér ferst að tala um hýenur. Tukta til er fallegt orð, var það [það] sem stóð í þér?“