fbpx
Miðvikudagur 01.október 2025
Fréttir

Afbókanir farnar að berast ferðaþjónustuaðilum vegna falls Play – Misjafnar skoðanir á æskilegum viðbrögðum

Ritstjórn DV
Þriðjudaginn 30. september 2025 21:55

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Afbókanir eru farnar að berast rekstraraðilum í ferðaþjónustu hér á landi vegna gjaldþrots flugfélagsins Play. Misjafnar skoðanir eru meðal þeirra á hvernig best sé að bregðast við. Sumir telja best að endurgreiða viðkomandi en aðrir taka það ekki í mál sé það ekki sérstaklega tekið fram í bókunarskilmálum að endurgreiðsla sé möguleg.

Rætt er um þetta í Facebook-hópnum Bakland ferðaþjónustunnar. Einn aðili birtir skilaboð frá viðskiptavini sem óskar eftir afbókun þar sem viðkomandi hafi átt bókað flug með Play en verð hjá öðrum flugfélögum hafi hækkað svo mikið að hann hafi ekki lengur efni á Íslandsferðinni. Fleiri taka til máls og segjast hafa fengið beiðnir um afbókanir en viðbrögðin eru misjöfn. Sumir segjast hafa tekið ákvörðun um að endurgreiða þrátt fyrir að þurfa það ekki samkvæmt bókunarskilmálum og vísa til að mynda í nauðsyn þess að viðhalda ímynd íslenskrar ferðaþjónustu og að halda viðskiptavinunum sem vilja hætta við góðum svo þeir vilji koma síðar, þegar betur kunni að standa á :

„Endurgreiðið bara strax, þegjandi og hljóðalaust. Það er nógur skítur sem á okkur dynur þó ekki sé bætt á ósköpin.“

Að sjá fyrir

Aðrir segjast aðeins ætla að endurgreiða ef þeim takist að fá nýja viðskiptavini til að fylla í skarðið. Enn aðrir benda á að ef bókunarskilmálar kveði á um að endurgreiðsla sé ekki í boði eigi ekki endurgreiða og viðkomandi verði þá bara að treysta á tryggingar sínar. Þegar bent er á að ekki sé hægt að ætlast til að viðskiptavinir, sérstaklega erlendir, hafi átt að sjá fall Play fyrir þá er því svarað með að fólk verði að vera viðbúið öllu þegar það bóki flugfar, gistingu, skoðunarferðir o.s.frv. mánuði fram í tímann.

Enn annar segir að þar sem hann bjóði upp á mismunandi bókanir sem sumar sé hægt að fá endurgreiddar og greiða þá hærra verð fyrir, en hinar ódýrari bókanir sé ekki hægt að fá endurgreitt og þá muni þeir skilmálar gilda. Það komi ekki annað til greina en að láta það standa sama hvað gerist.

Í umræðunum varpar einn aðili fram því sjónarmiði að við aðstæður eins og þessar eigi stjórnvöld að taka viðkomandi flugfélag yfir og reka það í nokkrar vikur á meðan undið sé ofan af útistandandi bókunum svo að allir strandaglópar, íslenskir sem erlendir, komist heim til sín en eins og komið hefur fram lentu nokkur þúsund manns í slíkri stöðu þegar Play hætti starfsemi.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt