Faðir barns sem fæddist árið 2024 var ósáttur er honum var synjað um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði, en maðurinn hafði lent milli skips og bryggju í lagalegu samhengi. Hann reyndi að fá niðurstöðunni hnekkt annars vegar fyrir úrskurðarnefnd velferðarmála og hins vegar fyrir Héraðsdómi en ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs stendur.
Faðirinn hafði starfað á íslenskum vinnumarkaði allt frá árinu 2013, ýmist í fullu starfi eða hlutastarfi með námi. Það atvikaðist svo árið 2023 að hann réði sig til Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) í tíu mánuði. Hann sneri aftur til vinnu á Íslandi sumarið 2024 og um mánuði síðar fæddist barn hans.
Samkvæmt lögum um fæðingar- og foreldraorlof ber Fæðingarorlofssjóði að taka tillit til starfstímabils foreldris erlendis í vissum tilvikum, svo sem þegar viðkomandi starfaði í aðildarríki EES-samningsins. Skilyrði fyrir þessu er annars vegar að viðkomandi hafi náð að vinna minnst mánuð á ávinnslutíma á Íslandi eða að viðkomandi hafi hafið störf á Íslandi innan tíu virkra daga frá því að hann lét af störfum í öðru aðildarríki EES. Við fyrstu sýn mætti ætla að maðurinn hafi uppfyllt þetta skilyrði sem er að finna í 2. mgr. 21. gr. laganna.
Hins vegar var hann að vinna hjá ESA og sem starfsmaður alþjóðastofnunarinnar var hann undanskilinn greiðslu tekjuskatts og tryggingargjalds í Belgíu þar sem ESA er til húsa. Þetta þýddi að á starfstíma sínum í Belgíu var faðirinn ekki að vinna sér inn réttindi til atvinnuleysistrygginga eða fæðingarorlofs samkvæmt belgískum lögum. Þess í stað ber ESA sjálft ábyrgð á að veita starfsmönnum sínum þessi réttindi.
Faðirinn taldi ljóst að markmið téðs ákvæðis væri klárlega að ná utan um stöðu hans. Þó að hann hafi ekki greitt tryggingagjald eða tekjuskatt í Belgíu beri að líta svo á að hann hafi verið að starfa í aðildarríki EES-samningsins. Færði hann ýmis rök fyrir þeirri afstöðu, svo sem að það væri markmið laga um fæðingar- og foreldraorlof að tryggja barni samvistir við báða foreldra og eins væri það markmið barnalaga að horft sé til þess sem er barni fyrir bestu. Í fæðingarorlofslöggjöfinni væri eins að finna reglugerðarheimild til ráðherra um nánari framkvæmd laganna, svo sem um rétt þeirra sem eru undanskilin greiðslu tryggingargjalds og þeirra sem starfað hafa í öðrum aðildarríkjum.
Reglugerðarheimildin bendi til þess að löggjafinn hafi ekki ætlað sér að lögin væru túlkuð bókstaflega samkvæmt orðanna hljóðan heldur að hægt væri að útfæra þau nánar og að svigrúm væri til mats í undantekningatilfellum sem þessu. Eins taldi hann ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs í andstöðu við þau réttindi sem tryggð eru með EES-samningnum sjálfum og minnti á að túlka beri íslensk lög, að svo miklu leyti sem unnt er, í samræmi við samninginn.
Dómari hafnaði öllum rökum mannsins. Þar sem að maðurinn hafði ekki unnið sér inn félagsleg réttindi í Belgíu uppfyllti hann ekki skilyrði um störf í öðru aðildarríki EES. Orðið aðildarríki yrði eins ekki túlkað svo rúmt að ESA félli þar undir, enda aðildarríki tæmandi talin í samningnum um Evrópska efnahagssvæðið. Hvað varðar EES-samninginn sjálfan benti dómarinn á að í lögum nr. 2/1993 um Evrópska efnahagssvæðið sé ekki að finna forgangsákvæði í samræmi við Bókun 35 við samninginn. Þó svo að skýra beri lög í samræmi við samninginn eins og hægt er þá sé ekki hægt að láta samninginn trompa íslensk lög, einkum í tilvikum þar sem téð lög eru bæði sértækari og yngri en lög um Evrópska efnahagssvæðið.
. Dómari taldi eins að ónýtt reglugerðarheimild hefði enga þýðingu í málinu.
Ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs um synjun stendur því óhögguð.