Nokkurt uppnám hefur orðið meðal grænkera á samfélagsmiðlum. Grænkerar (e. vegans) neyta eins og kunnugt er engra dýraafurða. Í Kastljósi á RÚV í gærkvöldi var fjallað um þetta grænkerafæði en grænkerar eru verulega ósáttir við umfjöllunina og segja að með henni sé dregin upp röng mynd af stöðu þessa mataræðis. Ranglega sé haldið fram að það sé á undanhaldi og gjaldþroti verslunar sem seldi aðeins grænkeravörur sé að ósekju blandað inn í málið.
Á vef RÚV hefur innslagið titilinn Vegan á undanhaldi og í kynningartexta stendur:
„Veganismi eða grænkeralífsstíll virðist eiga undir högg að sækja þessa dagana, eftir að hafa verið mjög áberandi síðustu ár. Sífellt fleiri sem tileinkuðu sér matarræðið eru farin að borða dýraafurðir aftur og veitingamenn verða varir við minni eftirspurn eftir vegan mat.“
Fréttamaðurinn Urður Örlygsdóttir vann innslagið. Þar kemur fram að grænkeralífstíll hafi náð ákveðnu hámarki á Íslandi á síðasta áratug. Fréttir hafi þá borist t.d. af því að haframjólk hafi selst upp. Rætt er við Ingeborg Andersen fyrrum grænkera sem ekki aðeins lét sér nægja að neyta grænkerafæðis heldur beitti sér fyrir útbreiðslu lífsstílsins. Hún segist ekki síst hafa gerst grænkeri til að gæta að velferð dýra. Eftir áratug af grænkerafæði fór Ingeborg aftur að neyta dýraafurða en hún segir líkama sinn einfaldlega hafa kallað eftir því.
Ingeborg segir að hún hafi þá í fyrsta sinn á ævinni smakkað lambakjöt og muni vel hversu miklum hita hún fann fyrir í líkamanum og upplifunin hafi verið mögnuð eftir svona langan tíma án dýraafurða.
Í innslaginu er því næst minnst á að kallað hafi verið eftir því að grænkerafæði væri í boði á veitingastöðum og einnig minnst á lokun Veganbúðarinnar, sem seldi aðeins grænkeravörur, árið 2023. Fram kemur að veitingastöðum sem bjóði aðeins upp á grænkerafæði hafi fækkað. Rætt er við Hrefnu Sætran matreiðslumeistara sem segir minni eftirspurn vera eftir grænkerafæði á hennar veitingastöðum. Segist Hrefna telja einfaldlega að grænkerafæði sé ekki lengur í tísku.
Í innslaginu er vitnað í fréttir fjölmiðla í öðrum löndum af minnkandi sölu á grænkeravörum í verslunum, fjárhagserfiðleikum framleiðenda grænkeravara og fækkun veitingastaða sem bjóða eingöngu upp á slíkt fæði en Urður segir hins vegar að svo virðist sem að „veganismi sé að aukast í heiminum“. Hér virðist vera um þversögn að ræða sem er ekki útskýrð nánar.
Síðan er rætt við Kristín Helgu Sigurðardóttur varaformann Samtaka grænkera á Íslandi sem segir samtökin hafa tekið eftir þessari þróun. Einhverjir félagsmenn hafi sagt sig úr samtökunum. Aðspurð um hvers vegna fólk sé að segja skilið við grænkeralífsstílinn segir hún líklega hafa verið um tískubylgju að ræða í mataræði en að vera grænkeri sé lífsstíll og snúist ekki bara um mataræðið.
Í innslaginu segir að það sé erfitt að festa hendur á ástæðum þessarar þróunar sérstaklega í ljósi þess að embætti landlæknis mæli með því að fólk neyti í auknum mæli fæðu úr jurtaríkinu en minnki neyslu á kjöti. Í lokin segir Ingeborg að hún sé dýravinur en telji það alveg fara saman við það að neyta kjöts og annarra dýraafurða.
Grænkerar telja þetta innslagg ekki gefa rétta mynd af stöðunni. Í umræðum meðal þeirra á samfélagsmiðlum kemur fram að grænkeralífsstílinn sé síður en svo á undanhaldi:
„Þetta er eins og einhverjir menntaskólakrakkar hefðu ákveðið að taka viðtal við „frænku sína” sem hætti að vera vegan og spinna „frétt” úr því í fjölmiðlafræði 101 áfanga, þetta er hlægilega lélegt innslag án minimal upplýsingaöflunar, td. ekki einu sinni rætt við fólk sem hefur eða er að reka vegan verslun eða veitingastað, fagmennskan engin.“
Stjórnendur fyrirtækjanna Ella Stína, sem framleiðir grænkeravörur, og Mama Reykjavík, sem er veitingastaður sem býður aðeins upp á grænkerafæði, segja eftirspurnina eftir þeirra vörum og þjónustu vera mikla og frekari vöxtur sé í bígerð.
Grænkerar eru einnig ósáttir við að gjaldþrot Veganbúðarinnar hafi komið fyrir í innslaginu og fullyrt er að endalok hennar hafi ekkert haft með minnkandi eftirspurn eftir slíkum vörum að gera heldur séu ástæðurnar aðrar án þess þó að það sé útskýrt nánar.
Grænkerar virðast hins vegar sammála um að úrval af slíkum vörum í almennum matvöruverslunum hafi versnað.
Í mörgum ummælum er RÚV sakað um óvönduð og vinnubrögð og hlutdrægni og eru sumir ósáttir við að engin grænkeri hafi verið kallaður til en eins og hér hefur verið rakið er það rangt. Fullyrt er í einni athugasemd að ekkert hafi í innslaginu verið minnst á ráðleggingar landlæknis um aukna áherslu á jurtafæði, á kostnað kjöts, en eins og hér hefur komið fram er það líka rangt.
„Ömurlega ófagmannlega unninn þáttur um stöðu Vegans, “ segir einn aðili.
Áðurnefnd Kristín Helga greinir frá því í athugasemd að nokkur hluti af viðtalinu við hana hafi ekki ratað í hið endanlega innslag. Hún hafi til að mynda bent á versnandi úrval í verslunum. Kristín segist sömuleiðis hafa minnst á rannsóknir á næringarvenjum Íslendinga og áðurnefndar ráðleggingar embættis landlæknis og á hverju þær byggi. Segist hún eftir á að hyggja hafa átt á að útskýra ástæðurnar, sem hún gaf upp fyrir þróuninni, betur.
Margir grænkera sem taka til máls virðast ósáttir við að í innslaginu hafi verið rætt, með þeim hætti sem gert var, við einstakling sem lýsir jákvæðri reynslu af neyslu kjöts. Um innslagið segir áðurnefnd Kristín Helga:
„Ég bjóst ekki við að þessi frétt myndi vera svona pro-kjöt því fréttakonan er grænmetisæta.“