Óhætt er að segja að allt sé á suðupunkti eftir að rússneskir sprengjudrónar rötuðu inn í pólska lofthelgi í nótt. Herþotur frá pólska hernum og NATO skutu drónana niður og hafa pólsk yfirvöld brugðist hart við. Ríkisstjórn Póllands hefur boðað til neyðarfundar vegna málsins.
Frank Gardner, blaðamaður BBC sem sérhæfir sig í umfjöllun um hernaðar- og öryggismál, segir á vef miðilsins að ekki sé um neina smádróna að ræða. Bendir hann á að þessir drónar geti verið 3,5 metrar á breidd og 2,5 metrar á lengd og borið 30-50 kíló af sprengiefni.
„Í öllum samtölum sem ég hef átt við yfirmenn í her Nato eða fræðimenn sem sérhæfa sig í að spá fyrir um næstu skref Rússa, er niðurstaðan sú sama: Moskva mun vilja prófa þolgæði Nato á einhvern hátt,” segir Gardner í greiningu sinni.
Hann segir að velta megi fyrir sér hvort drónarnir hafi ratað inn í pólska lofthelgi fyrir mistök eða hvort Rússar hafi vísvitandi verið að kanna viðbrögð NATO.
„Að missa einn dróna inn í loftrými Póllands má afskrifa sem slys; það hefur gerst áður. En þegar við erum að tala um „nokkra dróna“, eins og Pólverjar hafa greint frá, lítur það frekar út fyrir að vera vísvitandi.”
Pavel Muravyeika, aðstoðarvarnarmálaráðherra Belarús, sem er bandalagsríki Rússlands, sagði í morgun að drónarnir hafi farið inn í loftrými Póllands fyrir mistök. Yfirvöld í Belarús hefðu meðal annars skotið nokkra slíka niður yfir í sínu loftrými.
Andriy Sybiga, utanríkisráðherra Úkraínu, sagði á samfélagsmiðlinum X að Pútín Rússlandsforseti héldi áfram að stigmagna ófriðinn í Evrópu. „Eftir því sem hann fær minni mótspyrnu, þeim mun árásargjarnari verður hann. Veikt viðbragð núna væri einungis vatn á myllu Rússa – og þá munu eldflaugar þeirra og drónar ná enn dýpra inn í Evrópu.”