fbpx
Mánudagur 25.ágúst 2025
Fréttir

Rafmagnað andrúmsloft í Héraðsdómi Suðurlands – Stefán svaraði fyrstur til saka fyrir morðið á Hjörleifi

Ágúst Borgþór Sverrisson
Mánudaginn 25. ágúst 2025 10:03

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Stefán Blackburn var fyrstur í vitnastúku í Gufunesmálinu. Sjá neðar í fréttinni.

Aðalmeðferð er hafin í Héraðsdómi Suðurlands á Selfossi í máli sem héraðssaksóknari höfðar gegn fimm sakborningum vegna andláts Hjörleifs Hauks Guðmundssonar, 65 ára manns frá Þorlákshöfn, sem lést þann 11. mars síðastliðinn í kjölfar mikilla misþyrminga sem hann hafði þurft að þola kvöldið og nóttina á undan.

Þrír eru ákærðir í málinu fyrir manndráp, frelsissviptingu, rán og tilraun til fjárkúgunar, þeir Stefán Blackburn, Lúkas Geir Ingvarsson og Matthías Björn Erlingsson.

Sjá einnig: Þessi eru ákærð í Gufunesmálinu – Svona var atburðarásin sem leiddi til hörmulegs andláts Hjörleifs

Þessir þrír sakborningar hafa til þessa neitað sök í málinu. Tvö önnur eru ákærð, þar af ung stúlka fyrir hlutdeild í frelsissviptingu og ráni, fyrir að hafa sett sig í samband við Hjörleif og lokkað hann út í bíl fyrir utan heimili hans í Þorlákshöfn, þar sem þeir Stefán og Lúkas Geir biðu hans; er hún sögð hafa vitað hvað biði Hjörleifs og tilgangurinn hafi verið að hafa af honum fé.

Ungur piltur er síðan ákærður fyrir peningaþvætti, fyrir að hafa tekið við millifærslu upp á þrjár milljónir króna sem kúgaðar voru út úr Hjörleifi með ofbeldi og millifært upphæðina áfram yfir á reikning í eigu eins sakborningsins, Matthíasar Björns.

Eru tengsl við hraðbankamálið?

Eitt af því sem gæti skýrst í vitnaleiðslum er hvort tengsl séu á milli þessa hryllilega morðs og hraðbankamálsins svokallaða, en lögregla rannsakar nú stuld á hraðbanka Íslandsbanka í Þverholti í Mosfellsbæ, sem rifinn var út og fjarlægður aðfaranótt þriðjudagsins 19. ágúst síðastliðinn. Notuð var skurðgrafa til verksins. Í hraðbankanum voru um 20 milljónir króna í reiðufé.

Einn mannanna sem situr í gæsluvarðhaldi vegna hraðbankamálsins var um tíma í gæsluvarðhaldi vegna rannsóknar lögreglu á morðinu á Hjörleifi. Hann var hins vegar ekki ákærður fyrir hlutdeild í málinu. Þessi maður mun bera vitni í Gufunesmálinu á morgun, þriðjudag, viku eftir að stuldurinn á hraðbankanum átti sér stað.

Eftir því sem DV kemst næst eru tengsl á milli sakborninga í þessum tveimur málum en óvíst er hvort glæpirnir tengist að öðru leyti. Það mun skýrast við þessi réttarhöld.

Vilhjálmur Vlhjálmsson, verjandi eins sakborningsins í málinu, mætti til leiks á mótorhjóli. Mynd: DV/KSJ

Þröng á þingi

Dómsalurinn í Héraðsdómi Suðurlands er afar lítill og var þröng á þingi við upphaf þinghaldsins í morgun. Ekki var sætispláss fyrir alla áhorfendur, þar á meðal aðstandendur Hjörleifs heitins, sem vildu fylgjast með þinghaldinu, né fyrir alla fjölmiðlamenn á staðnum. Þetta hefur jafnframt í för með sér að aðstandendur Hjörleifs heitins, sem fylgjast með réttarhöldunum, eru í mikilli nálægð við hina ákærðu.

Stefán Blackburn fyrstur í vitnastúku

Stefán Blackburn var fyrstur sakborninga til að gefa vitnaskýrslu. Hann játaði frelsissviptingu og rán og tilraun til fjárkúgunar, en hann neitar áfram ákæru um manndráp. Lúkas Geir játar frelsissviptingu og rán en ekki tilraun til fjárkúgunar. Matthías Björn neitar sök í öllum ákæruliðum.

Karl Ingi Vilbergsson, saksóknari í málinu, spurði Stefán fyrst. Hann bað Stefán um að lýsa atburðarásinni að kvöldi 11. mars.

Stefán segir að Lúkas Geir hafi haft samband við sig og boðið sér að taka þátt í verkefni, að kúga barnaníðing. Verkefnið var úti á landi. Hann undirbjó sig fyrir verkið með búnaði, t.d. lambhúshettu.

Hann lýsti ökuferðinni til Þorlákshafnar sem tíðindalausri. Hann sagði Lúkas Geir hafa sett sig í samband við aðila til að láta þá vita að þeir væru komnir til Þorlákshafnar. Hann lýsti komu Hjörleifs inn í bílinn og opnaði fyrir honum dyrnar að farþegasætinu frammi í. Lúkas Geir sat aftur í.

Hann sagði að þeir hefðu tjáð Hjörleifi að hann væri kominn í skítastöðu af því hann hefði ætlað að hitta stúlku undir lögaldri. Tjáðu þeir honum að eina leiðin út úr vandræðunum væri að borga þeim. Annars yrði hann niðurlægður opinberlega.

Segir hann að Hjörleifur hafi sagst ekki vera með aðgangsupplýsingar að netbankanum sínum heldur eiginkona hans.

Hann lýsti því síðan að ókunnur bíll hefði komið á vettvang eftir að þeir höfðu lagt bílnum niður á höfn, þar sem þeir stöðvuðu bílinn og héldu áfram að tala við Hjörleif.

Matthías sagðist hafa óttast nálægð þessa ökumanns, sem var kona, og ákveðið að keyra burtu. Á leiðinni settu þeir svartan nælonpoka yfir höfuð Hjörleifs þar sem þeir vildu ekki að hann vissi hvert þeir væru að fara. Sjálfir voru þeir með lambhúshettur og grímur.

Teslan var að verða rafmagnslaus og Stefán vildi ekki hlaða bílinn með eigin hleðslulykli og hafði því samband við Matthías og bað hann um að koma á vettvang og hjálpa þeim að hlaða bílinn. Hann lýsti stöðunni fyrir honum. Sagði Stefán að hann hefði  þekkt lítillega til Matthíasar í gegnum Lúkas Geir og vitað að hann hefði mikla tækniþekkingu.

Dómari spurði hvort hann hefði útskýrt fyrir Matthíasi að það væri maður hjá þeim en hann sagðist ekki hafa gert það heldur hafi Matthías áttað sig á því að þeir væru að gera eitthvað misjafnt.

Stefán sagðist hafa verið í virkri neyslu fíkniefna og verið út um allt og labbað í hringi.

Mig langaði til að geta bara skilið hann eftir þarna, sagði Stefán, og átti við að hann hefði ekki viljað láta málið ganga lengra. En Hjörleifur hafi sífellt verið að benda þeim á að konan hans hefði bankaupplýsingarnar. Hann segist þá hafa á endanum hringt í eiginkonu Hjörleifs og sakað hann um perraskap. Konan hefði sagt gott á hann þegar hann hafi tjáð henni þetta um hegðun Hjörleifs.

Hann greindi síðan frá því að hann hefði haft aðgang að iðnaðarbili á Kjalarnesi, réttara sagt vissi hann að dyrnar voru opnar á einum slíkum stað. Hann sagðist hafa verið mjög stressaður og hann hafi hugsað næstu skref jafnóðum. Hann sagðist hafa vitað að lögreglan væri komin í málið vegna þess að þegar hann hringdi í eiginkonu Hjörleifs öðru sinni áttaði hann sig á því að hún var að taka upp símtalið.

Hann segist hafa tæmt vasa Hjörleifs áður en þeir færðu hann inn í iðnaðarbilið og þar komst hann yfir veskið hans með kortum auk ýmissa bréfmiða með áskrifuðum tölum. Út frá þeim upplýsingum komst yfir rafræn skilríki Hjörrleifs og komst inn á einkabanka hans og með þráhyggjukenndum athöfnum auk hjálpar Matthíasar reyndi hann að millifæra.

Á meðan á þessu stendur eru þeir, Matthías og Lúkas, að berja hann. – Sagðist hann sjálfur hafa slegið Hjörleif samtals þrisvar.

Hann var einhvern veginn bara að reyna að harka þetta af sér,sagði Stefán um viðbrögð Hjörleifs við misþyrmingunum.

Hann viðurkenndi síðan að hann hefði brotið höndina á Hjörleifi. Þegar Hjörleifur gaf ekki upp pin-númerið hafi hann gert sér ljóst að Hjörleifur væri ekki með þessar upplýsingar.

Hann hafi því ákveðið að þeir yrðu að skilja Hjörleif eftir á víðavangi þar sem líklegt væri að einhver myndi finna hann. Gufunes varð af þeim ástæðum fyrir valinu.

Rétt áður en þeir drógu Hjörleif út úr bílnum og skildu hann eftir í Gufunesi tókst Stefáni með hjálp Matthíasar að millifæra af reikningi Hjörleifs.

Aðspurður sagði Stefán að Hjörleifur hefði ekki verið beittur miklu ofbeldi í bílnum en mest við Hellisheiðarvirkjun.

Varpar aðalsökinni á Lúkas Geir

Stefán sagði aðspurður að það hafi verið Lúkas Geir sem átti hugmyndina að glæpnum. Hann viðurkenndi að hafa stýrt aðgerðum á vettvangi en hugmyndin um tálbeituaðgerðina gegn Hjörleifi hafi komið frá Lúkas Geir.

Matthías sekur líka

Aðspurður um þátt Matthíasar Björns sagði Stefán að hann hefði tekið fullan þátt í glæpnum. Hann hafi misþyrmt Hjörleifi ásamt hinum tveimur og hann hafi af fúsum og frjálsum vilja aðstoðað þá við að hlaða Tesluna og komast yfir fjármuni Hjörleifs heitins. Þar hafi hann beitt tækniþekkingu sinni.

Matthías hafi hvenær sem er getað farið út úr aðstæðunum hefði hann viljað. Það væri rangt sem Matthías sagði fyrir dómi og í viðtali við DV að hann hafi tekið þátt í glæpnum nauðugur viljugur. Sagði Stefán að Matthías hafi verið mjög fús til þátttöku í glæpnum.

Stefán sagði að enginn hafi átt að deyja þessa nótt. Ásetningurinn hafi verið sá að kúga fé út úr Hjörleifi vegna vilja hans til að hitta stúlku undir lögaldri. Sagði hann málið vera harmleik fyrir alla hlutaðeigandi. Ég harma þetta gríðarlega, sagði hann að lokum.

Fréttin hefur verið uppfærð

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 16 klukkutímum

Rússland sagt ramba á barmi bensínkrísu

Rússland sagt ramba á barmi bensínkrísu
Fréttir
Í gær

Mikil reiði eftir að dönsk yfirvöld tóku nýfædda dóttur af grænlenskri móður á grundvelli umdeilds prófs

Mikil reiði eftir að dönsk yfirvöld tóku nýfædda dóttur af grænlenskri móður á grundvelli umdeilds prófs
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Landsréttur sneri við úrskurði héraðsdóms í Hraðbankamálinu og sakborningur fer í gæsluvarðhald

Landsréttur sneri við úrskurði héraðsdóms í Hraðbankamálinu og sakborningur fer í gæsluvarðhald
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Póstburðarmaður vekur mikla athygli eftir að þetta náðist á myndband

Póstburðarmaður vekur mikla athygli eftir að þetta náðist á myndband