Ása Guðbjörg Ellerup, eiginkona Rex Heuermann sem grunaður er um sjö morð, fær yfir sig skæðadrífu af skömmum fyrir að reyna að græða á myrkraverkum eiginmannsins með því að selja eigur hans.
New York Post fjallar um málið en þar er greint frá tilraunum Ásu við að selja gamlan Jeep-herjeppa frá árinu 1972 sem var í eigu Rex í gegnum Ebay. Þetta er í annað sinn sem Ása freistar þess að selja bílinn en sérstaklega í fyrstu söluauglýsingu var skilmerkilega greint frá því hver var fyrri eigandi. Sú auglýsing var síðan fjarlægð því um er að ræða brot á reglum Ebay, sem heimilar ekki sölu á munum sem tengjast alvarlegum sakamálum.
Seinni auglýsingin var mun óræðari og að endingu var jeppinn sleginn á 25 þúsund dollara, rúmlega 3 milljónir íslenskra króna.
En ekki var allt sem sýndist. Sá sem bauð hæst í jeppann, Jonathan Randall að nafni, var hrekkjalómur sem hafði enga hyggju að ganga frá kaupunum. Þess í stað birti hann skjáskot frá seljandanum, sem var líklega Ása eða annar fjölskyldumeðlimur, þar sem spurt var um greiðslu og afhendingu og svaraði Jonathan því með rafrænu hláturtákni.
Þá birti viðkomandi færslu á samfélagsmiðlum þar sem hann lýsti því yfir að sér þætti það ógeðfellt að reyna að hagnast á myrkraverkum Rex með þessum hætti og tóku fjölmargir undir það.
Ása hefur áður sætt gagnrýni fyrir að þéna peninga á málinu. Þannig fékk hún háa greiðslu, eða um 140 milljónir króna, fyrir að segja sögu sína í Netflix-heimildarmynd um eiginmanninn og morðin sem hann er talinn hafa framið.
Bandarísk lög banna glæpamönnum og fjölskyldum þeirra að hagnast á myrkraverkum þeirra en Ása var klók og sótti um skilnað frá eiginmanninum sem opnaði á þennan möguleika. Sá skilnaður er hins vegar ekki enn genginn í gegn og virðist Ása þess í stað standa þétt á bak við Rex í réttarhöldunum sem framundan eru.