fbpx
Föstudagur 15.ágúst 2025
Fréttir

Íbúar á Þórshöfn kvarta sáran undan hávaða og mengun – „Ég get ekki sætt mig við það að þetta sé komið til að vera svona í framtíðinni“

Jakob Snævar Ólafsson
Föstudaginn 15. ágúst 2025 14:00

Þorpið Þórshöfn er hluti af sveitarfélaginu Langanesbyggð. Mynd: Langanesbyggð.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Á fundi skipulags- og umhverfisnefndar Langanesbyggðar í liðinni viku voru teknar fyrir kvartanir nokkurra íbúa á Þórshöfn vegna rykmengunar og mikils hávaða frá framkvæmdum við höfnina í þorpinu. Af gögnum sem fylgja fundargerð fundarins má ráða að íbúarnir, sem búa flestir skammt frá hafnarsvæðinu, eru orðnir langþreyttir á ástandinu en framkvæmdirnar hafa staðið yfir undanfarna mánuði. Þeir segja bæði hávaðann og mengunina yfirgengilegan og kvarta undan því að ekkert samráð hafi verið haft við þá vegna skipulags hafnarsvæðisins. Skipulags- og umhverfisnefnd segir að ástandið muni batna og farið verið fram á að hljóðmælingar verði gerðar við heimili hinna ósáttu íbúa.

Samkvæmt fundargerð snúa framkvæmdirnar meðal annars að stækkun á frystiklefa á hafnarsvæðinu en sú framkvæmd er á vegum Ísfélagsins en í fundargerðinni kemur fram að framkvæmdirnar hafi staðið yfir síðan á síðasta ári. Í fundargerðinni kemur einnig fram að kvartanirnar snúist um rykmengun og hávaða frá framkvæmdasvæðinu við höfnina. Rykmengun frá fargi sem staðið hefur norðan frystiklefans og hávaða frá kælivélum frystiklefans. Beðið hafi verið um skýringar á hávaða frá klefanum og ennfremur hvenær lokið verði við að fjarlægja fargið.

Ítrekaðar kvartanir

Í bréfum frá kvartendum kemur meðal annars fram að mold og sandur hafi fokið frá farginu, á hafnarsvæðinu, sem komið hafi verið upp á síðasta ári. Þrátt fyrir ítrekaðar kvartanir um að þetta væri mjög bagalegt og þyrfti að leysa sem fyrst og álit Heilbrigðiseftirlits Norðurlands eystra um að koma þyrfti í veg fyrir mengunina með ákveðnum aðgerðum hafi það ekki verið gert. Fullyrt er að sveitarstjóri og forstöðumaður þjónustumiðstöðvar hafi heitið því að fargið yrði fjarlægt í apríl síðastliðnum sem hafi ekki gengið eftir og mengun sé enn til staðar.

Íbúarnir segja einnig að hávaðinn frá frystiklefanum sé gríðarlega mikill. Áður en framkvæmdaleyfi hafi verið gefið út fyrir stækkuninni hafi verið gerðar athugasemdir við mögulega hávaðamengun:

„Skipulagsnefnd, sveitarstjórn og sveitarstjóri gerðu ekkert með þessar athugasemdir okkar og hundsuðu algerlega áhyggjur.“

Einn íbúi segir hávaðann frá frystiklefanum svo mikinn að það sé óásættanlegt:

„Eftir að Ísfélagið ræsti frysti pressurnar hefur hávaði frá þeim verið slíkur að ég get ekki sætt mig við það að þetta sé komið til að vera svona í framtíðinni.“

Íbúarnir krefjast þess í bréfum sínum að gripið verði til markvissra aðgerða sem fyrst til að koma í veg fyrir frekari mengun og hávaða.

Samráð

Með kvörtun sinni sendi einni íbúi athugasemdir sem hann sendi sveitarfélaginu og Skipulagsstofnun fyrir ári síðan vegna framkvæmdanna sem þá voru fyrirhugaðar. Segir hann að lítið samráð hafi verið haft við íbúa og lýsti jafn framt verulegum áhyggjum af hávaðamengun, sjónmengun og ammoníaksleka og eldhættu frá frystiklefanum. Sagði íbúinn að stækkun klefans og aðrar framkvæmdir á hafnarsvæðinu væru það umfangsmiklar að vanda hafi átt betur til verka við kynningu fyrir íbúum. Vildi íbúinn meina að íbúum hafi ekki gefist nægilegt svigrúm til að gera athugasemdir við breytingar á deiliskipulagi þar sem framkvæmdirnar voru heimilaðar. Gerir íbúinn sérstaka athugasemd við að tilheyrandi breyting hafi ekki verið gerð á aðalskipulagi sveitarfélagsins samhliða deiliskipulagsbreytingunni. Segir hann að framkvæmdaleyfi hafi verið veitt og framkvæmdir hafist áður en aðalskipulaginu hafi verið breytt með lögformlegum hætti.

Aðgerðir

Aðgerðir vegna kvartana íbúanna voru samþykktar samhljóða af umhverfis- og skipulagsnefnd en í bókun í fundargerðinni segir að samkvæmt upplýsingum frá Ísfélaginu hafi verið byrjað að keyra frystikerfi frystiklefans og hitastigið í honum niður 10. júlí síðastliðinn. Hitastigið í klefanum sé keyrt hægt niður í sirka -25°c á um 12 dögum. Þann tíma sé í gangi uppkeyrsla, stillingarfasi og lærdómferill á klefanum og kerfum hans. Hljóðið (sem valdi hávaðanum) hafi komið  frá viftum (blásurum) sem dæli lofti í gegnum kælipunktinn. Samkvæmt fyrirtækinu Frost, sem sjái um frystikerfið, muni hljóð frá klefanum alltaf lækka umtalsvert og verði vonandi sem minnst. Frost muni klára uppkeyrslu og stillingar, og skoða frekar hljóðið.

Þess ber að geta að kvörtunarbréf íbúanna eru dagsett í júlí innan þess 12 daga tímabils sem Ísfélagið vísar til í sínum svörum.

Um fargið, sem hefur valdið því að mold og sandur hefur fokið um nágrennið, segir í bókuninni að það sé norðan frystiklefans og verið sé jafnt og þétt að flytja það í burtu frá svæðinu. Nú séu eftir tæpir 1500 rúmmetrar en fargið hafi upphaflega verið 5000 rúmmetrar og verði það sem eftir sé flutt á næstunni. Nefndin felur sveitarstjóra Langanesbyggðar að senda íbúunum bókun nefndarinnar ásamt því að senda Heilbrigðiseftirliti Norðurlands eystra erindi um málið og fara fram á hljóðmælingar við hús íbúbanna sem lögðu fram kvartanir og á fleiri stöðum ef ástæða þyki til.

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 20 klukkutímum

Starfsmaður fiskvinnslufyrirtækis lagði fram kæru eftir að hafa verið sagt að mæta í vinnuna í vinnslustöðvun

Starfsmaður fiskvinnslufyrirtækis lagði fram kæru eftir að hafa verið sagt að mæta í vinnuna í vinnslustöðvun
Fréttir
Fyrir 22 klukkutímum

Stefán segir skemmdarfýsn hafa ráðið för í Tjarnargarðinum – „Það hefur þurft að hafa ansi mikið fyrir þessu“

Stefán segir skemmdarfýsn hafa ráðið för í Tjarnargarðinum – „Það hefur þurft að hafa ansi mikið fyrir þessu“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Erlendur síbrotamaður sem fór huldu höfði rekinn úr landi

Erlendur síbrotamaður sem fór huldu höfði rekinn úr landi
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Sakamál klúðraðist vegna skyldleika lögreglumanns og brotaþola

Sakamál klúðraðist vegna skyldleika lögreglumanns og brotaþola
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Flugdólgur handtekinn á Reykjavíkurflugvelli

Flugdólgur handtekinn á Reykjavíkurflugvelli
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Viktor segir að gervigreind skrifi ekki á vef Iceland Review og gerir athugasemd við umfjöllun Heimildarinnar

Viktor segir að gervigreind skrifi ekki á vef Iceland Review og gerir athugasemd við umfjöllun Heimildarinnar