„Þetta er bara fyrirspurn til rafvirkja, hvað getur ollið því að ég er að borga 3falt rafmagn á við nágranna minn, er ekki með fleiri tæki, bara þetta venjulega sem er á heimilinu, er með almenn heimilistæki nema örbylgjuofn. Bara svör frá fagaðilum óskast.“
Þannig hljómar nafnlaus fyrirspurn sem skrifuð var í gær í Facebook-hópinn Vinna með litlum fyrirvara. Ekki stóð á svörum í athugasemdum, en færsluskrifaði svaraði aðspurð frekar að hún væri ein í heimili, ekki með rafmagnsbíl og ekki með rafmagnspott.
Einn sagðist hafa lækkað rafmagnsreikninginn sinn um helming þegar hann skipti frystiskápnum út og keypti nýjan. Konan sagðist þá vera með frysti/ísskáp frá 1997. Karlmaður sem er meistari í rafeindavirkjun sagði aldur á tækjum ekki endilega hafa með mikla rafmagnsnotkun að gera. „Það eru til 60 ára gamlir ísskápar sem eru sparsamari en margir nýjir.“
Kona ein sem starfar sem rafvirki tók undir að eldri heimilistæki verði oft orkufrekari með aldrinum. Einnig spurði hún hvort um væri að ræða kalt svæði eða hitaveitu, „hvernig ljós og eru þau mikið kveikt, eldavél kannski ekki mikið notuð í hinu húsinu, notar þú mikið hraðsuðukönnu? Svo er það spurningar sem eiga við ef þú ert a köldu svæði: Oft í sturtu, hátt stillt á ofnum, léleg einangrum á húsi, gólfhiti á rafmagni. Það getur verið nokkuð margt sem kemur til.“ Til útskýringar þá er kalt svæði þau svæði sem eru ekki með hitaveitu. Þar er allt hitað með rafmagni.
Annar sagði: „Væri ég rafvirki myndi ég benda þér á að athuga hvort ísskápur eða frystir er alltaf í gangi og slekkur ekki á sér þegar nær réttu hitastigi, en þar sem ég er ekki fagmaður sleppi ég því“ Svaraði konan honum að sig væri farið að gruna ísskáp um þennan ófögnuð enda keyptur 1997. „Taktu stöðuna á mælinum núna og svo aftur eftir 60 mín. Taktu síðan skápinn úr sambandi og mældu næstu sextíu.“
„Gamall ísskápur eða tæki geta verið mjög orkufrek, sjónvörp sem eru endalaust i gangi eins á sumum heimilum, borðtölvur einnig en annars ef þu vilt reyna rekja það er bara kveikja á tækjum og fara og fylgjast með mælinum hvort eitthvað sendi hann æa flug. Lika tæki sem hita þeas rafmagnsofn og þess háttar er mjög orkufrekt.“
Konan sagði elda einu sinni á dag ef það og mun minna á sumrin. Slökkva öll ljós nema í nær umhverfi eða þar sem hún er hverju sinni, og notast við LED perur. Karlmaður benti á að halogen hjá honum tok 20kw á sólarhring, sagðist hann hafa skipt yfir í LED og snjallrofa og það verið fimm mánuði að borga sig.
Einn benti á að athuga hvort nágranninn gæti verið að misskilja reikninginn sinn eða verið að borga alltof lítið og mun fá álagningu í lok árs. Annar sagði henni að leita til fagaðila ekki netsins.
„Það tók Veitur tvö ár að skoða mína notkun og minn reikningur fór úr 15.000 kr. í 4.800 kr.
Ekki enn fengið skýringu á þessu, enn fékk ekki reikning í 5 mánuði og eins láta þeir ekki vita hve mikið þeir skulduðu mér. Furðuleg vinnubrögð og ömurlegt þjónusta !!“ sagði ein kona.
Annar sagði konunni að hafa samband við veitufyrirtækið þitt, þar sem hún væri mögulega að greiða samkvæmt of hárri áætlun eða jafnvel af mörgum mæli. Skoða þyrfti hvort langt væri frá síðasta álestri eða hann jafnvel verið rangur. „Listinn sem gæti útskýrt þetta er nánast endalaus . Athugaðu orkuflokk á stærri heimilistækjum og skimaðu eftir framlengingasnúru sem liggur til nágrannans.“
Einn benti á að nota mætti smartplug ef grunur væri um að tæki væri orkufrekt og maður vildi fylgjast með orkunotkun á því.
Karlmaður nokkur tók fyndnina á fyrirspurnina: „Gæti verið grasið sem þu ert að rækta.“ Konan tók vel í grínið en sagði því miður engar plöntur lifa heima hjá henni.