Hildur Björnsdóttir oddviti Sjálfstæðismanna í borgarstjórn Reykjavíkur lýsir í pistli á Facebook yfir verulegum áhyggjum af stöðu skólamála hérlendis og þeim áhrifum sem það geti haft á velferð og lífsgæði landsmanna:
„Ég hef verulegar áhyggjur af þróun skólamála hérlendis. Niðurstöður PISA hafa ítrekað sýnt versnandi árangur íslenskra skólabarna og OECD sagði nýverið í úttekt sinni að hnignun grundvallarfærni íslenskra nemenda síðustu tvo áratugi væri ógnvekjandi og að hún stefndi í tvísýnu efnahagslegri velferð okkar og lífsgæðum.“
Hildur vill meina að eftirlit með grunnskólum hérlendis sé í lamasessi og hafi verið um langa hríð. Reykjavíkurborg sé eina sveitarfélag landsins sem sinni eftirliti með eigin skólum en hafi þó ekki framkvæmt staðlað ytra mat frá árinu 2019. Arnar Ævarsson, sem áður hafi starfað við ytra mat hjá Reykjavíkurborg, segi borgina hafa veigrað sér við að gefa út skýrslur sem fjalli af hreinskilni um stöðu grunnskólanna. Hann segi stórhættulegt að sveitarfélag fái að sinna eftirliti með eigin starfi og Hildur segist taka heilshugar undir það:
„Ég tel nauðsynlegt að framkvæmt verði ytra mat á öllum grunnskólum borgarinnar hið fyrsta. Samhliða verði samræmd próf í grunnskólum endurvakin fyrir 4., 7. og 10. bekk. Niðurstöður úr hvoru tveggja geti veitt mikilvæga innsýn í stöðu grunnskólanna og varpað ljósi á það hvar skólastarf hefur verið til fyrirmyndar og hvar helst er þörf á úrbótum.“
Hildur spyr að lokum hvers vegna sé ekki gripið þegar í stað til aðgerða:
„Ef við ætlum að snúa við áralangri óheillaþróun í skólamálum hérlendis þurfum við aðgengileg gögn, mælanleg markmið og skýra mælikvarða. Einungis þannig getum við sett af stað aðgerðir sem skila raunverulegum árangri. Eftir hverju erum við að bíða?“