Kynnt hafa verið í samráðsgátt stjórnvalda áform Þorbjargar Sigríðar Gunnlaugsdóttur dómsmálaráðherra um að leggja fram frumvarp til breytinga á ákvæðum hegningarlaga um öryggiráðstafanir. Ætlunin er meðal annars að bæta inn í lögin heimild til að vista þá einstaklinga áfram í fangelsi, eftir að afplánun lýkur, sem talið er mjög líklegt að muni fremja ofbeldis- eða kynferðisbrot fái þeir að ganga lausir.
Segir í samantekt í samráðsgáttinni að ákvæði almennra hegningarlaga um öryggisráðstafanir hafi að mestu staðið efnislega óbreytt frá setningu laganna. Skort hafi á samræmi í dómaframkvæmd í málum og heimild laganna um öryggisráðstafanir hafi sjaldan verið beitt.
Með frumvarpinu sé meðal annars lagt til að skýrt sé hvenær megi grípa til hvaða öryggisráðstafana og á hverju slík ákvörðun skuli byggjast. Þá sé lögð til heimild til að vista einstaklinga áfram í fangelsi eftir afplánun refsidóms með því skilyrði að einstaklingurinn hafi gerst sekur um alvarlegt afbrot og að taldar séu verulegar líkur á því, í ljósi sakaferils og andlegs ástands viðkomandi við lok afplánunar, að hann muni fremja ofbeldis- eða kynferðisbrot þegar afplánun lýkur og sé því hættulegur umhverfi sínu.
Segir einnig að með breytingunum sé einnig leitast við að uppfylla þær kröfur sem gerðar séu samkvæmt stjórnarskrá, mannréttindasáttmála Evrópu, eins og þær hafi verið túlkaðar og útfærðar í dómaframkvæmd Mannréttindadómstóls Evrópu, auk annarra mannréttindaskuldbindinga.
Í nánari útlistun á áformunum er meðal annars bent á að samræmi skorti oft í dómum þar sem kveðið sé á um að hinn dæmdi skuli sæta öryggisráðstöfunum. Hljóði dómsorð stundum á þá leið að ákærði skuli sæta öryggisgæslu á viðeigandi stofnun. Í einhverjum tilvikum sé kveðið á um tiltekna meðferð sem ákærði skuli sæta eða að ákærði skuli fá þjónustu í tilteknu búsetuúrræði. Þannig hafi það verið lagt í hendur stjórnvalda að meta hvernig bregðast skuli við dómsúrlausn t.d. um val á viðeigandi stað eða stofnun þar sem ákærði skuli sæta öryggisgæslu. Hafi þetta leitt til mikillar óvissu fyrir þá sem dæmdir hafi verið til að sæta slíkum ráðstöfunum. Einnig sé ekki nógu skýrt hver beri ábyrgð á að ráðstöfunum samkvæmt dómsorði sé framfylgt eða hver skuli bera ábyrgð á fullnustu dómsins og hvort vistunarstaður sé til staðar. Afleiðingarnar hafa m.a. verið þær að einstaklingar hafi „týnst í kerfinu“ og ráðstöfunum ekki verið framfylgt. Þá hafi vistunarstaður sem henti viðkomandi einstaklingi ekki verið til staðar og hafi þessir einstaklingar þar af leiðandi ekki fengið þá þjónustu, þ.e. ráðgjöf, stuðning, þjálfun og meðferð, sem þeir þurfi á að halda. Því sé ljóst að ekki hafi verið hægt að tryggja að þeir sem sæti öryggisráðstöfunum njóti að fullu þeirra réttinda sem þeim beri.
Segir enn fremur að endurskoðun núgildandi ákvæða hegningarlaga um öryggisráðstafanir sé nauðsynleg með tilliti til ríkjandi sjónarmiða um verndun mannréttinda. Verði ekkert gert hafi það í för með sér áframhaldandi ófullnægjandi ástand, ósamræmi dómsúrlausna um öryggisráðstafanir sem einstaklingum sé gert að sæta, auk þeirrar óvissu sem því fylgi fyrir þá einstaklinga sem um ræði.
Þegar kemur að nánari útlistun á hinum fyrirhuguðu breytingum þá segir í útlistuninni að fyrirhugaðar breytingar á ákvæðum hegningarlaga feli í sér að kveðið verði á um heimild til að dæma einstaklinga til að sæta öryggisgæslu í stað „viðeigandi hælis“ og bætt í upptalningu á mögulegum vægari öryggisráðstöfunum. Gert sé ráð fyrir að dómari taki afstöðu til tegundar og umfangs öryggisráðstafana. Þá verði bætt við sjónarmiðum sem ákvörðun um öryggisráðstafanir skuli byggjast á. Þá verði sú breyting gerð að öryggisráðstafanir verði aðeins ótímabundnar þegar einstaklingur hafi gerst sekur um allra alvarlegustu brotin, þ.e. manndráp, rán, frelsissviptingu, alvarlega líkamsárás, brennu, nauðgun eða annað alvarlegt kynferðisbrot eða fyrir tilraun eða hlutdeild til slíkra brota. Þó verði öryggisráðstafanir endurmetnar reglulega. Eigi það ekki við að öryggisráðstafanir verði ótímabundnar verði hámarkstími öryggisráðstöfunar ekki lengri en fimm ár, en heimilt verði að framlengja tímann í allt að fimm ár í senn að kröfu ríkissaksóknara.
Þegar kemur að öryggisráðstöfunum eftir að afplánun lýkur segir í útlistuninni að nauðsynlegt sé að skýra núgildandi ákvæði en á það hafi nánast ekkert reynt. Fyrirhugaðar breytingar felist í því að kveðið verði á um að heimilt verði að beita öryggisráðstöfunum að lokinni afplánun, eða áframhaldandi vistun í fangelsi. Lagt sé til að heimildin verði bundin við alvarleg afbrot, svo sem manndráp, stórfellda líkamsárás eða annað gróft ofbeldis- eða kynferðisbrot. Þá verði skilyrði að dómur telji verulegar líkur á því í ljósi sakaferils og andlegs ástands við lok afplánunar, svo og af undanfarandi breytni hans, að viðkomandi muni fremja ofbeldis- eða kynferðisbrot þegar afplánun ljúki og sé því hættulegur umhverfi sínu. Gert sé ráð fyrir að um ótímabundna ráðstöfun sé að ræða, en tryggja þurfi reglubundið endurmat þeirra.